Næsta sumar verða Vestmannaeyjar miðstöð umfangsmikilla rannsókna í hafinu suður af Eyjum. Ætlunin er að nota fjarstýrða kafbáta hlaðna hátæknibúnaði sem eiga að taka margskonar sýni úr sjónum og greina þau um leið. Bátarnir þurfa að koma upp á yfirborðið einu sinni á sólarhring til að senda gögn í gegn um gervihnött til rannsóknaskips á vegum Bresku hafrannsóknastofnunarinnar (BH). Skipið verður á hafsvæðinu á milli Íslands og Færeyja á meðan rannsóknunum stendur. Bretarnir voru í vettvangsferð hér í Vestmannaeyjum á dögunum og kynntu áhugasömum Eyjamönnum verkefnið í Þekkingarsetri Vestmannaeyja (ÞSV). Auk Setursins og Vestmannaeyjabæjar eru Háskóli Íslands og Hafrannsóknastofnun samstarfsaðilar hér á landi. Í svona gríðarlega flóknu verkefni koma margar aðrar stofnanir að verkefninu og sem dæmi má nefna Fiskistofu, Landhelgisgæslu Íslands og Háskólann í Southhamton og Samtök sveitarfélaga á Suðurlandi.
Samkvæmt því sem kom fram hjá sérfræðingum Bresku Haffræðistofnunarinnar, Ed Chaney og Peter Lambert eru möguleikarnir mjög miklir enda geta bátarnir farið niður á allt að 1500 metra dýpi. Með þeim búnaði sem settur verður um borð í vor eru tekin með jöfnu millibili sýni úr sjónum. Greinir hann seltu, steinefni, kolefni og fleiri efni eftir atvikum. Bátarnir geta farið um minni og stærri svæði, kannað ástand sjávar á mismunandi dýpi og drægni bátanna á einni hleðslu er allt að 4.500 km. „Stóri kosturinn er að bátarnir greina sýnin á rauntíma og senda niðurstöður reglulega frá sér. Það þarf því ekki rannsóknastofu til frekari greiningar,“ sögðu vísindamennirnir.
Risatækifæri
Það kom fram hjá þeim að bátarnir geta með réttum tækjabúnaði nýst við margþættar rannsóknir og jafnvel fiskileit. Kemur fyrir að stórar fiskitorfur hafa komið inn sem hafsbotn á mælitækjum bátanna og skekkt mæliniðurstöður. „Þetta er risatækifæri og gaman að fá að vera þátttakandi í þessu. Hjá BH starfa um 650 manns sem stunda margskonar rannsóknir á heimshöfunum,“ segir Hörður Baldvinsson, framkvæmdastjóri Þekkingarsetursins sem er tengiliður verkefnisins hér á landi. Mun hann ásamt starfsfólki ÞSV taka á móti tæknibúnaði og sérfræðingum sem koma til landsins í vor. Hér í Vestmannaeyjum verða bátarnir gerðir klárir, settar í þá rafhlöður og annar búnaður sem til þarf og að því loknu fara fram sjóprófanir hér við Vestmannaeyjar til að sannreyna búnaðinn.“
Bretarnir voru upphaflega í sambandi við HÍ og Hafró í leit að stað sem hentaði með aðgengi að tækniþekkingu sem mundi nýtast þessu tiltekna verkefni. „Haft var samband við nokkur sveitarfélög og aðstæður kannaðar, innviðir og umhverfi. Okkur tókst að lokka þá til Eyja og þar réði staðsetning, öflugt bæjarfélag og fagfólk á heimsklassa. Bakland sem leita má til ef eitthvað fer úrskeiðis. Héðan verður rannsóknunum stjórnað enda eru Vestmannaeyjar á þröskuldi Norður Atlantshafsins. Eiga að mínu mati, að vera miðpunktur allra rannsókna á hafsvæðinu fyrir sunnan Ísland,“ segir Hörður.
Fjölþættur búnaður
Bretarnir ætla að einbeita sér að svæðinu suður og suðaustur af Eyjum, allt að 200 mílur út. „Þeir verða með rannsóknaskip, tvo djúpsjávarkafbáta, fjóra miðsjávar báta og baujur til rannsóknanna. Hingað kemur mikið af vélbúnaði og sérfræðingum og þetta á eftir að verða mikil og góð auglýsing fyrir Vestmannaeyjar í hinum alþjóðlega vísindaheimi. Kemur okkur enn frekar á kortið,“ segir Hörður sem sér fleiri möguleika en rannsóknir í hafinu.
„Það sem gerir þetta ekki síst spennandi er að kafbátarnir eru að sjá allskonar lífverur. Sigla í gegnum fiskitorfur sem þeir nema sem botn þegar þær eru hvað þéttastar. Er þetta ekki möguleiki fyrir okkur í fiskileit? Senda kafbáta út til að leita að loðnu, síld og svo ég tali ekki um makrílinn hér við land sem þyrfti að rannsaka mun betur.“
Hörður segir rannsóknir í hafinu líka skipti miklu máli. „Þeir rannsaka seltu, klóróform, kolefnisbindingu og strauma í hafinu sem skipta okkur svo miklu máli. Í júní verða bátarnir reyndir á grunnslóð við Eyjar, fara út í kant og þaðan niður á dýpið, allt niður á 1500 metra. Verður gaman að fá mynd af hafsbotninum hér í kring. Þessir bátar eru drónar hafdjúpanna, 3,5 m langir og um tonn að þyngd og bjóða upp á einstök tækifæri til rannsókna og fiskileitar. Þeir kosta örugglega sitt en rekstrarkostnaðurinn er ekki nema lítið brot af því að senda út skip með fullri áhöfn.“
Tíminn fram á vor fer í undirbúning sem Hörður segir umfangsmikinn. „Það þarf allt að vera klárt þegar þeir koma í maí. Þetta er töluverður hópur tækni- og vísindafólks sem verður hér í tvær til þrjár vikur. Þetta verður spennandi tími og við hlökkum til.“
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst