Útilokað er að reka fiskiðjuver í óvissu um hvort raforka sé alltaf tiltæk til að halda öllu gangandi, fyrst og fremst fiskimjölsframleiðslu á yfirstandandi loðnuvertíð. Ef eitthvað klikkar í þeim efnum er voðinn vís, augljóslega. Að leigja rafstöðvar er nauðsynleg öryggisráðstöfun.

Þetta segir Willum Andersen, tæknilegur rekstrarstjóri VSV, í tilefni af því að í morgun var lokið við að tengja tvær dísilrafstöðvar við kerfi Vinnslustöðvarinnar. Önnur rafstöðin er tengd fiskimjölsverksmiðjunni, hin löndunar- og hrognabúnaði fyrirtækisins. Þær voru síðan prófaðar.

Stjórnendur Vinnslustöðvarinnar vilja hafa vaðið fyrir neðan sig á tímum óvissu um hvort fullnægjandi raforka fáist til starfsemi fyrirtækisins eða hvort framhald verði á skertri afhendingu raforku frá Landsvirkjun til stórnotenda, þar á meðal til fiskimjölsverksmiðja. Vinnslustöðin tók á leigu tvær dísilrafstöðvar frá Catepillar og þær eru sem sagt báðar komnar til Eyja erlendis frá. Hvor stöð getur framleitt 1 megavatt.

Upphaflega stóð til að leigja fimm rafstöðvar en HS veitur ætla að tryggja Vinnslustöðinni raforku umfram það sem tvær afkasta, ef þörf krefur á annað borð. Í því ljósi var ákveðið að láta tvær leigustöðvar duga í þetta sinn.

í landi grænnar og hreinnar orku er staðan því sú að gera þarf ráðstafanir með dísildrifnum orkugjöfum til að eyða óvissu um hvort rafmagn fáist til að halda hjólum fiskimjölsverksmiðjunnar gangandi á bjargræðistíma loðnuvertíðar! Er það ekki nokkuð sérstakt, Willum Andersen?

Hvort það er. Auðvitað er alveg stórfurðulegt að þurfa að standa í þessu í landi þar sem stjórnvöld þreytast seint á því að tala um græna orku og orkuskipti!

Ég var á fundi á dögunum þar sem fram kom hjá fulltrúum Landsnets að búið yrði að tryggja Vestmannaeyjum 50 megavött af forgangsorku árið 2030. Þegar að er gáð er markið er ekki sett hátt þegar horft er til þarfarinnar sem blasir við á allra næstu árum. Ef við lítum til Vinnslustöðvarinnar einnar má gera ráð fyrir því að þörf hennar verði komin í 26 megavött árið 2030, eftir fyrirsjáanlegar breytingar og aukin umsvif í landvinnslu og í fiskimjölsverksmiðjunni.

Þar við bætist orkuþörf Ísfélagsins og fleiri fyrirtækja, að ógleymdu fiskeldi sem á að byggja hér upp á næstu misserum og árum og talið er að þurfi allt að 15 megavött.

Ég hef ekki trú á að fyrirtæki fari viljug út í orkuskipti án þess að þeim sé tryggð forgangsraforka.

Á  myndinni eru þeir sem vinna við að tengja og prófa dísilstöðvarnar. Frá vinstri: Sigurður Vilhjálmsson frá Kletti – umboðsfyrirtæki Catepillar á Íslandi, Garðar Gíslason, rafvirki hjá VSV, Ágúst Einarsson, rafvirki hjá VSV, og Jón Gísli Ólason frá rafverktakanum WATT ehf. Mynd: Willum Andersen.