Dagur sorgar í sögu Vestmannaeyja – Alls fórust 20 – Flestir tengdir Eyjum
Þennan dag fyrir 75 árum, miðvikudaginn 31. janúar 1951 fórst flugvélin Glitfaxi í eigu Flugfélags Íslands í aðflugi að Reykjavíkurflugvelli. Vélin var að koma frá Vestmannaeyjum og með henni fórust 20 manns, 17 farþegar og þriggja manna áhöfn. Tvær vélar í áætlunarflugi hófu sig til flugs á svipuðum tíma í Vestmannaeyjum þennan dag og lenti önnur heilu og höldnu á Reykjavíkurflugvelli.
Þegar Glitfaxi kom í aðflugi að Reykjavíkurflugvelli var hætt við lendingu í fyrstu tilraun vegna hríðarbyls sem gekk yfir og var vélin send í hringflug út á Faxaflóa. Þegar flugstjórinn ákvað í samráði við flugturn að gera aðra tilraun til lendingar rofnaði allt samband við vélina. Fljótlega varð ljóst að slys hafði orðið. Leitarflokkar voru sendir strax af stað og gengu fjörur, auk þess sem leitað var á landi. Daginn eftir fannst brak úr vélinni úti fyrir Vatnsleysuströnd, en flakið sjálft hefur aldrei fundist. Í Morgunblaðinu 9. sept. sl. birtist athyglisverð grein eftir Guðbrand Jónsson flugstjóra um afdrif flugvélarinnar. Hann telur að „höggvindur“ hafi grandað vélinni í aðflugi.
Með flugvélinni fórust tvær konur, önnur þeirra var flugfreyja, og 18 karlmenn, þar á meðal einn drengur á fyrsta ári. Um fimmtíu börn og ungmenni misstu feður sína í slysinu.
Meðal farþeganna voru átta búsettir í Vestmannaeyjum og var Páll Jónasson í Þingholti einn þeirra, fimmtugur að aldri.
Flugslysið var mikið áfall fyrir Vestmannaeyjar og fjölskyldur þeirra sem létust. Í dag eru 75 ár liðin frá þessu hörmulega slysi sem markaði djúp spor í sögu fjölskyldunnar í Þingholti, ekkjunnar og 13 barna þeirra. Af þeim tuttugu sem fórust voru eftirtaldir með búsetu í Vestmannaeyjum:
Herjólfur Guðjónsson, 46 ára verkstjóri frá Oddsstöðum, bjó á Einlandi, kvæntur og átti þrjú börn, tvö þeirra innan fermingaraldurs.
María Hjartardóttir, 22 ára frá Hellisholti, og Björn Gunnarsson, fimm mánaða sonur hennar.
Jón Steingrímsson, 18 ára hljóðfæraleikari, Hvítingavegi 6, ókvæntur. Sonur Steingríms Benediktssonar kennara.
Páll Sigurgeir Jónasson, 50 ára skipstjóri í Þingholti, kvæntur og átti 13 börn, þar af fjögur innan fermingaraldurs. Páll var ættaður frá Eskifirði.
Sigurjón Sigurjónsson, 18 ára sjómaður á Kirkjuvegi 86, ókvæntur. Hann var sonur Sigurjóns Sigurðssonar fisksala og átti mörg systkini í Vestmannaeyjum.
Snæbjörn Bjarnason, 58 ára frá Hergilsey við Kirkjuveg, ekkjumaður, börn hans uppkomin; meðal þeirra var Valtýr Snæbjörnsson byggingarfulltrúi.
Þorsteinn Stefánsson, 29 ára sjómaður í Strembu (Lukku), ókvæntur. Hann var bróðir Vilhjálms Stefánssonar sem er látinn fyrir skömmu.
Þá var Ágúst Hannesson um borð í vélinni, 23 ára frá Hvoli, fæddur og uppalinn í Eyjum en búsettur í Reykjavík. Hann var kvæntur og átti þrjú ung börn.
Fleiri tengdust Vestmannaeyjum á einn eða annan hátt. Flugstjórinn, Ólafur Jóhannsson (sonur Jóhanns Þ. Jósefssonar alþingismanns Vestmannaeyja) var fæddur í Eyjum og leit á þær sem sín önnur heimkynni. Hann var 22 ára, nýkvæntur, átti einn son og barn í vændum. Magnús og Guðmann Guðmundssynir voru bræður Kjartans ljósmyndara sem látist hafði nokkru áður og voru þeir í Eyjum til að ganga frá dánarbúi hans.
Sigfús Guttormsson, bróðir Einars læknis, Guðlaugs í Lyngfelli og hálfbróðir Guðfinns Jónssonar, 47 ára gamall bóndi á Krossi í Fellum (ná lægt Egilsstöðum), 9 barna faðir. Hann var var í Eyjum til að leita sér lækninga hjá bróður sínum.
Guðmundur Guðbjarnarson, bóndi í Arnarholti í Stafholtstungum, 56 ára, kvæntur og átti fjögur ung börn. Hann hafði búið í Eyjum 1920-1935 og var í heimsókn hjá gömlum vinum sem hann hafði ekki séð lengi. Hreggviður Ágústsson, Skagfirðingur, 34 ár, var giftur konu frá Eyjum, Jakobínu Björnsdóttur (Jakobssonar), sem látist hafði eftir stutta sambúð. Sonur þeirra, Ágúst Hreggviðsson húsasmíðameistari, ólst upp hjá móðurfólki sínu í Eyjum.
Aðrir sem létust í slysinu voru Ólafur Jónsson, 61 árs ljósmyndari í Vík í Mýrdal, kvæntur og átti eitt barn. Hann kom til Eyja að kanna ljósmyndasafn Þorláks Sverrissonar í Turninum. Gunnar Stefánsson, fulltrúi á Ferðaskrifstofu ríkisins, 35 ára, kvæntur og átti tvö ung börn, m.a. Árna Gunnarsson, fréttamann og síðar alþingismann. Sigurbjörn Meyvantsson, sölumaður hjá Ásbirni Ólafssyni heildverslun, 37 ára, kvæntur og átti tvö ung börn; hann var sonur Meyvants á Eiði í Reykjavík.
Aðstoðarflugstjóri var Garðar Páll Gíslason, 22 ára, kvæntur og átti tvö börn. Garðar var tengdasonur Óskars Bjarnasens og Rannveigar frá Dalbæ; faðir Gísla Baldurs lögmanns og áður sjónvarpsþular. Flugfreyja var Olga Stefánsdóttir, Reykjavík, 21 árs og ógift, en hafði trúlofast kærasta sínum á gamlársdag.
Í kjölfar slyssins ríkti þjóðarsorg á Íslandi og þeirra, sem létust, var minnst á Alþingi. Við „viljum … senda hlýja samúðarkveðju, ef orðið gæti einhver geisli í rökkurveröld sorgarinnar“sagði Jón Pálmason alþingisforseti og bætti við: „… við viljum allir heiðra minningu þeirra, sem fallið hafa á svo sorglegan hátt. Blessun Drottins fylgi þeim öllum.“ Flest blöð fjölluðu ítarlega um flugslysið og birtu minningargreinar um hina látnu. Þær heimildir má allar finna á netinu.
Tvísýnt veður
Næsta föstudag verður Þórunn Pálsdóttir frá Þingholti borin til grafar. Hún hefði orðið 98 ára 27. september nk. Hún var ein 13 systkina í Þingholti sem komust á legg. Ennþá eru tveir úr hópnum á lífi, Birgir og Hlöðver. Þrítugasti og fyrsti janúar 1951 er og verður hluti af sögu Þingholtsfjölskuldunnar sem þennan dag sá á eftir eiginmanni, föður og afa, manns á besta aldri. Dagurinn var Þórunni eðlilega ofarlega í minni:
Dagurinn er 31. janúar 1951 og framan við Þingholt er Páll á leið í flug til Reykjavíkur. Veður til flugs er tvísýnt. Éljabakkar við Suðvesturland og ákveðin austsuðaustanátt á Stórhöfða, 40 hnútar, haglél og hiti 0,7 stig. Á Reykjanesvita er vindur hægur, snjókoma og ekki nema 100 metra skyggni.
Á Reykjavíkurflugvelli síðdegis þann 31. er éljagangur en ekki mikill vindur, mest 18 hnútar. Páll er að leika sér við dótturdótturina Þórsteinu sem þá var tíu mánaða. Sjálfur var hann ekki hrifinn af flugvélum en ákveðinn í að fara. Kveður þær nöfnur, eiginkonuna og afastelpuna og dótturina Þórunni.
Hann átti ekki afturkvæmt, var meðal 20 sem fórust þennan dag með flugvélinni Glitfaxa sem hrapaði í Faxaflóa. Áfallið var eðlilega mikið og eftir stóð Þórsteina með níu börn heima og það yngsta sex ára. Fjölskyldan stóð saman og ekki þurfti að leysa upp heimilið.
Þann 31. janúar 1951 bar upp á miðvikudag sem alltaf var litinn hornauga í Þingholtsfjölskyldunni. Þótti t.d. ógæfumerki að byrja vertíð á miðvikudegi.
Greinar sem birtust í Jólablaði Fylkis þar sem saga Þingholtsfjölskyldunnar er rakin af Ómari Garðarssyni.
Hvað er sjóveiki?
Sjóveiki er misræmi milli skynfæra líkamans sem senda boð til heilans um hreyfingu – kyrrstöðu.
Þegar einstaklingur er úti á sjó þá nema skynjarar í vökvafylltum gangi í innra eyra hreyfingu og senda boð til heilans að einstaklingur sé á hreyfingu. Augun senda hins vegar boð til heilans um að viðkomandi sé kyrr. Heilinn á erfitt með að vinna úr þessum misvísandi og ósamræmdu upplýsingum og sendir skilaboð til magans um að tæma sig – þ.e. veldur uppköstum.
Einkenni sjóveiki eru þreyta, ógleði, svimi, svitakóf og uppköst.
Góð ráð til að hindra sjóveiki:
Lyf við sjóveiki þ.e. lyf sem slá á einkennin og fást án lyfseðils í apóteki.
Önnur ráð:
Hvar í skipinu er best að vera o.fl.
Þungun:
Þungaðar konur sem þjást af sjóveiki mega nota koffinátín í litlum skömmtum en best er að ráðfæra sig við lækni eða lyfjafræðing.
Þunguðum konum er ekki ráðlagt að nota engifer þar sem það er ekki staðfest hvort það geti haft skaðleg áhrif á fóstur.