Nýjustu niðurstöður úr Þjóðarpúlsi Gallup sýna að nokkrar breytingar hafa orðið á fylgi flokka í Suðurkjördæmi frá síðustu mælingu.
Helst ber að nefna að Miðflokkurinn eykur fylgi sitt verulega milli mánaða og nálgast nú Samfylkinguna og Sjálfstæðisflokkinn.
Samkvæmt könnuninni, sem Gallup framkvæmdi dagana 1. október til 2. nóvember 2025, mælist Samfylkingin með 24,8% fylgi í Suðurkjördæmi, en Miðflokkurinn er skammt á eftir með 21,9%. Sjálfstæðisflokkurinn tapar fylgi og fer úr 24,7% í 23,5%, á meðan Framsóknarflokkurinn fellur úr 9,4% í 5,8%.
Flokkur fólksins missir einnig fylgi, úr 13,6% niður í 9,9%, en Viðreisn stendur nánast í stað með 8,8%. Sósíalistaflokkur Íslands bætir lítillega við sig og mælist nú með 1,7%, Píratar með 2,1%, Vinstri græn með 1,2%, og aðrir flokkar með 0,4%.
Á landsvísu mælist Samfylkingin áfram stærst með 31,9% fylgi, samkvæmt Þjóðarpúlsi Gallup. Sjálfstæðisflokkurinn fylgir með 17,6%, en Miðflokkurinn er nú orðinn þriðji stærsti flokkur landsins með 16,3% fylgi. Rúmlega 61% þeirra sem taka afstöðu styðja ríkisstjórnina, og um 6,8% myndu skila auðu eða ekki kjósa.
Niðurstöður byggja á netkönnun sem Gallup gerði dagana 1. október til 2. nóvember 2025. Heildarúrtaksstærð var 11.225 manns og þátttökuhlutfall 46,5%. Vikmörk á fylgi við flokka eru 0,5–1,4 prósentustig. Það er RÚV sem deilir niðurstöðum þjóðarpúlsins með Eyjafréttum.






















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst