Ég man þá tíð þegar að krakkarnir söfnuðust saman við eina litasjónvarpið í götunni, ég man þá tíð þegar að röð var í mjólkurbúðinni, ég man þá tíð þegar að flaggið á stöðvunum gaf skilaboð til starfsfólksins um vinnu, ég man þá tíð þegar vani var að spara kranavatnið og ég man þá tíð þegar að rafmagnsleysi hrjáði okkur reglulega á árunum eftir gos.

Kynslóðin sem nú tekur við keflinu kannast kannski ekki við þessa tíma enda í raun ekkert sérstaklega öfundsverðir. Þeir kallar fram skemmtilegar minningar minna jafnaldra og þáþrá sumra um einfaldari lifnaðarhætti, en þó ekkert endilega betri. Við voru þá fleiri sem hér bjuggum en tækifæri fólks voru jafnvel færri og atvinna ekki fjölbreytt. Hlutskipti kynjanna var svo heldur ekki það sama og nú þekkist. Sem ung stelpa þá hefði ég aldrei geta gert mér í hugarlund allar þær breytingar sem litið hafa dagsins ljós á tæpri mannsævi.

Þúsaldarkynslóðin þekkir kannski ekki regnvatnið í brunnunum eða skyrið í smjörpappírnum. Sú kynslóð sem alin er upp við gémsa, geisladiska og geislasverð. En þessi kynslóð kann fyrir vikið betur á tæki, tölvur og tækni. Þetta er kynslóðin sem getur skapað sér sjálf sín eigin tækifæri. Með alheiminn tengdan í höndum sér virðast henni allir vegir færir. Þetta er kynslóðin sem við þurfum að veita athygli og vera framsýn í laða til okkar.

Vestmannaeyjabær og Sjálfstæðisflokkurinn sýndi á sínum tíma framsýni í verki með ákvörðunartöku og framkvæmd við endurbætur og umbreytingar á Fiskiðjuhúsinu. Uppbygging sem varð að pólitísku bitbeini þá en fæstir efast um ágæti fjárfestingarinnar nú. Úr varð uppbygging miðstöðvar fyrir fyrirtæki í bænum sem sinna ólíkum verkefnum og aðstaða fyrir ný fyrirtæki að koma inn í skapandi og skemmtilegt umhverfi. Nám og viðvera Háskólans í Reykjavík þar má taka sem dæmi um stórt skref um framsýni þar sem tækni og fjarfundabúnaður er nýttur svo fólk geti án flutninga sótt sér spennandi menntun sem samofin er okkar samfélagi. Slíka kosti hefur Viska einnig þróað um nokkurt skeið og kynntist ég þeim möguleika sjálf. Tækni þessi hefur svo á undanförnum árum, í þekktum heimsfaraldrinum, orðið hluti af daglegri vinnu fólks víða um lönd. Nýtt vinnufyrirkomulag sem við getum vafalaust litið á sem sóknarfæri Eyjanna.

Einhverjir líta svo á að menntun sé helsta vá landsbyggðarinnar. Við menntum börnin okkar í burtu því að námi loknu sjá þau ekki fyrir sér tækifæri hámenntaðra á heimahögunum og skjóta jafnvel rótum annarsstaðar. Sveitarfélagið sjálft stofnar ekki fyrirtæki eða stuðlar að beinum atvinnurekstri en sveitarfélagið getur þó undirbúið frjósaman jarðveg fyrir fólkið sem vill snúa heim. Við skulum því bjóða framúrskarandi þjónustu svo ungar barnafjölskyldur sjái hag sinn í að flytja til Eyja og setjast að. Fólk sem sér tækifæri í að nýta tæknina og hugvitið til þess að byggja upp atvinnu fyrir sig og jafnvel aðra. Náttúran og samfélagið hér mun alltaf toga eitthvað af unga fólkinu okkar til baka en það þarf líka að eiga í sig og á. Það kemur þá vonandi heim á ný með hausinn fullan af hugmyndum, brjóst fullt af löngunum og þor til þess að sækja fram. Við þurfum að vera framsýn í að endurhugsa eldri atvinnugreinar, framsýn í að þróa ferðaþjónustuna og framsýn í að nýta tækninýjungar. Því án framfara er engin framtíð.

Áfram Eyjar!

Rut Haraldsdóttir,
óskar eftir 5. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins