[vc_row el_id=”div_postion_row_id” el_class=”td-ss-row”][vc_column width=”2/3″][vc_column_text]Útgefandi: Eyjasýn ehf. ( kt. 480278-0549 )
Ægisgata 2, 900 Vestmannaeyjum
Netfang: frettir [hjá] eyjafrettir.is
Stafræn útgáfa: www.eyjafrettir.is
Ritstjórn/Ábyrgð útgáfu: Ómar Garðarsson.
Umbrot: Sæþór Vídó Þorbjarnarson, verktaki.

Saga blaðsins
Aðdragandann að stofnun Frétta má rekja til löngunar Guðlaugs Sigurðssonar, sem þá var prentari í Prentsmiðjunni Eyrúnu, að setja á stofn eigin prentsmiðju. Blaðaútgáfa var þá ekki í deiglunni. Á þessum tíma gáfu þeir út Útsvarsskrá Vestmannaeyja, félagarnir Arnar Sigurmundsson, Andri Hrólfsson og Sigurður Jónsson. Hvöttu þeir Guðlaug mjög til að setja á stofn prentsmiðju og myndi Útsvarsskráin verða prentuð hjá honum. Það varð svo úr árið 1972 að þeir fjórir stofnuðu hlutafélagið Eyjaprent hf. og hófu strax að undirbúa kaup á tækjum til rekstursins. Leið svo nokkur tími þar til von var á tækjunum. Það var svo að kvöldi mánudagsins 22. janúar 1973 að gamli Herjólfur lagði af stað frá Reykjavík til Eyja, og innanborðs var prentvél í nýja fyrirtækið. En Herjólfur skilaði prentvélinni ekki á land í Eyjum í þetta sinn, því um nóttina hófst eldgos á Heimaey og prentsmiðjurekstur því ekki tímabær um sinn. Gosið tók hug manna allan og allt sem því fylgdi. En öll gos hætta um síðir og svo varð einnig um Heimaeyjargosið. Þegar fólk tók að flytjast aftur til Vestmannaeyja að gosi loknu, tóku aðstandendur Eyjaprents að huga að prentsmiðjurekstrinum að nýju. Tækin voru nú fengin til Eyja og húsnæði Alþýðubandalagsins að Bárustíg 9 tekið á leigu undir reksturinn. Og í október 1973 hófst svo starfsemi Eyjaprents. Mikið var að gera í fyrirtækinu og þar var meðal annars prentað blaðið Dagskrá. En þar kom að Prentsmiðjan Eyrún var endurreist í Eyjum, en hún hafði farið undir hraun í gosinu. Þar hafði Dagskráin verið prentuð fyrir gos og nú ákvað eigandi hennar að flytja prentunina þangað að nýju.. Í Eyjaprenti var hinsvegar til mikill pappírsforði sem ætlaður var í Dagskrá, auk þess sem missir þessa verkefnis var töluverður fyrir prentsmiðjuna. Það varð því úr að Eyjaprent ákvað að stofna eigið héraðsfréttablað sem fékk nafnið FRÉTTIR. Mun Sigurður Jónsson, einn hluthafanna hafa átt hugmyndina að nafninu. Fyrsta blaðið leit dagsins ljós 28. júní árið 1974. Ritstjóri var Guðlaugur Sigurðsson. Blaðið var 4 síður að stærð og fékk strax ágætar viðtökur. Því var dreift ókeypis í allar verslanir bæjarins en auglýsingar báru uppi kostnað við útgáfuna. FRÉTTIR voru oft djarfar í málflutningi sínum og sögðu hlutina tæpitungulaust. Umfjöllun blaðsins um slæma meðferð á vörum til Eyja með Ríkisskipum, urðu m.a. til þess að hafnarverkamenn í Reykjavík neituðu að ferma Herjólf, fyrr en blaðið bæði þá afsökunar. Það gerði ritstjórinn og Herjólfur tók að sigla á ný.

Smám saman batnaði tækjakostur prentsmiðjunnar og að sama skapi óx blaðinu ásmegin. Bæði tóku prentgæði miklum framförum og meiri metnaður var lagður í blaðið. Árið 1984 var blaðið stækkað í 8 12 síður eftir atvikum. og rauður varð einkennislitur FRÉTTA. Tímamót verða í rekstrinum árið 1992 Fram að því hafði blaðinu verið dreift ókeypis en um mitt ár 1992 var farið að selja blaðið í áskrift og einnig í lausasölu í nokkrum verslunum. Var þetta gert vegna erfiðrar afkomu blaðsins árin þar á undan. Auglýsingatekjur þess einar og sér, dugðu ekki lengur fyrir rekstrarkostnaðinum. Um leið var útliti þess breytt verulega, brot þess minnkað dálítið og litvæðing aukin. Einnig var lagt upp með efnismeira blað. Þessi breyting fékk strax góðar viðtökur og kaupendur blaðsins urðu fljótlega flestir íbúar Eyjanna auk nokkur hundruða, sem búsettir eru á meginlandinu. Þetta varð til þess að reksturinn tók að standa undir sér og gerði það næstu árin.

Ný tækni með tilkomu Netsins, varð þess valdandi að ritstjórn FRÉTTA ákvað að reyna fyrir sér með netútgáfu auk pappírs-FRÉTTA. Hugmyndin er að pappírs-FRÉTTIR haldi sínu striki, en efni blaðsins verði síðan sett inn á netútgáfuna, auk þess sem hún verður uppfærð á hverjum degi eða eins oft og þurfa þykir og tilefni gefast til. Það er von útgefenda blaðsins, að þessi nýjung eigi eftir að bæta og auka samskiptin við lesendur og gera blaðið áhugaverðara.

Undanfarin ár hefur félagið þó verið rekið með miklum halla. Í byrjun júlí 2018 var því ákveðið að stokka upp í fyrirtækinu í tilraun til að bjarga því frá falli. Húsnæði félagsins að Strandvegi 47 var selt og ritstjórn flutti að Ægisgötu 2. Ákveðið var að fækka útgáfudögum niður í a.m.k. einn í mánuði og leggja í kjölfarið meiri áherslu á vefinn.

Ómar Garðarsson, sem hafði ritstýrt FRÉTTUM í rúma tvo áratugi, ákvað að stíga til hliðar í byrjun október 2012 en Ómar starfar áfram sem blaðamaður. Við sama tækifæri var nafni blaðsins breytt í EYJAFRÉTTIR, til samræmis við vefmiðilinn eyjafrettir.is. Sæþór Þorbjarnarson starfar einnig sem blaðamaður og grafískur hönnuður hjá Eyjafréttum. Í byrjun desember 2014 tók Ómar Garðarsson á ný við ritstjórn Eyjafrétta og stýrði blaðinu þar til Sara Sjöfn Grettisdóttir tók við í ágúst 2017. Um áramótin 2017/2018 lét Ómar af störfum hjá blaðinu en er því innan seilingar þegar á þarf að halda.

Um eyjafréttir.is
Eyjafrettir.is er lifandi miðill með daglegum fréttum og upplýsingum um lífið og tilveruna í Vestmannaeyjum. Eyjafrettir.is hóf göngu sína 6. júlí árið 2000 og fyrsta fréttin sem fór inn á vefinn var um hækkun flugfargjalda Flugfélags Íslands. Í ljósi þess mikilvægis sem samgöngumál eru Vestmannaeyingum, er það kannski táknrænt að einmitt hún skyldi vera fyrsta fréttin.

Eyjafrettir.is er rekinn til hliðar við blað Eyjafrétta og er ætlað að flytja fréttir af daglegu lífi Eyjamanna ásamt skoðanaskiptum manna á milli. Hann er öllum opinn til skoðanaskipta og ábendingar um efni og fréttir er vel þegnar.

 

[/vc_column_text][/vc_column][vc_column width=”1/3″ el_class=”right_side_div_id”][vc_widget_sidebar sidebar_id=”td-td_demo_category”][/vc_column][/vc_row]

Dýptarmæling

Ekki liggja fyrir nýjar mælingar 

Góð ráð fyrir siglingu

Sjóveiki

Hvað er sjóveiki?

Sjóveiki er misræmi milli skynfæra líkamans sem senda boð til heilans um hreyfingu – kyrrstöðu.

Þegar einstaklingur er úti á sjó þá nema skynjarar í vökvafylltum gangi í innra eyra hreyfingu og senda boð til heilans að einstaklingur sé á hreyfingu. Augun senda hins vegar boð til heilans um að viðkomandi sé kyrr. Heilinn á erfitt með að vinna úr þessum misvísandi og ósamræmdu upplýsingum og sendir skilaboð til magans um að tæma sig – þ.e. veldur uppköstum.

Einkenni sjóveiki eru þreyta, ógleði, svimi, svitakóf og uppköst.

Góð ráð til að hindra sjóveiki:

  • Góð hvíld daginn fyrir brottför. Að fara seint að sofa og snemma um borð í bát fer ekki vel saman ef fólk er hætt við sjóveiki.
  • Forðist áfenga drykki daginn fyrir brottför
  • Forðist djúpsteiktan, brasaðan eða saltan mat daginn fyrir siglingu.
  • Borðið góðan morgunverð. Borðið gjarnan hvítt brauð, hafragraut og ávexti þó ekki sítrus ávexti.
  • Forðist mikið koffein. Mikið kaffi er ekki það sem maganum líkar fyrir sjóferð.
  • Hafðu mat með þér á sjó. Gott er að hafa samlokur með kjúklingi eða kalkún. Kjötið er fitusnautt og brauðið er róandi í maga. Hafðu endilega eitthvað til að grípa í sem er létt í maga. Bananar eru mjög góðir til að narta í ef þú finnur fyrir ógleði en einnig er gott að hafa létt kex eða annað sem er ekki salt eða fitumikið.
  • Drekkið vel af vatni en einnig er gott er að drekka kóla drykki eða engiferöl í sjóferðinni

Lyf við sjóveiki þ.e. lyf sem slá á einkennin og fást án lyfseðils í apóteki.

  • Koffínátín – fæst án lyfseðils
  • Postafen – fæst án lyfseðils
  • Scopolamin plástur – lyfseðilsskyltEinnig má fá armbönd gegn ferðaveiki sem sumir telja að hjálpi.

Önnur ráð:

  • Engifer er jurt sem nýlega hefur fengið aukna athygli vegna þess að því er haldið fram að hún geti slegið á ógleði sem fylgir sjóveiki. Til forna tuggðu kínverskir sjómenn engiferrót til að draga úr sjóveiki. Flest lyf sem virka á ógleði verka á heilann en engifer virkar aðeins á magann. Ráðlagt er að taka 1000 mg. hylki hálftíma fyrir brottför. Einnig má taka eitt eða tvö 500 mg. hylki sem eru til viðbótar á ferðalaginu. Ekki er ráðlagt að drekka coke með engifertöflum.
  • Piparminta og te eru einnig gömul húsráð við ferðaveiki.
  • Sumum finnst betra að taka sýrujafnandi töflur, Alminox eða slíkt áður en þú heldur á sjó og þá er gott að hafa box með út á sjó.

Hvar í skipinu er best að vera o.fl.

  • Minna finnst fyrir hreyfingu og veltingi ef maður er staddur næst miðju bátsins.
  • Mörgum finnst gott að vera í kulda, t.d.að vera úti á dekki og láta vindinn leika um sig.
  • Matarlykt fer illa í þá sem hætt er við sjóveiki og einnig pústið frá bátnum.

Þungun:

Þungaðar konur sem þjást af sjóveiki mega nota koffinátín í litlum skömmtum en best er að ráðfæra sig við lækni eða lyfjafræðing.
Þunguðum konum er ekki ráðlagt að nota engifer þar sem það er ekki staðfest hvort það geti haft skaðleg áhrif á fóstur.

Eyjafréttir
Friðhelgisyfirlýsing

Þessi vefsíða notar fótspor til að við getum veitt þér bestu notendaupplifun. Upplýsingar um fótspor eru geymdar í vafranum þínum og framkvæma aðgerðir eins og að þekkja þig þegar þú kemur aftur á vefsíðu okkar og hjálpa teymi okkar að skilja hvaða hluta vefsíðunnar þér finnst áhugaverðast og gagnlegast.