„Við vorum að ganga frá um borð og kveðja höfðingjann. Það var sérstök tilfinning,“ sagði Klemens Sigurðsson skipstjóri á Brynjólfi VE-3 í Belgíu í gærkvöld eftir að hafa skilað skipinu í hendur nýrra eigenda.

Vinnslustöðin seldi skipið til niðurrifs og kaupendurnir tóku sem sagt við því ytra í gærkvöld. Fjögurra manna áhöfn sigldi Brynjólfi út og sonur eins þeirra var sá fimmti um borð.

„Við lögðum af stað frá Vestmannaeyjum 1. desember og komum hingað á áfangastað að kvöldi 6. desember. Lokaáfanginn var óvenjulegur fyrir okkur og býsna krefjandi. Við sigldum eftir skipaskurðum langt inn í land og umferð var mikil á leiðinni. Óhætt er að segja að leggur ferðarinnar hafi verið krefjandi og kallaði á ekki minna en 110 prósenta árvekni og aðgæslu“!

Brynjólfur er íslenskt gæðaskip, smíðaður á Akranesi 1987 og var liður í raðsmíðaverkefni í íslenskum skipasmíðaiðnaði á þeim tíma. Skipið hefur alla tíð verið í mikilli notkun. Það hefur verið rækjufrystiskip, botnfisktogari, humarbátur og netabátur og alltaf gengið vel.

Vinnslustöðin eignaðist Brynjólf árið 2005 og gerði þá miklar endurbætur á skipinu. Nú var aftur kominn mikil þörf fyrir viðhald og endurbætur en ekki var talið borga sig að fara í slíkt núna. Skipið er einfaldlega búið að gegna sínu hlutverki og skila sínu.

Frá vinstri á myndinni eru Leifur Hjartarson (sonur Hjartar Sigurðssonar), Hjörtur Sigurðsson vélstjóri, Klemens Sigurðsson skipstjóri, Úlfar Kári Jóhannsson vélstjóri og Helgi Ágústsson stýrimaður.