Í síðastliðnum mánuði kynnti fyrirtækið Terra breytingu á verðskrá og innheimtuaðferð í Vestmannaeyjum. En Terra tók við rekstri og umsjón með sorphirðu í Eyjum í byrjun árs. Davíð Þór Jónsson er framkvæmdastjóri fjármála og tækni hjá Terra. Eyjafréttir ræddu nýverið við hann um reksturinn og gjaldskránna í Eyjum sem hefur verið töluvert í umræðunni. Tekið skal fram að viðtalið var tekið áður en að Terra tilkynnti um breytingar á verðskránni en þar var m.a. tilkynnt að móttaka málma verði endurgjaldslaus (sem áður var 24.366 kr./m³) og verð á gleri lækki úr rúmum 40 þúsundum niður í 6.698 kr./m³. Jafnframt hefur í samstarfi við Vestmannaeyjabæ verið ákveðið að hefja vinnu við að breyta gjaldtöku á móttökustöðinni. Í stað gjaldtöku eftir rúmmetrum verður á næstu misserum komið upp vigt á móttökustöðinni og gjald tekið eftir kílóum í stað rúmmetra. Fram að því verður áfram rukkað eftir rúmmáli.
Betri upplýsingamiðlun í framtíðinni
Davíð segir að Terra leggi ríka áherslu á gegnsæi í allri starfsemi sinni og þakkar blaðamanni fyrir spurningarnar. „Ljóst er að kynning á nýju fyrirkomulagi innheimtu vegna úrgangsmeðhöndlunar til íbúa sveitarfélagsins hefði mátt vera markvissari, skiljanlegri og betur útfærð. Terra og sveitarfélagið hefðu í sameiningu átt að tryggja að almenningi væri veitt skýrari og ítarlegri kynning á fyrirhuguðum breytingum, þar með talið hvaða breytingar væru að eiga sér stað og hvers vegna þær væru nauðsynlegar. Ábyrgð á slíkri kynningu er sameiginleg og mikilvægt að við sem samstarfsaðilar lærum af því sem betur mátti fara, með það að markmiði að tryggja betri upplýsingamiðlun í framtíðinni.”
Byggt á stefnu stjórnvalda
Hann segir að breytingar á innheimtufyrirkomulagi og meðhöndlun úrgangs byggi á breytingum á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, meðhöndlun úrgangs og á úrvinnsugjaldi, sem tóku gildi 1. janúar 2023 og hafa þessar breytingar og lög verið nefnd sameiginlega hringrásarlögin. „Breytingarnar byggja á stefnu stjórnvalda um sjálfbæra úrgangsstjórnun og er markmið þeirra að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá meðhöndlun úrgangs, stuðla að sjálfbærri auðlindanýtingu með aukinni endurvinnslu og annarri endurnýtingu og síðast en ekki síst draga úr urðun. Þar kemur skýrt fram að hver og einn – einstaklingar jafnt sem fyrirtæki – beri ábyrgð á úrgangi sem þeir láta frá sér. Þetta kallast ábyrgð framleiðanda og notanda og er ein af grundvallarforsendum þess að unnt sé að ná raunverulegum árangri í átt að hringrásarhagkerfi þar sem úrgangur er lágmarkaður og efni fær nýtt líf,” segir Davíð.
Samanburður varhugaverður
Nú er töluvert hátt verð á gleri, raunar með því hæsta á landinu. Hvað er það sem útskýrir þennan mun? „Miðað við rúmmálsþyngd á gleri þá er verðskrá Terra á móttöku 16,2 kr./kg sem er 3,8 kr./ kg hærra en móttökugjöld á slíku efni hjá stærsta móttökuaðilanum á höfuðborgarsvæðinu. Terra getur því ekki fallist á að verðskrá á afsetningu á gleri sé há.“ Er á döfinni að hætta urða gler í Bústaðargryfju og flytja það burt? „Nei, gler er heimilt að urða í Bústaðargryfju og hyggst félagið ekki nema að kröfu sveitarfélagsins gera breytingar á því.“ Hvers vegna er hátt í helmingi dýrara að henda lituðu timbri heldur en hreinu timbri þar sem það er kurlað og sett í sama hauginn eins og meðfylgjandi mynd sýnir? „Hreint timbur er heimilt að losa í Bústaðargryfju en litað timbur á að fara til endurnýtingar hjá Terra. Munurinn á verðum er helst hægt að skýra með því.“ Nú er verið að urða timbur, og þá allt timbur þegar búið er að blanda því saman upp í Bústaðargryfju eins og meðfylgjandi mynd sýnir, er á döfinni að allt timbur verði flutt frá Eyjum? „Terra hefur frá því það tók við rekstri móttökustöðvar ekki urðað litað timbur. Nú er einnig verið að urða lífrænan úrgang í Bústaðargryfju, er á döfinni að flytja það í burtu? „Matarleifar á ekki að urða í Bústaðargryfju og skal allur úrgangur fara í endurnýtingu hjá sérhæfðum móttökuaðila slíks efnis (Sorpa). Frá því Terra tók við rekstri móttökustöðvar hafa matarleifar verið fluttar í gámum frá Vestmannaeyjum til Sorpu.“ Hvað er það sem útskýrir þennan mun á gjaldskrá sveitarfélagsins samanborið við önnur sveitarfélög? Munurinn lítur út fyrir að vera töluvert meiri heldur en hægt er að útskýra á þann hátt að f lutningur með Herjólfi sé svo dýr. „Verðskrá getur verið misjöfn eftir því hvað gert er við efnisstrauma og samanburður því varhugaverður við sveitarfélög sem eru ekki með sömu afsetningaleiðir.“
Sýnum virðingu og kurteisi
Að endingu segir Davíð Þór að það sé mat Terra að slíkur munur sé ekki til staðar en getur vissulega verið einhver á einstaka efnisstraumum. „Verðskrá félagsins í Vestmannaeyjum er töluvert lægri á helstu efnisstraumum en víða, sem útskýrist fyrst og fremst á vilja félagsins til að sinna þjónustu á svæðinu og þeim verðum sem voru boðin út í útboði sveitarfélagsins. Meðalverð innheimt fyrir rúmmetra og kíló er að meðaltali mun lægra hjá íbúum Vestmannaeyja en öðrum sveitarfélögum. Að lokum vill Terra leggja áherslu á mikilvægi þess að sýna starfsfólki á móttökustöðvum virðingu og kurteisi í allri samskiptum. Starfsfólk sinnir mikilvægum störfum í þágu samfélagsins og umhverfisins, oft við krefjandi aðstæður. Terra biður alla sem sækja móttökustöðvar um að bera virðingu fyrir því mikilvæga hlutverki sem þetta fólk gegnir og stuðla þannig að jákvæðu og öruggu umhverfi fyrir alla.”
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst