Undanúrslit Músíktilrauna fara fram þessa dagana og eigum við Eyjamenn að sjálfsögðu okkar fulltrúa. Það er þungarokksveitin Dólgarnir, en hana skipa þeir Geir Jónsson 17 ára sem syngur og spilar á gítar, Gísli Rúnar Gíslason 19 ára trommuleikari og Arnar Geir Gíslason 15 ára bassaleikari. „Við erum þrír glaðlindir eyja- peyjar sem dreymir ekkert stærra en að blómstra sem frábærir tónlistamenn og vonumst til að komast langt í þessum tilraunum“ segja þeir félagarnir á heimasíðu Músíktilrauna en þar má einmitt hlýða á tvö lög þeirra drengja. Dólgarnir koma fram á þriðja undanúrslitakvöldinu sem fer fram þriðjudaginn 19. Mars í Silfurbergi í Hörpu og hefst það kl. 19.30.