Orkumótið í fótbolta hefst formlega á morgun, miðvikudag, en sjálf keppnin stendur yfir frá fimmtudegi til laugardags. Á mótinu keppir 6. flokkur karla og fyrsta mótið var haldið árið 1984.

Keppt verður á öllum knattspyrnuvöllum Eyjanna; Helgafellsvelli, Týsvelli, Hásteinsvelli, Þórsvelli og í Herjólfshöllinni.

Glæsileg dagskrá er framundan hjá leikmönnum, foreldrum og liðsstjórum og má búast við miklum mannfjölda í bænum yfir mótsdagana. Dagskráin inniheldur meðal annars; bátsferðir, skrúðgöngu og kvöldvöku, en Jón Jónsson tónlistarmaður mun koma fram á kvöldvökunni.