Liðin vika var í rólegri kantinum hjá lögreglu og engin alvarleg mál sem upp komu. Skemmtanahald helgarinnar gekk með ágætum og fá útköll á öldurhúsin. Að vanda var eitthvað um kvartanir vegna hávaða frá heimahúsum en það leystist í öllum tilvikum farsællega.
Tveir ökumenn fengu sekt vegna brota á umferðarlögum í síðustu viku en um var að ræða réttindaleysi við akstur og ólöglega lagningu ökutækis.
Eitt vinnuslys var tilkynnt lögreglu í liðinni viku en um var að ræða slys á auga þegar vatn úr háþrýsismúl sprautaðist í auga starfsmanns sem var að vinna við þrif í Vinnslustöðinni. Ekki er talið að um alvarlega áverka sé að ræða.
Eitt umferðaróhapp var tilkynnt lögreglu í liðinni viku en um var að ræða minniháttar óhapp og engin slys á fólki.