Landsnet hefur ákveðið að taka Vestmannaeyjalínu 1 úr rekstri næstu vikurnar vegna „óvæntra leigjenda“. Hrafnapar hefur búið sér til laup á endastæðu línunnar við Rimakot.

Landsnet greinir frá þessu á Facebook þar sem segir að hrafnaparið hafi fjölgað sér.

„Þar sem við hjá Landsneti leggjum okkur alltaf fram við að sýna ábyrgð í umgengni við náttúruna höfðum við pínu áhyggjur af ungunum þegar þeir færu að fara úr hreiðrinu. Þar sem línan skiptir ekki sköpum á svæðinu í augnablikinu ákváðum við að taka hana úr rekstri á meðan ungarnir væru að komast á legg,“ segir í Facebook-færslunni.

Í samtali við Vísi.is segir Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Landsnets, að það að línan sé tekin tímabundið úr rekstri hafi ekki áhrif á flutningsgetu rafmagns til Eyja eða afhendingaröryggi þar sem alls liggi þrír strengir til Eyja.

„Þetta var rakið tækifæri til að bjarga þessum ungum,“ segir hún. Hún segir það þekkt í raflínubransanum að fuglar geri sér hreiður í raflínustaurum. Þó segist hún ekki reka minni til þess að lína hafi verið tekin úr rekstri vegna hreiðurgerðar fugla.

„Það er bara vonandi að þessir hrafnar komist á legg og þegar það gerist þá munum við hreinsa hreiðrið úr stæðunni svo þeir komi ekki aftur.“