„Miðlægur gagnagrunnur – Fiskimjöl og lýsi hlýtur 3 milljóna króna styrk úr Matvælasjóði. Styrkurinn er fyrsti styrkur til Félags uppsjávariðnaðarins og markar tímamót í gagna- og gæðastjórnun á íslensku fiskimjöli og lýsi,“ sagði Grettir Jóhannesson, nýsköpunarstjóri uppsjávariðnaðarins með aðsetur í Vestmannaeyjum. „Í dag eru niðurstöður efnagreininga á fiskimjöli og lýsi ekki nýttar til fulls. Með gagnagrunninum opnast tækifæri til að færa gögn inn í skýjalausn sem uppfærir þau sjálfkrafa og birtir yfirlit í rauntíma. Verkefnið, eins og segir í umsókninni; mun veita útgerðum skýra yfirsýn, styðja við ákvarðanatöku og skapa meiri verðmæti,“ sagði Grettir einnig.
„Við erum að taka gögn sem hafa legið óhreyfð í langan tíma og nýta þau til að gefa verksmiðjustjórum tækifæri að bregðast fyrr við breytingum. Gervigreind verður nýtt sem mun læra á gögnin og aðstoða verksmiðjustjóra að taka ákvarðanir. Þetta er að mínu mati mikilvægt skref í átt að stöðugri og betri gæðum sem mun vonandi skila sér í meiri verðmætum fyrir þjóðarbúið.“
Hvað felst í verkefninu? Gagnagrunnur – Allar efnagreiningar safnast á einn stað. Rauntímaskjáborð – Yfirlit sýnir þróun helstu lykilbreytna og lætur vita ef frávik verða. Rannsóknarsamfélagið – Samræmd gögn opna á nýjar rannsóknir og nýsköpun í greininni.
Umsögn Matvælasjóðs
Í umsögn um verkefnið kemur fram að verkefnið gengur út á að varðveita og vinna úr upplýsingum úr rótgrónum iðnaði með markvissum hætti. Er því til þess fallið að bæta nýtingu hráefnis, auka þekkingaröflun og skapa aukin verðmæti í iðnaði sem nú þegar er til staðar.
Aðspurður um næstu skref sagði Grettir að nú þegar væri hafin vinna við að setja upp gagnagrunninn og teymi innan Félags uppsjávariðnaðarins tekið til starfa. „Fyrsta útgáfa verður aðgengileg á næstu vikum eða mánuðum. Síðar verður bætt við frekari upplýsingum í gagnagrunninn svo sem, hvar og hvenær var fiskurinn veiddur. Skiptir hitastig sjávar máli? Hver var togtíminn? Hvernig áta er í fiskinum og hvaða áhrif hefur hún á gæði? NIR mælingar og aðrar mælingar verða teknar við framleiðslu. Þetta er alls ekki tæmandi listi en þarna erum við að opna á möguleika sem bjóða upp á betra hráefni og betri og fjölbreyttari afurðir öllum til hagsbóta,“ sagði Grettir að endingu.
Nánari upplýsingar gefur Grettir Jóhannesson, nýsköpunarstjóri uppsjávariðnaðarins.
Sími: 863-0506, email: grettir@setur.is
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst