Í tilkynningu frá náttúruvársérfræðingum Veðurstofunnar kemur fram að landrisið er óvenju hratt eða um 3-4 mm á dag. Það er orðið um tveir sentímetrar þar sem mest er. Landrisið er líklegast vísbending um kvikusöfnun á nokkurra kílómetra dýpi. Miðja þess virðist vera á Reykjanesskaganum, rétt vestan við fjallið Þorbjörn.
Ef skýringin er kvikusöfnun er hún enn sem komið er mjög lítil en gróft mat er að rúmmálið sé af stærðargráðunni 1 milljón rúmmetrar. Þetta er niðurstaða samráðsfunda vísindamanna sem haldnir voru á Veðurstofunni nú í morgun og eftir hádegi.
Sambærilegur landrishraði ekki mælst á svæðinu
Nákvæmar mælingar á jarðskorpuhreyfingum á Reykjanesskaganum ná yfir tæplega þrjá áratugi. Á því tímabili hefur sambærilegur landrishraði ekki mælst. Atburðarásin er því óvenjuleg fyrir svæðið, miðað við reynslu undanfarinna áratuga.
Jarðskjálftahrinan sem mælst hefur síðustu daga hafa fundist vel á Reykjanesskaganum og allt norður í Borgarnes. Stærstu skjálftarnir mældust 22. janúar og voru 3,7 og 3,6 að stærð. Dregið hefur úr hrinunni síðustu daga, en slíkar hrinu eru algengar á svæðinu og því getur þessi ekki talist óvenjuleg ein og sér.
„Það að landris mælist samfara jarðskjálftahrinunni, gefur tilefni til þess að fylgjast sérstaklega náið með framvindu á svæðinu,“ segir í tilkynningu Veðurstofunnar.