Í dag eru 65 ár síðan Herjólfur I kom fyrst til Vestmannaeyja. Það var nánar tiltekið klukkan 14.00 þann 12. desember 1959 sem fyrsti Herjólfur lagðist að bryggju í Eyjum.
Fyrsti Herjólfur gekk daglega á milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja. Ferjan sigli auk þess hálfsmánaðarlega til Hornafjarðar og á sumrin hin síðari ár til Þorlákshafnar einu sinni í viku. Hann kom nýr til landsins í desember árið 1959 og var í þessum ferðum allt þar til í júlí 1976. Skipið var í eigu Skipaútgerðar ríkisins og höfðu Vestmannaeyingar lítið að segja um hvernig úgerð þess var háttað.
Herjólfur númer tvö, sem var farþega- og bílaferja kom í júlí 1976 og reglulegar siglingar hófust til Þorlákshafnar. Fyrst sex daga í viku, seinna sjö og fjölgaði loks upp í 14 ferðir á viku. Á 16 árum flutti Herjólfur nr. 2. 800 þúsund farþega og um 150 þúsund farartæki. Skipið var að lokum selt til Svíþjóðar og var það sænski herinn sem keypti það.
Herjólfur nr. 3 kom í júní 1992 og sigldi til Þorlákshafnar eins og forverinn en hóf siglingar í Landeyjahöfn í júlí 2010. Það gekk misjafnlega en strax var ljóst að Landeyjahöfn var mikil samgöngubót, á meðan hún virkaði. Á þeim tíma sem Herjólfur hf. átti skipið, þ.e. á tímabilinu 1992-2000, flutti það u.þ.b. 750 þúsund farþega og um 200 þúsund farartæki stór og smá.
Sumarið 2019 kom svo Herjólfur númer 4 og er hann séstaklega hannaður til siglinga í Landeyjahöfn. Hann hefur reynst vel og er þegar orðin mikil samgöngubót. Ferjan siglir 7 ferðir á dag í Landeyjahöfn eða tvær í Þorlákshöfn þegar veður gerast stríð.
Efnið hér að ofan er fengið af Heimaslóð og af vef Safnahúss Vestmannaeyja.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst