Í dag klukkan 13:30 tekur kvennalið ÍBV á móti Haukum í 20. umferð Olísdeildarinnar. �?ótt veðrið sé ekkert sérstaklega gott þessa stundina, fer leikurinn fram þar sem flogið var til Eyja í hádeginu og kom Haukaliðið með flugi. Með sigri getur ÍBV komið sér í vænlega stöðu í baráttunni um fjögur efstu sætin í deildinni, sem gefa heimaleikjarétt í úrslitakeppni átta efstu liða. Grótta tapaði óvænt í gærkvöldi fyrir FH en Grótta er í fimmta sæti með 27 stig en ÍBV í fjórða sæti með 28. Með sigri getur ÍBV því náð þriggja stiga forskot á Gróttu þegar aðeins tvær umferðir eru eftir.
Leikurinn er því mjög þýðingarmikill fyrir ÍBV og rétt að hvetja stuðningsmenn liðsins til að fjölmenna nú sem aldrei fyrr.