Nýjasta tölublað Bændablaðsins, sem kom út 21. júlí síðastliðinn, er heilsíðugrein um sjávarútveg.

Fyrirsögn greinarinnar, sem er sú sama og á þessari færslu hér, greip augu blaðamanns og tók ekki eftir því fyrr en langt var liðið á lesturinn að greinin var eftir Eyjamanninn Binna, sem er oftar en ekkikenndur við Vinnslustöðina.

Ekki er ætlunin að skrifa upp greinina sem birtst þar, en erindið á hvergi eins vel við og í sjávarbæ á Íslandi og því verður stiklað á stóru hér.

Vísað er í rannsóknir háskólaprófessorsins Michael DeAlessi sem rannsakar skipulag fiskveiða og áhrif þeirra á samfélög og fólkið sem þau byggja.

Fyrir nokkrum árum birti hann rannsókn um þróun ostruveiða í tveimur aðskildum flóum í Bandaríkjunum. í öðrum flóanum báru menn gæfu til að skipta veiðisvæðum á milli sín, þar hafa veiðimenn barist gegn mengun í flóanum og stundað ostrueldi til að auka afkomu sína. Þar eru nú dæmi um fimmtu kynslóð ostrubænda sem lifa í sátt við umhverfið og standa fyrir um 25% allrar ostruframleiðslu í Bandaríkjunum.

Íbúar í hinum flóanum voru ekki eins lánsamir, því veiðimenn börðust lengi um aflann og aðgengi að honum. Hið opinbera takmarkaði veiðar til að vernda stofninn, en aflinn drógst saman ár frá ári. Veiðar voru takmarkaðar með ýmsum hætti svo sem sköttum og veiðibönnum. Það var svo uppúr 1900 þegar vélbátar komu fram að afköstin jukust mikið en aflinn dróst saman. Var þá ákveðið að einungis mætti veiða með vélarafli tvo daga vikunnar en hina dagana þurfti að nota segl. Þetta fyrirkomulag er enn til staðar. Fiskimenn framfleyta ekki fjölskyldum sínum á andvirði þess litla afla sem dreginn er á land og börn vilja ekki taka við útgerð foreldra sinna.

Niðurstaða rannsókna Michaels eru að því skýrari sem eignarréttur er vel skilgreindur, því mun meira munu fiskimenn leggja til þjóðarbúsins en þeir sem búa við lélegt skipulag.

Unnið uppúr grein í Bændablaðinu sem kom út 21. júlí 2022.