Á laugardaginn var Rampur númer 160 í átakinu Römpum upp Ísland vígður við Brothers Brewery í Vestmannaeyjum. Um leið var fyrsti styrkur veittur úr Minningarsjóði Gunnars Karls Haraldssonar sem hefur það að markmiði að styrkja og efla fólk með fötlun til þátttöku í samfélaginu.

Fyrsta styrkinn hlaut Arna  Sigríður Albertsdóttir íþróttakona sem keppir í handahjólreiðum. Rampurinn við BB er einn níu rampa sem settir hafa verið upp við fyrirtæki í Eyjum og gera fólki í hjólastólum kleift að kíkja við án aðstoðar annarra.

Fjölmenni var á BB þar sem Tríó Þóris Ólafssonar tróð upp og Helga Jóhanna Harðardóttir frá fjölskyldu- og tómstundarráði og Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri fluttu ávörp. Systur Gunnars Karls, Hrefna og Eyrún sögðu frá Minningarsjóði Gunnars Karls og tilkynntu um fyrsta styrkinn. Loks var rampur númer 160 vígður.

Markmið sjóðsins er að halda baráttumáli Gunnars Karls, sem hefði orðið 28 ára í gær, 25. september á lofti með því að styrkja einstaklinga með fötlun til náms, tómstunda og íþróttaiðkunar og málefni sem styðja við þátttöku fatlaðra jafnt við aðra í samfélaginu.

„Minningarsjóður Gunnars Karls er stofnaður til minningar um Gunnar Karl Haraldsson sem lést 28. febrúar 2021 eftir baráttu við krabbamein. Markmið sjóðsins er að halda baráttumáli hans á lofti með því að styrkja einstaklinga með fötlun til náms, tómstunda og íþróttaiðkunar og málefni sem styðja við þátttöku fatlaðra jafnt við aðra í samfélaginu,“ segir á heimasíðunni gunnarkarl.is.

Mynd Addi í London.

Fjölskylda Gunnars Karls, Haraldur Þorsteinn Gunnarsson, Hrefna, Eyrún og Kristín Gunnarsdóttir. Með þeim eru Guðjón Ólafsson og Halldór Björn Sæþórsson.