Þetta er ekki enn ein kosningagreinin eða neinar beinar pólitískar hamingjuóskir. Þannig er ég ekki að óska einstaka aðilum eða flokkum til hamingju með kjör eða gengi, enda hlutleysi mitt takmarkað í nýlegu prófkjöri þar sem á meðal frambjóðenda voru góðir vinir mínir, kunningjar og jafnvel mér enn tengdari einstaklingar. Ég vil þess í stað óska þeim sem nýverið hafa gripið í penna, til hamingju með mikil og góð skrif um málefni sveitarfélagsins. Er þetta myndarlegt upphaf að komandi kosningabaráttu. Það er því fordæmið um málefnaumræðuna, sem nú hefur verið sett, sem hamingjan beinist að. Undanfarið kvöddu ekki bara frambjóðendur sér hljóðs heldur birtust einnig í miðju greinaflóðinu meðal annars fín skrif eins nefndarformanns og einnig bæjarstjóra. Ljóst er að prófkjör hratt af stað mikilli uppsafnaðri spennu um uppbyggileg skoðanaskipti.

Hið ritaða orð hefur verið á miklu undanhaldi undanfarin ár og fækkar góðum greinum óðan. Fáir gefa sér tíma til þess að hripa niður hugsanir sínar og hugmyndir. Fyrir vikið skapast lítil umræða og fólk er illa upplýst um stefnur og framtíðarsýn þeirra sem eru í forsvari. Það er ekki allra að lesa sig í gegnum þurrar fundargerðir sveitarfélaga eða langorðaðar samþykktir. Einnig er ekki á fjölmiðla eina sett að túlka allar slíkar áætlanir eða framsetja stefnur fyrir fulltrúana. Það reynist í raun mjög auðvelt á þessari öld að fá hugrenninga sína birta og boðskap sinn í dreifingu, líkt og ég geri nú.

Fyrir okkur Eyjamenn sem um stund búum ekki heima, en látum okkur ætíð mál- og hugðarefni samfélagsins varða, skipta skrifin máli. Við fylgjumst nefnilega með miðlunum og lesum það sem birt er. Fyrir vikið eru kosningar skemmtilegur tími til að fylgjast með úr fjarska. Þá gefst okkur tækifæri til að kynnast betur því sem brennur á íbúum og frambjóðendum á meðan barist er með blekinu. En að atkvæðaveiðunum loknum leggjast þó slík skrif því miður oft aftur í nokkurn dvala.

Mig langar þess vegna að hvetja sitjandi og verðandi fulltrúa bæjarins til þess að vera sýnileg með ákvarðanir, hugmyndir og áætlanir. Vera dugleg að skapa umræðu og veita upplýsingar. Hvatningin mun vonandi ná til fólks í nefndum, ráðum eða stjórnum, þeirra sem stýra sérstökum verkefnum og eða annarra sem hafa innsýn í áhugaverða málaflokka sveitarfélagsins svo sem málefni íþrótta, menningar eða atvinnulífs.

Það getur þó verið stressandi að stara á hvíta örkina og reyna að stama út úr sér nokkrum vel völdum orðum. Óskandi er að opna á samtal, vera áberandi og setja fram hugmyndir í bundnu máli líkt og þegar blaðaskrif voru upp á sitt besta og vinsælastar á prenti voru skoðanir húsmæðra í vesturbænum. Nýtið tækifærin til þess að eiga uppbyggileg skoðanaskipti, rökræða og vera ósammála. Því Eyjamenn heima og að heiman eru að fylgjast með. Þess vegna er ég að óska öllum þeim sem hingað til hafa gefið sér tíma eða látið slag standa við að skrifa góðar greinar, til hamingju.

Kristinn Pálsson
Eyjamaður