Laugardaginn 29. júlí sl. kom um 40 manna hópur frá Utah í heimsókn hingað til Eyja. Flestir úr hópnum voru afkomendur Runólfs Runólfssonar frá Stóra-Gerði og Dölum og Valgerðar Níelsdóttur sem ársgömul flutti ásamt móður sinni ofan úr Landeyjum að Brekkuhúsum.
Um tvítugt giftust þau og bjuggu lengst af í Kastala sem var þar sem Joy er núna til húsa. Ellefu árum síðar fluttust þau til Utah og bjuggu lengi í Spanish Fork eins og flestir Íslendinganna. Með í för með vestur-íslenska hópnum var 80 til 90 manna hópur Mormóna ofan úr fastalandinu og frá Danmörku.
Kári Bjarnason og Fred Woods prófessor við BYU háskólann í Utah höfðu veg og vanda að því að skipuleggja daginn sem hófst við Mormónastyttuna þar sem boðið var upp á súpu. Að því loknu hófst heljarmikil dagskrá í Alþýðuhúsinu þar sem Elliði Vignisson bæjarstjóri bauð hópinn velkominn og þrír meðal vestur-íslensku þátttakendanna sögðu frá minningum sínum um að alast upp ytra með vestmannaeyskt blóð í æðum.
�?á flutti Fred Woods afar áhugaverðan fyrirlestur um samskipti mormóna við lúthersku kirkjuna á 19. öld bæði heima á Íslandi sem og í Utah, því hluti af þeim Íslendingum sem fóru ytra gerðust aldrei mormóna heldur reistu sér lútherska kirkju í Spanish Fork og fengu Runólf Runólfsson til að taka að sér prestþjónustu við kirkjuna.
Að ráðstefnu lokinni fór Kári Bjarnason með afkomendur Runólfs og Valgerðar í ferð um Heimaey þar sem staldrað var við á þeim stöðum þar sem þau hjón áttu heima. Hafði hann áður m.a. leitað til Arnars Sigurmundssonar og Garðars Arasonar um nákvæma kortlagningu staðanna. Sá hluti ferðarinnar þótti hápunktur ferðarinnar hjá mörgum. Að lokum var sameinast við Stafkirkjuna þar sem sr. Viðar Stefánsson tók á móti hópnum og flutti stutta tölu.
Dagurinn þótti heppnast svo vel að strax var farið í að skipuleggja komu næsta hóps. Var ákveðið að bíða með að koma næsta ár en fjölmenna þess í stað á afmælisárinu 2019 er Vestmannaeyjar fagna 100 ára afmælinu. Er ætlunin að efna til myndarlegrar dagskrár um miðjan júní sem verða þá ein af mörgum áhugaverðum dagskrárliðum á árinu.