Viðtalið hér að neðan var tekið í desember og birtist í jólablaði Eyjafrétta 21. desember.
Tetiana Cohen flutti til Vestmannaeyja ásamt syni sínum Dimitri í mars á síðasta ári. Þau mæðgin kunna ákaflega vel við sig í Vestmannaeyjum en aðdragandi þessara flutninga þeirra var þó allt annað en ánægjulegur. Þau mæðgin komu hingað frá úkraínsku hafnarborginni Odessa sem hefur verið reglulegur gestur á öldum hins íslenska ljósvaka síðan stríðið braust út í Úkraínu. Staðsetning borgarinnar við Svartahaf er hernaðarlega mikilvæg og þar hafa Rússar reglulega gert harðar árásir. Borgin er einnig gríðarlega mikilvæg við vöruflutninga til og frá landinu. Ástæðan fyrir því að Tati endaði í Vestmannaeyjum er sú að systir hennar Olena hefur verið búsett hér ásamt fjölskyldu sinni um nokkurt skeið. Það var mikil upplifun að setjast niður með Tati eins og hún er kölluð og fara stuttlega yfir hennar sögu, stöðu og framtíðaráform.
Þrjá sólarhringa á flótta
Fyrstu dagana var mikið stress í borginni. Olena sagði systur sinni strax að drífa sig og koma til hennar til Íslands. Tati fannst þessi ákvörðun mjög erfið. „Þetta hefði verið allt annað ef að ég hefði bara verið ein þá hefði ég bara rokið af stað. Ég er einstæð móðir og þurfti auðvitað að hugsa um það hvað væri best fyrir son minn. Ég á líka foreldra í Odessa og mamma mín er bundin við hjólastól þannig að hún var aldrei að fara neitt. Átti ég bara að fara og skilja þau og húsið mitt eftir?“ Innrás Rússa inn í landið hófst 24. febrúar 2022 og átökin bárust fljótlega til Odessa. Þau mæðgin ákváðu að leggja í hann þann 5. mars. „Við biðum fram á nótt á lestarstöðinni þangað til við komumst í lest til Liviv þaðan tókum við rútu í átt að pólsku landamærunum. Við þurftum svo að ganga restina af leiðinni til Póllands. Þarna voru tugir þúsunda manna gangandi, mest konur, börn og gamalmenni. Við gengum frá fjögur um nóttina þar til átta að morgni 7. mars. Þegar við komum yfir landamærin til Póllands var tekið vel á móti okkur með heitum mat og drykkjum. Það var mikil gleðistund fyrir okkur. Þar gat fólk líka fengið fatnað og annað sem vantaði fyrir áframhaldandi ferðalag. Við náðum okkur í trefil fyrir Dima“ Eftir þessar móttökur fóru þau aftur upp í rútu þar sem beið þeirra önnur fjögurra tíma ferð til Varsjá. Þau mæðgin komu þangað lítið sem ekkert sofin eftir rúmlega tveggja sólarhringa ferðalag. „Ég ætlaði að leggja mig þegar þangað væri komið. Þá talaði ég við systur mína sem var kominn upp á land og tilbúin að sækja mig til Keflavíkur. Ég fór þá í það að koma okkur til Íslands og einhvern veginn tókst það.“ Þau lentu á Íslandi 8. mars eftir þriggja sólarhringa ferðalag.
Ömurlegt ástand
Hún segir það hafa verið sárt að skilja fjölskyldu og vini eftir heima við þá óvissu sem þar ríkir. „Eins og ég sagði þá er mamma mín bundin við hjólastól eftir að hafa fengið nokkrum sinnum heilablóðfall og hvorki getur eða vill fara frá Odessa. Pabbi minn hugsar um hana. Ég er í daglegum samskiptum við þau og við reynum að hjálpa til eins og við getum. Eins og staðan er í dag eru reglulegar viðvörunarbjöllur vegna árása.“ Tati segir að vegna sögulegs mikilvægis borgarinnar þá hafi Rússar ekki valdið jafnmiklu tjóni þar og víða annars staðar heldur hafi árásum meira verið beint að innviðum svo sem vatns- og orkuverum, flugvellinum og höfninni. „Ástandið í dag er samt betra en það var síðasta vetur þá var mikið um rafmagnsleysi og skammtanir. Þó svo að ástandið sé betra núna er fólk samt beðið um að búa sig undir að ástandið geti versnað með hertum árásum. Útgöngubann hefur verið við líði allan þennan tíma en það hefur verið nokkuð breytilegt þannig að opnunartími verslana og annað hefur tekið mið af því. Það lokar líka allt þegar viðvörunarbjöllurnar fara í gang og þá á fólk að koma sér strax í skjól. Þetta er bara lífið sem þau búa við.“
Vinirnir eru hræddir
Aðspurð um aðra vini eða fjölskyldumeðlimi á svæðinu sagði hún alla karlmenn á hennar aldri vera við víglínuna. „Ég er í góðu sambandi við barnsföður minn. Hann slasaðist snemma í átökunum og hefur náð sér af þeim meiðslum og var kominn aftur í fremstu víglínu vissi ég, svo hafði hann samband um daginn og sagði að hann væri kominn til Kiev og væri á leiðinni í aðgerð eftir að hafa slasast. Hann vildi ekki segja mér nákvæmlega hvað hefði gerst. Þetta er því miður raunveruleiki margra.“ Hún segir marga vini sína vera hrædda um örlög sín. „Ég á marga vini sem eru í hernum, sumir að berjast og aðra sem starfa sem bílstjórar eða rafvirkjar eða í öðrum störfum sem þarf að vinna. Þeir hafa ekkert val. Ég er mjög stolt af öllu þessu fólki sem er að berjast fyrir landið mitt. Vinkonur mínar eru flestar enn í Odessa en sumar hafa farið þaðan. Þær vilja vera nálægt mönnunum sínum. Sumar hafa farið tímabundið með börnin sín yfir til Moldóvu eða Rúmeníu ef ástandið hefur verð alvarlegt.
Ekki heimilið mitt
Tati fór og heimsótti foreldra sína í sumar eftir að mamma hennar fékk annað heilablóðfall. Hún segir þá reynslu hafa í senn verið spennandi og erfiða. „Ég var mjög glöð að hitta foreldra mína og að sjá húsið mitt. Ég hlakkaði mikið til að komast heim og beið alltaf eftir þeirri sælu tilfinningu sem því myndi fylgja en hún kom aldrei almennilega. Þetta var húsið mitt en ekki heimilið mitt. Þegar ég fór að hitta mömmu á spítalanum þá var staðan á henni ekki góð. Ég fann það samt strax að hún þekkti mig og ég fékk bara að stoppa stutt við, en hún tók miklum framförum á meðan ég var hjá henni og hefur gert síðan.“
Ánægðari hér
Hún segir í öllu þessu ferli velferð sonar síns hafa verið sér efst í huga og hún er í skýjunum með þær móttökur sem hann hefur fengið í Vestmannaeyjum. Hún segist hafa verið hálf ringluð fyrstu dagana á Íslandi. „Ég var pínu týnd þegar ég kom hingað í nýtt kalt land. Við byrjuðum á því að koma stráknum í skóla, það gekk hratt og vel. Ég er mjög þakklát fyrir það. Ég var beðin um að bíða aðeins því það voru ekki komnir almennilega í gang þeir ferlar sem settir voru upp fyrir flóttafólk frá Úkraínu. „Hann er mun ánægðari í skólanum hér en í Úkraínu. Hér rétt næ ég að kveðja hann á morgnanna áður en hann hleypur út en í Úkraínu þurfti ég að draga hann út. Hann er mjög ánægður að æfa sund og fótbolta og við erum alveg ofboðslega þakklát fyrir alla þá aðstoð sem við höfum fengið bæði frá starfsfólki hjá Vestmannaeyjabæ og frá öðrum og þar langar mig að nefna Láru Dögg. Strákarnir í bekknum hans hafa tekið vel á móti honum. Hann talaði litla sem enga ensku og að sjálfsögðu enga íslensku en hann er búinn að taka miklum framförum í báðu. Sérstaklega í ensku því strákarnir tala frekar við hann á ensku þannig að það gengur mun hraðar. Það hefur líka hjálpað honum að hafa frænku sína Arina dóttur Olenu. Hún kom hingað sex ára og talar mjög góða íslensku.“ Hún segir að hann spyrji vissulega um Úkraínu og vilji fara þangað. „Hann gerir sér enga grein fyrir því hver staðan er og ég hef reynt að hafa það þannig þegar við tölum við foreldra mína þá erum við ekkert að ræða ástandið þegar hann er með. Mér finnst engin ástæða til að hann þurfi að vita allt sem gengur á heima.“
Lent í einhverjum fullkomnum heimi
Varðandi hana sjálfa þá tók nokkra daga að fá tímabundið landvistarleyfi eftir það gat hún farið að leita sér að vinnu. „Ég sá auglýsingu frá Gott og sótti um og fékk hlutastarf þar og svo bauðst mér líka aðstoð hjá félagsþjónustunni að finna vinnu og þar var mér boðið upp á nokkra hugsanlega möguleika. Það endaði með því að ég fór líka að vinna hjá Vestmannaeyjabæ í heimaþjónustu. Mér finnst við vera ótrúlega lánsöm að hafa komist hingað, það er eins og ég hafi lent í einhverjum fullkomnum heimi. Öll þessi aðstoð og þetta góða viðmót allra til okkar það er ótrúlegt. Mér finnst við vera velkomin hvar sem við förum það er ekki sjálfgefið.“
Gott að hjálpa öðrum
Hún segist vera mjög ánægð með báða sína vinnustaði. „Ég elska vinnurnar mínar, mér finnst gaman að vinna með fólki og hjálpa fólki. Í heimaþjónustunni er ég að aðstoða fólk við einhver allskonar smá viðvik eða heimilisstörf, það er mjög gaman. Eftir að ég byrjaði að vinna á Gott þá spurði Siggi (Gísla) mig hvort að ég væri með bílpróf. Ég sagði honum að ég væri með próf en hefði ekki keyrt frá því 2012. Hann rétti mér lyklana og sagði „Farðu út og æfðu þig,“ og nú er ég að keyra út mat í hádeginu. Það er gaman að keyra út og hitta allt fólkið. Ég er búinn að eignast marga vini í útkeyrslunni. Áki (Heinz) kennir mér reglulega ný orð eða frasa sem ég reyni svo að nota til að tala við aðra. Ég er svo upptekin alla daga að ég hef ekki tíma til að vera sorgmædd yfir því sem er að gerast heima.“
Halda tvenn jól
Það var ekki úr vegi svona rétt fyrir hátíðirnar að spyja Tati um jólahald hjá fjölskyldunni. „Við höldum tvenn jól annars vegar íslensk 24. desember og svo úkraínsk 7. janúar.“ Tati er alin upp við það eins og flestir Úkraínumenn að halda jólin samkvæmt rússnesku rétttrúnaðar kirkjunni í janúar. „Við komum saman við og fjölskylda systur minnar við bæði tilefni og opnum pakka og höldum í okkar hefðir í bland við nýjar.“ Þegar talið barst að úkraínskum jólahefðum kenndi ýmissa grasa. „Það er mikilvægt að bjóða upp á tólf rétti í jólamatinn og það er mikilvægt að smakka allt. Einn mikilvægur réttur sem má ekki vanta er blanda af valmúafræum, rúsínum og hunangi. Það verða allir að borða eina skeið af því. Hinir réttirnir eru blanda af ýmsu mismunandi eftir fjölskyldum.“
Syngja fyrir farsælu ári
Önnur mikilvæg hefð í hefð í huga Tati sem ekki síður vakti áhuga blaðamanns er „Kolyadky“ það er þegar fjölskyldan fer saman út í sérstökum klæðnaði með skreytingar og bankar upp á hjá fólki og syngur fyrir húsráðendur. Þetta svipar til „caroling“ sem flestir þekkja úr erlendum jólamyndum, siðurinn á sér þó mjög langa sögu og djúpa meiningu. „Þetta eru ekki hefðbundin jólalög heldur sérstök lög sem hafa það hlutverk að óska húsráðendum velfarnaðar á komandi ári og hluti af því er að dreifa hveiti fyrir framan húsið. Það á að tryggja að allir fái brauð á heimilinu og enginn verði svangur á komandi ári.“ Söngvararnir bera að sögn Tati sérstakt höfuðfat og skreytingar og hluti af jólaundirbúningi er að undirbúa þennan gjörning. Þá er til siðs að þeir sem fá þessa skemmtilegu heimsókn launi hana með einhverju smálegur, oftast eru það einhver sætindi eða smáar gjafir. „Þegar ég var yngri fannst mér samt skemmtilegast að fá pening,“ sagði Tati og glotti.
Landnemi
Tati hefur ekki látið það duga að vinna á tveimur stöðum heldur hefur líka sótt sér menntun frá því hún kom hingað til lands. Tati fór á námskeið í kennslufræði fyrir leiðbeinendur í samfélagsfræðslu sem kallast Landneminn. Þetta er 14 klukkustunda námskeið þar sem hún fær réttindi til þess að kenna námskeiðið. Námskeiðið er ætlað fullorðnum innflytjendum þar sem þeir fá mikilvægar upplýsingar um Ísland og réttindi og skyldur í íslensku samfélagi. Tilgangur með að fara á Landnemann er að nemendur öðlist þekkingu á mikilvægum, sögulegum, félagslegum, efnahagslegum, menningarlegum, lagalegum og pólitískum aðstæðum á Íslandi og að þeir geti tjáð sig um þessar aðstæður. Þá er lögð áhersla á að þeir tileinki sér þekkingu um eigin réttindi, tækifæri og skyldur í íslensku samfélagi – og hvernig þeir geta notað þessa þekkingu í daglegu lífi. „Ég var svo heppin að hafa systur mína og manninn hennar til þess að hjálpa mér og mig langar til að hjálpa öðrum að setjast að hérna. Ég er að stefna á að kenna þetta námskeið í febrúar bæði í stað- og fjarnámi. Þetta er ekki bara fyrir flóttamenn eða fólk frá Úkraínu heldur bara alla innflytjendur. Ef að sá sem les þetta þekkir einhvern sem gæt haft not af þessu námskeiði má sá hinn sami endilega hafa samband við Visku.“
Besti staður í heimi
Aðspurð um framtíðina segir hún ekki sjá fyrir sér að fara frá Eyjum á næstu árum. „Okkur líður mjög vel hér og vil gera allt til þess að Dima fái að klára skólagöngu á Íslandi. Ef það verður í boði fyrir okkur þá verðum við hér. Þetta er einstakur staður. Ég vil að hann komist í háskóla og fái góða menntun. Það er ótrúlegt að koma til lands sem flóttamaður og finna að maður sé velkominn og sé tekið sem hluta af heildinni. Þið eigið þetta land þar sem allir eiga tækifæri á því að gera það sem þeir vilja. Hér er varla til neitt sem heitir stéttaskipting eða spilling.“ Tati starfaði um borð í skemmtiferðaskipum í sjö ár og heimsótti fjölda landa og hitti mikið af fólki. Hún segir að eitt sem sé alveg einstakt á íslandi sé öryggið. „Það er gott fólk á Íslandi sem hugsar um hvort annað. Börn eru örugg á Íslandi, það er mjög merkilegt.“
Þau mæðgin hafa komið sér fyrir í góðri íbúð í austurbænum. „Það er merkilegt að búa hérna við hraunjaðarinn og hugsa til þess að hér við hliðina á hafi staðið hús sem fóru undir hraun.“ Eðli málsins samkvæmt áttu þau ekki mikið innbú þegar þau fengu íbúðina. „Lára Dögg setti póst á facebook og við vorum komin með allt sem okkur vantaði samdægurs, hvar í heiminum gerir einhver svona fyrir ókunnugan útlending? Ég gæti verið að labba úti á götu og ég gæti hitt forsetann eða ráðherra og heilsað þeim og þeir myndu heilsa til baka. Það gerist bara á einum stað í heiminum.“
Tati segist hafa þurft að venjast ýmsu sem snýr að þessu frelsi og öryggi. „Ég hef alveg átt erfitt með það. Fljótlega eftir að við komum fór Dima út að leika með frænku sinni og svo hafði ég ekkert heyrt í þeim í tvo tíma. Ég var farin að hafa áhyggjur og hljóp á milli glugga að leita að þeim. Systir mín var að reyna koma mér í skilning um það hvernig þetta virkaði. Ég hafði miklar áhyggjur af því ef hann meiddi sig eða eitthvað kæmi fyrir hann. Þá sagði systir mín „Slakaðu á, þetta er besti staður í heimi til að senda börn út að leika, ef eitthvað gerist þá hjálpar honum einhver eða hringir í okkur,“ Þetta var ótrúleg upplifun fyrir mér og í raun alger forréttindi. Íslendingar hafa það ótrúlega gott og ég vildi að allir gætu lifað eins og Íslendingar þá væru færri vandamál,“ sagði þessi jákvæða og þakkláta kona að lokum.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst