Meðfylgjandi er nýjasta dýptarmæling af Landeyjahöfn. Eins og þið sjáið þá er höfnin sjálf í mjög góðu ástandi og óhætt að segja að hún hafi sjaldan litið svona vel út, sérstaklega við desember byrjun.
Auðvitað erum við að vona að þetta sé til marks um að betri tök séu að nást á þeim hluta sem snúið hefur að dýpkunarmálum og dýpisvanda þannig að þegar nýtt skip kemur þá verði hægt að tryggja nægt dýpi fyrir það allt árið.
Við þetta bætist að rannsóknir í tilraunatanki Siglingstofnunar gáfu góð fyrirheit um að hægt verði að gera breytingar á innsta garðinum og tryggja þannig aukið rými fyrir ferjuna og draga úr óróa innan hafnar og fjölga þar með siglingadögum og auka öryggi.
Við höfum einnig hvatt mjög eindregið til þess að settar verði upp sandgildrur í landi þannig að minna skafi í pyttinn næst viðlegukanntinum en foksandur var þar mikil í fyrra. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef fengið þá hefur þegar verið samið við Dofra og hans menn hjá Suðurverk að fara í að koma upp stálþiljum til að hefta fok á þessu svæði.
Eftir stendur þá fyrst og fremst það sem snýr að skipinu og ljóst að verulegar takmarkanir verða á siglingum í Landeyjahöfn þar til að fengið verður skip sem ræður við meiri ölduhæð en 2,5.
�?á er einnig ljóst að endanlegt markmið næst ekki fyrr en búið verður að finna lausnir á þeim þætti sem snýr að erfiðri aðkomu að höfninni og mikilvægt að sem fyrst verði farið í alvöru rannsóknir og útreikninga hvað það varðar.
Mestu skiptir fyrir okkur að finna að þetta mikilvæga mál sé ekki stopp heldur sé verið að leita að lausnum bæði til skemmri og lengri tíma. Við gleðjumst því núna yfir hverjum þeim áfanga árangri sem næst og viljum nota hann til að hvetja þá sem ábyrgð bera til að stíga enn fastar fram og tryggja okkur Eyjamönnum þær samögngur sem við þurfum.
-Elliði Vignisson