Sálfræðingurinn Hjalti Jónsson skipar stóran sess í nýrri þáttaröð sem hefst í Danska Ríkissjónvarpinu á morgun og verða þættirnir sýndir á DR 1. Í þessum þáttum mun Hjalti ásamt tveimur öðrum meðferðaraðilum meðhöndla sjúklinga með einkenni áráttu-þráhyggju röskunar.
Fyrsti þátturinn verður sýndur á morgun fimmtudag á DR 1 kl 20:30 að dönskum tíma en 19:30 að íslenskum.
www.eyjar.net höfðu samband við Hjalta og spurðu hann úr í þetta nýjasta verkefni hans.
Nú er að hefja göngu sína sjónvarpsþáttur í Danska Ríkissjónvarpinu þar sem
þú kemur fram, hvaða þáttur er þetta og hvernig kemur þú inn í þetta ferli?
Þetta er heimildarþáttur í fimm hlutum, sem fjallar um tilraun sem við gerðum á meðhöndlun áráttu-þráhyggju röskunar (skammstafað OCD eftir enska heitinu Obsessive-Compulsive Disorder).
Tilraunin gekk út á að fjórir einstaklingar sem þjást af OCD fluttu inn í sumarhús í tæpar fjórar vikur, þar sem ég ásamt öðrum sálfræðingi og geðlækni unnum að því meðhöndla þau með ákveðinni tegund sálfræðimeðferðar. Ég kem inn í þetta sem einn af þremur meðferðaraðilunum í sumarhúsinu. Fréttamaður danska ríkissjónvarpsins hafði upprunalega samband við yfirmann minn sem svo bað mig um að vera með í þáttunum. Ástæða þess að hún bað mig um að vera með er sú að ég hef unnið mikið með OCD sjúklinga á sjúkrahúsinu sem og að ég hef gert sálfræðimeðferð við OCD að viðfangsefni mínu í doktorsnámi mínu.
Hvernig meðferð var beitt á sjúklingana í þessum sjónvarpsþáttum?
Við vinnum með svo kallaða hugræna atferlismeðferð sem rannsóknir hafa sýnt að eru árangursríkasta meðferðarformið við kvíða þar með talið lyfjameðferð. Í stuttu máli gengur hugræn atferlismeðferð út að greina þær hugsanir og hegðun sem halda vandamálinu gangandi og aðstoða einstaklinginn til að breyta þeim til batnaðar.
Það sem gerir þessa tilraun sérstaka er hversu markvisst við meðhöndluðum þátttakendurna. Venjuleg kvíðameðferð í dag samanstendur af vikulegum viðtölum, klukkutíma í senn í 12-15 vikur. Það er talið að um 70% sjúklinga sýni marktækan árangur af þessu hefðbundna meðferðarformi en það er því miður sjaldan að fólk sé algjörlega einkennalaust í lok meðferðar.
Í þessari tilraun unnum við hins vegar með þátttakendurna í hópum og í einstaklings samtölum frá kl. 9.00 til 15.00 alla virka daga. Við höfðum einnig tækifæri til að gera æfingar og verkefni með þátttakendunum sem við vanalega höfum ekki tíma né fjármagn til í hversdagsleikanum á sjúkrahúsinu. Markmiðið var að kanna hvort þetta markvissa meðferðarform gæti aukið á hinn hefðbundna árangur hugrænnar atferlismeðferðar og gert þátttakendurnar algerlega einkennalausa á þessum tæpum fjórum vikum.
Geturðu útskýr fyrir okkur hvað OCD er og hvernig einkenni sjúkdómsins lýsa
sér?
Áráttu þráhyggja er tegund kvíðaröskunar sem u.þ.b. 3% af þjóðinni þjást af og ef ómeðhöndlað getur röskunin haft verulega slæm áhrif á starfsgetu og daglegt líf einstaklingsins. Það sem einkennir OCD er að fólk þjáist af þrálátri og tímafrekri áráttu og/eða þráhyggju.
Þráhyggja er skilgreint sem óboðnar og áleitnar hugsanir, ímyndir eða hvatir sem valda einstaklingnum kvíða eða óþægindum. Dæmi um slíkar hugsanir eru ótti við smit, efasemdir um hvort slökkt hafi verið á raftækjum eða dyrum læst sem og ótti við að framkvæma ofbeldisfullar hvatir.
Áráttan er hins vegar skilgreint sem síendurtekin hegðun sem hefur það að markmiði að afstýra því að þráhyggjuhugsunin verði að veruleika og með þeim hætti draga úr þeim kvíða eða óþægindunum sem þráhyggjan veldur. Dæmi um áráttu er síendurteknar hegðanir eins og handþvottur, tékka á því hvort raftæki séu slökkt eða dyr lokaðar, sem og að raða hlutum í kerfi.
Sýndu sjúklingarnir fram á bata við þessari meðferð ykkar?
Nú get ég því miður ekki svarað þessari spurningu áður en þættirnir verða sýndir, en svona okkar á milli þá getum við orðað það þannig að ég er mjög sáttur við útkomu tilraunarinnar.
Telurðu að þetta sé meðferð sem Íslendingar ættu að beita í meira mæli?
Að því að ég best veit þá eru Íslendingar frekar framarlega í því sem við köllum hugrænni atferlismeðferð. Ég held þó að vandinn heima á íslandi sé hinn sami og annars staðar í heiminum, þ.e. að aðgengi að hugrænni atferlismeðferð er langt í frá nógu gott. Fyrir það fyrsta er almennt skortur á vel þjálfuðum og reyndum sérfræðingum í þessari meðferð, sem og að hið opinbera er ekki enn búið að átta sig á því að það margborgar sig að niðurgreiða svona þjónustu sem rannsóknir hafa sýnt fram á að eru árangursríkar. Það er spurning hvort við getum ekki sannfært ríkisvaldið um að það sé þjóðinni hagkvæmt að opna svona “meðferðar-sumarhús” í Eyjum!
Nú hefurðu búið í Danmörku í nokkur ár og unnið þar sem sálfræðingur, eru Danir að fara aðrar leiðir við meðferð á einstaklingum en eru í gangi á Íslandi.
Í sálfræði sækja Danir líkt og Íslendingar sína þekkingu að mestu leyti frá Bandaríkjunum og Bretlandi, svo það er ekki hægt að segja annað en að grunnhugmyndirnar séu þær sömu.
Sem fyrr segir eru það því ekki aðferðirnar sem slíkar sem eru öðruvísi milli landa, heldur aðgengi að þeim. Á Íslandi þarf fólk sem þjáist af þunglyndi eða kvíða því miður oft að sækja þessa þjónustu til einkaaðila með tilheyrandi kostnaði. Þó ástandið hér í Danmörku sé langt í frá fullkomið ennþá, þá verður nú að viðurkennast að opinbera kerfið hér er aðeins farið að vakna til lífsins í þessum efnum. Nú nýverið ákváðu stjórnvöld að setja fjármagn í að opna deildir víðsvegar í landinu sem bjóða fólki sem þjáist af þunglyndi eða kvíða upp á hugræna atferlismeðferð þeim að kostnaðarlausu.
Hægt er að fylgjast með störfum hjá á vefsíðunni www.drhjalti.com
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst