Lögreglan hafði í nógu að snúast í vikunni sem leið og töluverður erill var í kringum skemmtistaði bæjarins um helgina. Nokkuð var um kvartanir vegna hávaða bæði frá fólki og ferfætlingum. Tvö fíkniefnamál komu upp um helgina og var í öðru þeirra um að ræða sölu fíkniefna. Karlmaður um þrítugt var handtekinn aðfaranótt sl. laugardags og í framhaldi af því var farið í húsleit á heimili mannsins. Við leit fundust á milli 60 og 70 gr. af amfetamíni og nokkuð af peningum, sem grunur leikur á að sé afrakstur fíkniefnasölu. Viðurkenndi maðurinn að hafa stundað sölu fíkniefna og telst málið að mestu upplýst.