Í óundirbúnum fyrirspurnartíma á þingfundi í gær spurði Halla Hrund Logadóttir þingmaður Framsóknar í Suðurkjördæmi Daða Má Kristófersson, fjármálaráðherra um hvað ný afstaða óbyggðanefndar þýði fyrir Vestmannaeyjar.
„Mig langar til að beina spurningunni til fjármálaráðherra og spyrja hvað ný afstaða óbyggðanefndar þýði fyrir Vestmannaeyjar. Í niðurstöðunni kemur skýrt fram að sú afstaða að hluti krafna ríkisins um að eyjar og sker við landið séu þjóðlendur eigi ekki við rök að styðjast. Hvers vegna er augljóst að bregðast þurfi við málinu sérstaklega fyrir Vestmannaeyjar? Jú, bæði er réttur eyjanna augljósari og krafan mun meira íþyngjandi en víðast hvar annars staðar á landinu. Upphaflega krafðist ríkið þess að sjálfur Heimaklettur og Blátindur auk hlíða Herjólfsdals, og þar á meðal er brekkan sem brekkusöngurinn á þjóðhátíð er kenndur við, yrðu einnig þjóðlendur ásamt nýja hrauninu. Krafan var endurskoðuð í tíð Framsóknar og einungis haldið eftir kröfum í Stórhöfða og úteyjar þar sem vafi þótti leika á um eignarhald þeirra og skera þyrfti úr um það sérstaklega. Réttur Vestmannaeyja virðist sömuleiðis augljós því að bærinn keypti árið 1960 allar eyjarnar, þar með talið úteyjar, af ríkinu eins og vel er orðað í 1. gr. laganna frá 10. maí 1960 er salan var lögfest á Alþingi. Nú hefur óbyggðanefnd farið yfir málið og í niðurstöðunni er vísað til ákvæða í lögbókinni Jónsbók sem leidd var í lög árið 1281.
Úteyjarnar sem hér um ræðir voru öldum saman matarkista Eyjamanna sem sækja þangað enn þann dag í dag. Úteyjarnar eru því bæði saga og lifandi samtíð heimafólks og órjúfanlegur hluti Vestmannaeyja þar sem hjarta þeirra sannarlega slær eins og segir í þjóðhátíðarlaginu. Ég spyr því ráðherra: Hvenær er ætlað að útkljá málið nú þegar engin fyrirstaða er fyrir því þar sem óvissunni er eytt með nýlegri afstöðu óbyggðanefndar?” sagði Halla hrund í fyrirspurn sinni.
Í svari Daða Más segir að það liggi fyrir að óbyggðanefnd hafi tekið afstöðu í málinu og ríkið mun í kjölfarið fara og hlíta þeim niðurstöðum. „Eins og þingmaðurinn vék að þá er þetta vegferð sem hófst fyrir mjög löngu síðan. Í sjálfu sér hefur orðið töluverð breyting á áherslum ríkisins. Ég er ekki í góðri aðstöðu til þess að lýsa því hvers vegna farið var fram með þeim hætti sem þingmaðurinn lýsti hér áðan þar sem ríkið taldi sig eiga rétt á eignum sem hún listaði upp og eru Vestmannaeyingum án efa mjög mikilvægar og hluti af þeirra sjálfsímynd og daglegu náttúruupplifun. Þær kröfur voru endurskoðaðar eins og þingmaðurinn vék að. Nú hefur óbyggðanefnd tekið afstöðu sem ég get sagt að gangi enn lengra í þá átt að ekki sé innstæða fyrir þessum kröfum sem ríkið lagði fram og því verður auðvitað að hlíta,” sagði fjármálaráðherra í svari sínu.
Halla Hrund kvaddi sér hljóðs á ný og þakkaði svarið. „Það gleður mig að vinnan sé í gangi og ég kannski spyr ráðherra: Hver er tímalínan á málinu? Þetta er mál sem hefur ekki bara legið þungt á Eyjamönnum, þetta er landsbyggðarmál sem hefur skapað óvissu víða um land og það er mikilvægt nú þegar niðurstaðan liggur fyrir að það sé skýrleiki um það hvernig verði staðið að framkvæmdinni og hvenær við megum búast við að þessu máli verði eytt. Og ég ítreka að það er jákvætt, sama hver saga málsins hefur verið, að þessi niðurstaða sé fyrst og fremst komin.”
Svar Daða Más við seinni fyrirspurninni var stutt. Þar sagði ráðherra: „Ég get ekki svarað með öðrum hætti en þeim að þessari vinnu verður flýtt eins og unnt er.”
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst