Elsku systir
Þetta er erfiður tími núna án þín. Aldrei datt mér í hug að ég ætti eftir að setjast niður og skrifa minningarorð um þig.

Þú varst ekki bara systir mín, þú varst líka minn besti vinur og ferðafélagi, einnig varst þú búin að búa heima hjá mér í rúmlega 20 ár.

Um kvöldmataleitið þann 3. jan sátum við og spiluðum yatsi við eldhúsborðið og ræddum um ferð okkar til Budapest. Við vorum loksins búin að ákveða að fara aftur á stórmót í handbolta en við fórum síðast árið 2008. Ekkert varð af þessari ferð okkar því að þú ákvaðst að fara í sumarlandið seinna um kvöldið.

Ég veit að 2 bestu vinir þínir Ingólfur og Dóra Björk taka vel á móti þér, einnig afi og amma.

Ég veit að Björg frænka hefur einnig tekið vel á móti þér með einhverjum orðaleppum eins og henni væri einni lagið.

Þú elskaðir að ferðast. Varst búin að prófa að búa 6 mánuði í Sviss og eitt ár í Hollandi þar sem þú varst að vinna sem au pair.

Ég fluttist til Noregs árið 2011 og fór að vinna þar á fjallahóteli. Sumarið 2012, þegar þú misstir þú vinnuna þína á leikskólanum reddaði ég þér vinnu á hótelinu sem að ég var að vinna á.

Þú elskaðir Noreg, þér fannst gott að getað farið í heimsókn til Unnar og Kjell í Oslo þegar þér hentaði.

Þessi ár sem að við unnum saman í Noregi ferðuðumst við svolítið um Noreg, fórum til Danmerkur, tvisvar til Þýskalands og einnig nokkuð margar ferðir til Svíþjóðar.

Eftir að við fluttumst heim til Eyja aftur reyndum við að fara á hverju ári í heimsókn til Noregs.

Við erum búin að ferðast svolítið saman, en 2016 ákvað ég að halda upp á 50 afmælið mitt með því að fara í siglingu í karabíska hafið. Þú hafðir ekki mikin áhuga fyrst að fara í svona ferð, því að ferðast á sjó var ekkert sem að þér fannst gaman en þú lést til leiðast og fórum við 4 í þessa sigling, ég, Alli bróðir, þú og einnig ákvað Flóvent að koma með okkur.

Í þessari ferð fundum við það út að þetta var FRÍIÐ okkar og skemmtum við okkur frábærlega í þessari ferð. Tveimur árum seinna þegar Alli bróðir varð fimmtugar var fórum við aftur í siglingu í karabíska.

Svo þegar þú varst fimmtug var ákveðið að fara í 3ju ferð okkar en út af covid var þeirri ferð frestað um óákveðin tíma, en vorum við byrjuð að ræða um að reyna fara í afmælisferðina þína núna í haust. En þú kemur víst ekki með okkur Aðalsteini í þá ferð en ég veit að þú verður nú samt með okkur Alla þar.

Ef að mig vantaði ferðafélaga, hvort sem að það var bara að fara á tónleika eða handboltaleiki í Reykjavík eða að koma með mér á fótboltaleik í Finnlandi varst þú alltaf tilbúin að koma með.

Þú hafðir mikinn áhuga á handbolta og var ÍBV liðið þitt og mættir þú á alla leiki sem að þú komst á og verður það skrítið að sjá þig ekki í sætinu þina á leikjunum framvegis.

Enda sýndi ÍBV liðið þér mikla virðingu í fyrsta leik sínum eftir andlát þitt.

Þú þjálfaðir líka boccia hjá Íþróttafélaginu Ægi í fjöldamörg ár og fékkst þú silfurmerki ÍBV í viðurkenningu fyrir störf þín þar og er ég viss um að þeir sem að þú þjáfaðir þar koma til með að sakna þín mikið.

Elsku systir missir okkar allra er mikill og er þín sárt saknað af okkur öllum. Elsku Pabbi, mamma , Alli, Soffía,Gummi, Sylvía, Alexander og Gabríel missir okkar er mikill enn við eigum öll góðar minnigar um Þórinu sem að við getum yljað okkur með.

Þinn bróðir Hjálmar