Makrílvertíð án þjóðhátíðarhlés

Makríllinn í Smugunni vonast trúlega eftir því að geta sveiflað sporði áhyggjulaust á meðan þjóðhátíð varir í Vestmannaeyjum. Svo verður ekki. Vertíðin hefur sinn gang, bæði veiðar og vinnsla. Það á að minnsti við um Vinnslustöðina.

Öll uppsjávarskipin fjögur eru á sjó og vinna í landi verður í samræmi við aflann sem berst að landi. Þannig verða vélar ræstar síðdegis í dag (þriðjudag) þegar byrjað verður að landa úr Kap VE og á fimmtudaginn er Ísleifur VE væntanlegur heim til löndunar. Þar með er fyrir séð að hráefni sé tryggt til vinnslu til laugardags. Svo er spurning um hvernig veiðar gangi hjá Hugin VE sem yrði þá næsta skip í löndunarröðinni.

Sindri Viðarsson, sviðsstjóri uppsjávarsviðs VSV, segir að staðan á makrílvertíðinni sé annars góð:

„Þetta er ágætis kropp. Við höfum veitt meira en á sama tíma í fyrra og nú er um þriðjungur kvótans veiddur. Vinnslan gengur vel og fiskurinn fer batnandi. Makríllinn var magur framan af en fitnar nú hratt og við sjáum mun á ástandi hans til hins betra í hverjum túr.

Mótdrægt er hve miðin eru norðarlega í Smugunni. Siglingin tekur hálfan þriðja sólarhring hvora leið.“

 

Fyrir margan Eyjamanninn er þjóðhátíðin í Herjólfsdal heilagri tími en allt sem heilagt er eða alla vega flest. Sumir vildu frekar fjör í Dalnum en makríl og varð því að manna ýmsar stöður til lands og sjávar með afleysingafólki. Það gekk bara ljómandi vel, segir Lilja B. Arngrímsdóttir, yfirmaður starfsmannahalds VSV:

„Flestir gera sér grein fyrir því að erfitt er að stöðva vertíðina svo dögum skiptir. Margir í starfsmannahópnum okkar vilja vinna þjóðhátíðardagana og reynt var eftir megni að uppfylla óskir þeirra sem vildu frí með því að fá afleysingafólk.

Við náðum að manna vaktir svo fljótt og vel að undrun sætir. Það á líka við um afleysingar fyrir iðnaðarmennina í Hafnareyri og áhafnir skipanna. Skipulagið gekk ótrúlega vel og allir sem koma þar að málum eiga mikið hrós skilið.“

Afleysingamenn voru ekki allir sóttir innan túngarðs VSV í Eyjum. Til að mynda er mættur tæknimaður alla leið frá Portúgal til að vinna í makríl á meðan glaumur og gleði ríkir í Herjólfsdal!

Af heimasíðu Vinnslustöðvarinnar, vsv.is.