Síðastliðinn mánudag undirrituðu Njáll Ragnarsson, formaður bæjarráðs og Hildur Rún Róbertsdóttir, formaður fjölskyldu- og tómstundaráðs samninga við styrkþega um fjárstyrk vegna verkefna sem hlutu styrk í tengslum við „Viltu hafa áhrif?“ fyrir fyrri hluta næsta árs. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Vestmannaeyjabæjar.
Markmiðið sjóðsins er að styrkja menningar-, lista-, íþrótta- og tómstundastarfsemi í Vestmannaeyjum með því að styðja við og hvetja einstaklinga, félagasamtök og listahópa til eflingar á viðburðum og verkefnum á sviði menningar, lista, íþrótta og tómstunda. Má þar m.a. nefna styrki til fjölda sýninga, menningartengda viðburða og göngustíga.
Verkefnin sem hljóta styrki eru fjölbreytt og spennandi. Óskar Vestmannaeyjabær öllum styrkþegum til hamingju. Meðfylgjandi er listi yfir þau verkefni sem hljóta styrk úr sjóðnum:
- Handknattleiksdeild IBV – 350.000 kr.
Styrkur fyrir flugeldabingói. Undanfarin ár hefur handknattleiksdeild ÍBV staðið fyrir flugeldabingói sem haldið er á milli jóla og nýárs. Viðburðurinn hefur verið vinsæll hjá Eyjamönnum og fengið mikið lof fyrir.
- Karlakór Vestmannaeyja – 300.000 kr.
Styrkur fyrir verkefninu Jól í hjarta þar sem kórinn mun koma fram í aðdraganda jóla fyrir ýmsa aðila, m.a. stofnanir og félagasamtök. Reynt er að verða við öllum óskum sem kórnum berast án endurgjalds.
- Kór Landakirkju – 300.000 kr.
Styrkur fyrir jólatónleikum kórsins. Landakirkja heldur árlega jólatónleika sem eru tvískiptir, annars vegar í safnaðarheimili Landakirkju og hins vegar í Landakirkju þar sem haldin er hátíðleg stund, m.a. með tendrun kert. Kórinn leggur mikið upp úr fjölbreyttu efnisvali fyrir tónleikana þar sem reynt er að höfða til sem flestra. Einsöngvari mun syngja nokkur lög með kórnum.
- Listasmiðja náttúrunnar – 400.000 kr.
Styrkur fyrir Listasmiðju náttúrunnar sem er fyrir börn á aldrinum 6-13 ára. Þáttakendur sækja innblástur í nærumhverfi og náttúruna, fara í vettvangsrannsóknir og skissa úti. Þeir kynnast ólíkum aðferðum við listsköpun og skissuvinnu og vinna með efnivið úr náttúru Vestmannaeyja ásam því að fá kennslu í nýjungum í listsköpun frá listgreinamenntuðum kennurum.
- Minningarskilti norðvestan við Eiði – 300.000 kr.
Styrkur fyrir minningarskilti. Ætlunin er að setja upp skilti til minningar um átta embættismenn sem fórust á róðrabáti þegar þeir voru á leið út í Gullfoss í embættiserendum þann 16.desember 1924. Hönnuður skiltisins er Gunnar Júlíusson og verður það staðsett norðvestan á Eiðinu.
- Kvennakór Vestmannaeyja – 300.000 kr.
Styrkur fyrir fimm ára afmælistónleikum Kvennakórs Vestmannaeyja og tónleikar með Grindarvíkurdætrum. Sýna á afrakstur kórsins á liðnu söngári þar sem haldið er upp á fimm ára afmæli hans með söng og gleði. Einnig er ætlunin að bjóða Grindarvíkurdætrum að syngja með kórnum á tónleikum í kringum páskana 2025. Tónleikarnir munu heita Eldgosasystur.
- Lista – og menningarfélag Vestmannaeyja – 400.000 kr.
Styrkur fyrir opnum vinnustofum í Hvíta húsinu. Þar sem félagsmenn í Lista- og menningarfélagi Vestmannaeyja vilja bjóða ungu fólki að koma á vinnustofur til að kynnast alls konar handverksgerð, myndlist og ljósmyndun. Um er að ræða t.d. vinnu með olíu á striga, vatnsliti, floating, mósaík, skartgripagerð o.fl.
- Lista – og menningarfélag Vestmannaeyja – 250.000 kr.
Styrkur fyrir sýningu og kynningu á vinnustofum í Hvíta húsinu.
- Við sem heima sitjum – 300.000 kr.
Styrkur fyrir viðburðinum Við sem heima sitjum. Um er að ræða skemmtun og tónleika í Eldheimum þann 23.janúar 2025 þar sem ætlunin er að skemmta og rifja upp tónlist og sögur frá gosinu 1973.
- Skotveiðifélag Vestmannaeyja – 500.000 kr.
Styrkur fyrir innanhússkotfimi. Keyptur verður búnaður skotfimi innandyra en það eykur fjölbreytni og gefur tækifæri til loftskotfimi með loftskammbyssum.
- Ungbarna-sundnámskeið – 150.000 kr.
Styrkur fyrir ungbarna-sundnámskeiði. Ætlunin er að halda ungbarna-sundnámskeið og kaupa til þess áhöld og tæki. Slíkt námskeið hefur marga góða kosti, m.a. efla þau alhliða þroska barna ásamt því að efla félagsleg tengsl þeirra við foreldra.
- Einhugur – 400.000 kr.
Styrkur fyrir spjallfundi fyrir ungt fólk með einhverfu. Haldnir verða spjallfundir fyrir ungt fólk með einhverfu en þar gefst þeim tækifæri til að hitta aðra einstaklinga m.a. í þeim tilgangi að spjalla saman og ræða um hin ýmsu málefni.
- ÍBV íþróttafélg – 300.000 kr.
Styrkur til að útbúa félagsaðstöðu fyrir iðkendur til að setjast niður og t.d. borða nesti á milli æfinga, spila ofl. Einnig að þjálfarar geti boðað flokkana sína að hittast og horfa saman á hand- og fótboltaleiki. Markmiðið er að efla félagsandann og jákvæð samskipti á milli iðkenda. Félagsaðstaðan verður útbúin sófum, sjónvarpi, stólum, borðum, borðtennisborði/fótboltaspili. Skreytt með myndum af meisturum yngri flokka í gegnum tíðina og hillur fyrir bikar yngri flokka.
- ÍBV íþróttafélag – 250.000 kr.
Styrkur til þess að bjóða upp á afþreyingu og hreyfingu í jólafríinu með því að halda knattspyrnuskóla fyrir stráka og stelpur á aldrinum 7 – 13 ára – milli jóla og nýars.
Hér má sjá fleiri myndir frá afhendingunni.