Þóra Sigurjónsdóttir og Elín Sigríður Björnsdóttir starfa við bókhald. Báðar eru Eyjakonur, Ella Sigga viðskiptafræðingur og Þóra langt komin með viðskiptafræðina. „Það verða tvö ár í ágúst síðan ég byrjaði hérna,“ segir Þóra. „Ég er í viðskiptafræði við Háskólann á Akureyri og gengur mjög vel.“
„Við erum í bókhaldsteyminu,“ segir Ella Sigga sem er hlaðin reynslu en eiginmaður hennar í sjálfstæðum rekstri. „Ég er búin að sjá um okkar eigin rekstur í 20 ár og svo er ég viðskiptafræðingur. Byrjaði í námi 2017 og var hálfnuð þegar ég tók mér hlé. Það var svo Óla Heiða sem sparkaði í rassinn á mér og ég útskrifaðist vorið 2021 frá Háskólanum á Akureyri. Deloitte var draumastaðurinn minn eftir útskrift og hér byrjaði ég í mars 2022.“ Helstu verkefni þeirra eru laun og bókhald og eru þær að vinna fyrir fólk og fyrirtæki allstaðar á landinu. „Við fáum verkefni frá Reykjavík og víðar enda eru ótrúlega mörg verkefni sem fara hér í gegn.“
Ánægðar í vinnunni
„Þetta er frábær vinnustaður, sá besti sem ég hef unnið á. Það er góður mórall og við erum öll ótrúlega góðir vinir. Við náum vel saman og það hefur aldrei komið neitt upp á. Kæmi það fyrir yrði það leyst á núll einni. Vinnan er skemmtileg og það eru fjölbreytt verkefni sem við fáum,“ segir Þóra. „Enginn dagur er eins. Við erum alltaf að fá fyrirspurnir og læra eitthvað nýtt,“ segir Ella Sigga. „Við eigum mikil samskipti við fólk, allskonar samskipti, bæði við Íslendinga og útlendinga og þurfum að útskýra margt, stundum alveg niður í þaula. Maður lærir mjög mikið á því,“ bætir hún við
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst