Tilkynnt var um val á Bæjarlistamanni Vestmannaeyja í Eldheimum í dag. Njáll Ragnarsson, formaður bæjarráðs tilkynnti valið og afhenti Laufey Konný Guðjónsdóttur fulltrúa félagsins viðurkenninguna. Á athöfninni fluttu Heiðmar Magnússon og Magdalena Jónasdóttir ljóð og skólalúðrasveit Vesmannaeyja spilaði nokkur lög.

Fram kom í ræðu Njáls að bæjarráð var einróma í afstöðu sinni um að félagið auðgi svo sannarlega menningarlíf okkar Eyjamanna og sé vel að nafnbótinni komið.

Lista- og menningarfélag Vestmannaeyja var stofnað 2. mars 2019 og er tilgangur félagsins að sameina, efla og virkja listsköpun og gera listsköpun einstaklinga sýnilegri í samfélaginu, bæði í Vestmannaeyjum sem og á fastalandinu.

Þann 1. október 2019 fékk félagið aðstöðu í Hvíta húsinu við Strandveg 50 og eru 67 listamenn í félaginu. Í byrjun var hluta þriðju hæð hússins úthlutað til félagsins en fljótlega varð ljóst að töluvert meiri eftirspurn var eftir vinnustofum fyrir listafólk í Vestmannaeyjum. Í dag eru leigðar út 33 vinnustofur hjá félaginu ýmist til einstaklinga í sér rými eða í sameiginlegu rými.

Félagið hefur staðið fyrir fjölda sýninga einstaklinga auk samsýninga og hefur auk þess staðið fyrir námskeiðahaldi fyrir nemendur Grunnskóla Vestmannaeyja á smiðjudögum undanfarin tvö ár og hefur verkefnið tekist vel. Þá hafa félagar í félaginu staðið fyrir sumarnámskeiðum fyrir börn og ungmenni.