Hann var sætur sigur ÍBV á Breiðablik í Pepsídeild kvenna í kvöld. Breiðablik hafði í tvígang unnið ÍBV á Hásteinsvelli í sumar, bæði í deild og bikar en báðir leikirnir voru afar jafnir, ekki síst bikarleikurinn sem fór alla leið í vítaspyrnukeppni. Það hefði verið ansi fúlt að tapa þrisvar fyrir Blikum. Leikmenn ÍBV sýndu sitt rétta andlit í leiknum eftir arfaslaka frammistöðu gegn FH í síðustu umferð. Lokatölur urðu 1:2 fyrir ÍBV, sem setti þar með strik í reikning Blika í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn.