Einstök
21. mars, 2024

Alþjóðlegi dagur Down Syndrome er í dag fimmtudag 21. mars og er fólk meðal annars hvatt til þess að vera í ósamstæðum sokkum til að fagna fjölbreytileikanum. Við birtum af því tilefni viðtal sem Sindri Ólafsson tók við þau Önnu Ester Óttarsdóttur og Grétar Þór Eyþórsson fyrir 4. tölublað Eyjafrétta.

Þeim Önnu Ester Óttarsdóttur og Grétari Þór Eyþórssyni fæddist í júní á síðasta ári stúlkubarn sem hlotið hefur nafnið Laufey eftir ömmu sinni. Fyrir áttu þau tvo stráka, Óttar Þór 9 ára og Emil Þór 6 ára. Þeir bræður vita vel að systir þeirra er einstök á sinn hátt en Laufey er með downs-heilkenni. Við settumst niður með þeim til þess að ræða þær ákvarðanir sem þau stóðu frammi fyrir, Laufeyju og stöðu einstaklinga með Downs.

„Fyrstu upplýsingar sem við fáum um það að eitthvað sé ekki alveg eðlilegt er eftir 12 vikna sónarinn og var það frekar óskemmtileg lífsreynsla,“ segir Anna Ester en þau voru ósátt við það hvernig þeim bárust þær fréttir og hvernig möguleikarnir voru lagðir á borðið fyrir framan hana og hún hugsar með hryllingi til þessa samtals sem fór nokkurn veginn svona fram:

X: “Sæl þetta er X frá fósturgreiningardeild hvernig hitti ég á þig?
Anna Ester: „uu ég er í vinnu.“
X: „Okey ég er með niðurstöður úr litningarmatinu þínu. Þú mælist með 1/8 í litning 21. Ef þið viljið betri niðurstöður þá get ég boðið ykkur að koma á morgun (föstudag) eða mánudag í fylgjusýnitöku fyrir nákvæmara mat. En þið verðið að taka ákvörðun sem fyrst hvort þú ætlir að eyða fóstrinu ef þið ætlið að mæta því það er því miður stutt í jólin og þú yrðir of langt gengin ef þú myndir bíða fram yfir jól.“

Aldrei í vafa
„Þetta var eins og að vera slegin utan undir nokkrum sinnum. Grétar var ekki með mér þegar ég fæ þetta símtal. Ég rauk heim til að tala við Grétar,“ Grétar segir það samtal svo sem ekki hafa verið mjög langt eða erfitt. „Við vorum strax sammála um það að við vildum halda meðgöngunni áfram og taka því sem koma skyldi. Við afþökkuðum því þessa rannsókn. Ef þetta væri það sem okkur var ætlað þá myndum við bara taka því.“

Þau sögðust fljótlega hafa gert foreldrum sínum og nánum ættingjum og vinum grein fyrir því hver staðan væri. „Okkur var vel tekið og við fundum mikinn stuðning við þessa ákvörðun okkar,“ sagði Anna Ester og bætti við. „Við fórum svo í mjög ítarlegan 16 vikna sónar þar sem allt var skoðað. Sá sónar kom mjög vel út, hjartað var í góðu lagi og útlimir litu vel út en það er oft einkenni sem greinast snemma hjá þessum einstaklingum. Áhyggjurnar aukast aftur á móti hjá okkur eftir að við fórum í 20 vikna sónarinn. Þá fara að sjást á fylgjunni einhverskonar blöðrur og er að myndast einhver mótstaða í naflastreng. Þá erum við komin í eftirlit í Reykjavík á tveggja vikna fresti. Þetta fylgdi okkur alveg út meðgönguna og það var farið að búa okkur undir það að þessu gæti fylgt einhver vandamál.“

Þeir bræður Óttar Þór og Emil Þór eiga einstaka systur.

Tapaði sér á google
Anna Ester fór þvert á ráðleggingar að stunda sínar eigin rannsóknir á netinu. „Ég tapaði mér á google og það gerði mér alls ekki gott og lítið jákvætt þar að finna. Það var ekki fyrr en ég færði mig yfir á Instagram og fór að finna og fylgjast með fullt af fjölskyldum með downs börn. Þar var náttúrulega miklu meiri gleði og hamingja og ég sá hvað  þetta voru eðlilegar og flottar fjölskyldur að lifa sínu lífi. Það róaði mig mikið og gerði helling fyrir mig.“

Tengt vel við þetta fólk
„Við vorum allan tímann undir mjög ströngu eftirlit, ekki bara út af þessari greiningu heldur er ég einnig með sykursýki sem fylgir líka mikið eftirlit með bæði mér og fóstri. Það róaði mig mikið þó að við værum alltaf með þessa óvissu hangandi yfir okkur en Grétar var svo sem alveg rólegur yfir þessu öllu allan tímann“ sagði Anna Ester. „Ég er nú ekki mjög mikið í því að hafa áhyggjur af einhverju sem gerist hugsanlega. Ég hef unnið lengi með einstaklingum með downs og aðrar fatlanir. Ég hef alltaf tengt mjög vel við þetta fólk sem er almennt glaðlynt og hefur ekki of miklar áhyggjur af hlutunum. Vissulega vissum við að svona barn gæti orðið meiri vinna en mér fannst það aldrei neitt til að hafa áhyggjur yfir. Ég var ekki að pæla í því þegar strákarnir voru hálfs árs hver staðan á þeim yrði eftir 20 ár, af hverju ætti ég að vera að spá í því með hana“ bætti Grétar Þór við.  En Grétar Þór hefur frá árinu 2012 verið aðalskipuleggjandi Stjörnuleiksins, þar sem leikmenn sem eiga við einhvers konar fatlanir að etja, keppa í handbolta með og á móti núverandi og fyrrverandi leikmönnum úr meistaraflokki karla hjá ÍBV sem sjá líka um skipulagið. „Þetta er hugmynd sem kviknaði 2012 hjá okkur og hefur bara vaxið síðan,“ sagði Grétar en venja er að safna fyrir gott málefni með miðasölu.

Allt gekk vel
Laufey var tekin með keisaraskurði eftir tæplega 37 vikna meðgöngu. „Við förum bara inn í þá aðgerð enn með líkurnar 1/8 að það sé downs, við vitum ekkert meira en það. Ég er vakandi þegar hún kemur í heiminn. Þetta er minn þriðji keisari þannig að það gekk bara allt vel. Þau eru öll tekin svona fyrir tíma út af sykursýkinni hjá mér. Það er náttúrulega merkilegt þó svo að hún fæðist með downs-heilkenni að þá er hún eina barnið okkar sem hefur ekki þurft að fara á vökudeild. Hún var bara hjá okkur allan tímann og það er fáránlegt að segja það en ég var alltaf að bíða eftir að hún yrði tekin frá mér eins og strákarnir. Ég sagði strax inni á skurðstofu að ég vildi strax fá að vita hvort hún væri með downs og spurði Grétar. Hann var ekki viss en um leið og ég sá hana þá sá ég það strax. Ég var búinn að liggja yfir myndum á netinu og fylgjast með svo mörgum börnum að það voru mörg útlitseinkenni sem ég þekkti strax. Hún var með lítil augu og eyru sem eru einkenni. Ég bað þá strax um að hún yrði skoðuð af barnalækni. Ég var alltaf nokkuð viss að þetta yrði niðurstaðan. Ég var alveg búin að undirbúa mig undir það. Einstaklingar með downs eru náttúrulega ólíkir eins og við hin og með mismikil einkenni en ég var ekki í vafa,“ sagði Anna Ester.

Fæðing Laufeyjar gekk vel en hún var tekin með keisara.

Gleði og sorg
Hvernig varð ykkur við þegar niðurstaðan lá endanlega fyrir? „Þetta voru mjög blendnar tilfinningar, það gerðist eitthvað þegar læknirinn var farinn og við vorum að meðtaka þetta allt. Auðvitað var maður sorgmæddur. Maður er að springa úr ást og hamingju yfir þessu nýja barni en á sama tíma er þetta náttúrulega smá áfall og þessari niðurstöðu fylgir ákveðin sorg. Þetta blandast allt í graut þessar tilfinningar eftir fæðingu. Við erum líka bara ein í Reykjavík að taka á móti þessum fréttum. Það mátti enginn koma til okkar, foreldrar eða aðrir. Við vorum þarna í fjóra daga eftir fæðinguna. Búin að vera uppi á landi í um mánuð á undan. Maður var farinn að sakna strákanna, búinn að vera á flandri bæði í bústað, inni á fólki og svo á sjúkrahóteli þannig að það er margt sem spilar inn í á þessum tímapunkti og tilfinningarnar úti um allt.“ Við tóku mikið af rannsóknum hjá Laufeyju og eftirfylgni bæði í tengslum við þessar niðurstöður og svo auðvitað í tengslum við sykursýkina svo foreldrunum þótti oft nóg um. „Mér fannst þetta komið ágætt af nálastungum, það var búið að pota í hana á flestum stöðum,“ sagði Grétar.

Laufey bræðir alla sem hún kemur nálægt og vekur mikla lukku alls staðar.

Dapurleg tölfræði
Á árunum 2007-2012 greindust alls 38 tilvik af þrístæðu 21 við 12 vikur, allar meðgöngurnar enduðu með fóstureyðingu. Þetta hefur lítið breyst síðustu ár og er eyðingarhlutfallið um 90% að sögn Önnu Esterar. Þau segjast hvergi hafa orðið vör við annað en jákvæð viðbrögð við þeirri ákvörðun að halda áfram með meðgönguna bæði fyrir og eftir fæðingu Laufeyjar. „Það hefur náttúrulega verið mikil umræða um fóstureyðingar á einstaklingum þar sem greinast líkur á downs-heilkenni. Við skerum okkur úr hér á Íslandi hvað þetta varðar en hlutfall fóstureyðinga er mjög hátt hér og í Danmörku. Ég held að ég hafi verið að lesa að árið 2015 voru 36 fóstureyðingar vegna gruns um litningagalla. Það segir sig sjálft að stór hluti þessara barna var í góðu lagi, tölfræðin segir okkur það. Fyrir utan það hvað þessir einstaklingar lita mannlífið hjá okkur og gera mikið fyrir okkur,“ sagði Grétar.

Frábær staður
Þau kvíða ekki framtíðinni í Vestmannaeyjum. „Þetta er náttúrulega bara frábær staður fyrir Laufeyju. Við erum í sambandi við annað par á höfuðborgarsvæðinu sem átti stelpu með downs í apríl og munurinn á samfélaginu er svo mikill. Þau voru einmitt að tala um að þau sjái aldrei neinn með downs í sínu daglega lífi en við erum svo heppin að hafa þetta fólk á meðal okkar í samfélaginu. Það þekkja þau allir með nafni, þau ferðast til og frá vinnu á eigin vegum og eru velkomin alls staðar. Þetta er ekki tilfellið í Reykjavík. Þar sem þeim er keyrt frá sambýli í sína vinnu eða úrræði og eru minna á meðal fólks. Þetta allt verður til þess að fólkið hér er miklu betur upplýst um þessa einstaklinga og er opnara gagnvart þeim. Við höfum alveg heyrt af fólki í okkar sporum sem hefur fengið samúðarkveðjur. Ég held að enginn í Vestmannaeyjum myndi láta sér detta það í hug að segja eitthvað svoleiðis. Auðvitað vitum við ekki hvað hún kemur til með að geta og geta ekki. Hversu fær einstaklingur hún verður en við erum svo heppin að búa í samfélagi þar sem allir hafa tækifæri á því að lifa sjálfstæðu og eðlilegu lífi,“ sagði Anna Ester.

Mikill stuðningur
Grétar segir að enn sem komið er ekki vera mikinn mun á því að eiga Laufeyju eða drengina. „Hún er náttúrulega bara ungabarn og þetta virkar alveg eins og með hina, þetta eru bara sömu skrefin. Við erum bara núna voða ánægð hvað hún er dugleg að sitja og getur tínt upp í sig Cheerios. Stóri munurinn er allur þessi stuðningur og aðhald. Hún er undir stöðugu eftirliti, hún fer í sjúkraþjálfun og hittir þroskaþjálfa, svo erum við með teymi á Greiningarstöðinni í Reykjavík sem við erum í sambandi við. Þar er ótrúlega mikill stuðningur. Þau eru dugleg að benda okkur á hluti sem við eigum rétt á og aðstoða okkur við það allt saman. Þannig að við getum ekki sagt annað en það sé vel hugsað um okkur og þessi þjónusta öll til fyrirmyndar.“

Laufey hefur verið undir ströngu eftirliti frá fæðingu.

Anna Ester tekur undir það og segir það ótrúlega svart og hvítt það viðmót sem hún fékk frá fósturgreiningardeildinni í upphafi miðað við þann stuðning sem þau njóta núna. „Þarna mætti kannski eitthvað aðeins skoða það að útskýra stöðuna betur fyrir fólki í stað þess að nánast hvetja til fóstureyðingar og leggja þann möguleika á borðið eins og sjálfsagðasta hlut í heimi. Ég vill þó taka það fram að allir sem við hittum í þessu ferli, ljósmæður og aðrir eftir að ákvörðunin var tekin voru mjög ánægð með okkur og okkur ítrekað sagt að við ættum að vera stolt af þessari ákvörðun.“

Vinkonur
Það hafði ekki fæðst einstaklingur með downs á Íslandi í þrjú ár þegar tvær stúlkur með downs fæddust árið 2023. Anna Ester segir það mikinn stuðning að hafa aðra fjölskyldu í svipaðri stöðu. „Þetta er bara okkar mömmuhópur við reynum að kíkja á þau þegar við förum í bæinn og það getur líka verið mikilvægt fyrir þær að vera í sambandi og geta haft félagsskap af hvor annarri í framtíðinni. Mamman hafði samband við mig eftir að við gerðum þetta opinbert en ég var búin að frétta af þeim. Ég er viss um að það á eftir að hjálpa okkur mikið að hafa annað fólk í svipaðri stöðu og við.“

Stoltir foreldrar
Bræður Laufeyjar eru ekki vafa að systir þeirra er einstök. „Við tókum strax samtalið við þann eldri, Óttar Þór og útskýrðum stöðuna fyrir honum. Okkur fannst það bara nauðsynlegt svo hann færi ekki skólann eða eitthvað og fengi einhverjar spurningar eða athugasemdir um systur sína sem hann réði ekki við. Það er engin leið að sjá hvernig krakkar höndla svona málefni. Við höfum bara kennt þeim að þeir eiga eigi einstaka systur og þannig nálgast vinir þeirra líka málefnið,“ sagði Grétar. Anna Ester segir flesta venjast því að sængurgjafir og annað umstang dragist saman eftir því sem börnum fjölgar það sé þó ekki raunin í tilfelli Laufeyjar. „Við höfum aldrei séð annað eins, hún bræðir alla sem hún kemur nálægt og það vilja allir kjassast í henni og spyrja frétta hvert sem við förum. Hún vekur mikla lukku alls staðar. Við erum ótrúlega stoltir foreldrar,“ sagði Anna Ester að lokum.

Ótrúlega stoltir foreldrar.
Facebook
X
LinkedIn
Pinterest
Reddit
Email
Print
Skoða blaðið á netinu
EF Fors 10 Tbl 2025
10. tbl. 2025

NÝBURAR

Aaro Orrason Vähätalo
30. ágúst 2025
Drengur
Turku Finnland
Laura Vähätalo og Orri Arnórsson

NÝBURAR

76e2af77 02d9 48eb B73a 24c32e2403ac
4. janúar 2025
Drengur
Landspítalinn, Reykjavík.
Katrín Rós Óðinsdóttir og Sæþór Örn Garðarsson.

NÝBURAR

Drengur
3. desember 2024
Drengur
Kaupmannahöfn
Selma Jónsdóttir og Matthías Óskarsson

NÝBURAR

Drengursnorrason
23. október 2024
Drengur
Landspítalinn, Reykjavík.
Svanhildur Eiríksdóttir og Sindri Sigfússon

NÝBURAR

Lovisu
8. október 2024
Stúlka
Landspítalinn, Reykjavík.
Lovísa Jóhannsdóttir og Jökull Andri Sigurðsson

NÝBURAR

462560821 8781643355208571 772013136079801246 N
17. október 2024
Drengur
Landspítalinn, Reykjavík.
Aníta Björk Friðriksdóttir og Sigurbjörn Þórður Árnason.

NÝBURAR

Tandri
13. september 2024
Drengur
Hsu, Vestmannaeyjum.
Dagur Arnarsson og Svava Tara Ólafsdóttir.

NÝBURAR

Bfec0ecf E4f8 466a 89f9 94c607ba1ec5
24. ágúst 2024
Drengur
Landspítalinn, Reykjavík.
Óskar Elías Zoega Óskarsson og Díana Ólafsdóttir

NÝBURAR

Natan Orn
14. ágúst 2024
Drengur
Landspítalinn, Reykjavík.
Þórey Lúðvíksdóttir og Elías Skæringur Guðmundsson

NÝBURAR

F4c5612c Ae8a 4d77 B83d C5f14f2007fe
26. september 2024
Stúlka
Landspítalinn, Reykjavík.
Þorgeir Þór Friðgeirsdóttir og Elín Inga Halldórsdóttir

NÝBURAR

Moller
20. september 2024
Drengur
Landspítalinn, Reykjavík
William Thomas Möller og Jenný Guðnadóttir.

NÝBURAR

E50c5f3f Ddd5 4ee2 8685 Dad7e0e417ad
2. ágúst 2024
Stúlka
Fæðingadeild HVE, Akranes
Sigurdís Egilsdóttir og Gunnlaugur Örn Guðjónsson

NÝBURAR

Drengur Hristov
2. ágúst 2024
Drengur
Landspítalinn, Reykjavík
Todor Hristov og Marta Möller

NÝBURAR

Nýburi
30. júlí 2024
Stúlka
Heimahúsi á Dalvík
Alexandra Ósk Gunnarsdóttir og Brynjar Ingi Óðinsson

NÝBURAR

Nýfædd stúlka.
4. júlí 2024
Stúlka
Landspítalinn, Reykjavík
Theodóra Ágústsdóttir & Carlos Guani

NÝBURAR

IMG 3174
15. júlí 2024
Drengur
Balingen, Þýskalandi
Sandra Erlingsdóttir og Daníel Þór Ingason

NÝBURAR

tryggvason
30. júní 2024
Drengur
Reykjavík
Tryggvi Stein Ágústsson og Guðný Erla Guðnadóttir

NÝBURAR

nyburar
4. júlí 2024
Drengur
Reykjavík
María Rós Sigurbjörnsdóttir og Bjarni Heimir Kristinsson

NÝBURAR

jon
20. júní 2024
Drengur
Landspítalinn, Reykjavík
Logi Snædal Jónsson og Svala Björk Hólmgeirsdóttir

NÝBURAR

Admin Ajax
10. júlí 2024
Stúlka
Landspítalinn, Reykjavík
Unnur Birna Hallgrímsdóttir og Guðmundur Sundström
Mest lesið
Fylgstu með

Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst

Dýptarmæling

Ekki liggja fyrir nýjar mælingar 

Góð ráð fyrir siglingu

Sjóveiki

Hvað er sjóveiki?

Sjóveiki er misræmi milli skynfæra líkamans sem senda boð til heilans um hreyfingu – kyrrstöðu.

Þegar einstaklingur er úti á sjó þá nema skynjarar í vökvafylltum gangi í innra eyra hreyfingu og senda boð til heilans að einstaklingur sé á hreyfingu. Augun senda hins vegar boð til heilans um að viðkomandi sé kyrr. Heilinn á erfitt með að vinna úr þessum misvísandi og ósamræmdu upplýsingum og sendir skilaboð til magans um að tæma sig – þ.e. veldur uppköstum.

Einkenni sjóveiki eru þreyta, ógleði, svimi, svitakóf og uppköst.

Góð ráð til að hindra sjóveiki:

  • Góð hvíld daginn fyrir brottför. Að fara seint að sofa og snemma um borð í bát fer ekki vel saman ef fólk er hætt við sjóveiki.
  • Forðist áfenga drykki daginn fyrir brottför
  • Forðist djúpsteiktan, brasaðan eða saltan mat daginn fyrir siglingu.
  • Borðið góðan morgunverð. Borðið gjarnan hvítt brauð, hafragraut og ávexti þó ekki sítrus ávexti.
  • Forðist mikið koffein. Mikið kaffi er ekki það sem maganum líkar fyrir sjóferð.
  • Hafðu mat með þér á sjó. Gott er að hafa samlokur með kjúklingi eða kalkún. Kjötið er fitusnautt og brauðið er róandi í maga. Hafðu endilega eitthvað til að grípa í sem er létt í maga. Bananar eru mjög góðir til að narta í ef þú finnur fyrir ógleði en einnig er gott að hafa létt kex eða annað sem er ekki salt eða fitumikið.
  • Drekkið vel af vatni en einnig er gott er að drekka kóla drykki eða engiferöl í sjóferðinni

Lyf við sjóveiki þ.e. lyf sem slá á einkennin og fást án lyfseðils í apóteki.

  • Koffínátín – fæst án lyfseðils
  • Postafen – fæst án lyfseðils
  • Scopolamin plástur – lyfseðilsskyltEinnig má fá armbönd gegn ferðaveiki sem sumir telja að hjálpi.

Önnur ráð:

  • Engifer er jurt sem nýlega hefur fengið aukna athygli vegna þess að því er haldið fram að hún geti slegið á ógleði sem fylgir sjóveiki. Til forna tuggðu kínverskir sjómenn engiferrót til að draga úr sjóveiki. Flest lyf sem virka á ógleði verka á heilann en engifer virkar aðeins á magann. Ráðlagt er að taka 1000 mg. hylki hálftíma fyrir brottför. Einnig má taka eitt eða tvö 500 mg. hylki sem eru til viðbótar á ferðalaginu. Ekki er ráðlagt að drekka coke með engifertöflum.
  • Piparminta og te eru einnig gömul húsráð við ferðaveiki.
  • Sumum finnst betra að taka sýrujafnandi töflur, Alminox eða slíkt áður en þú heldur á sjó og þá er gott að hafa box með út á sjó.

Hvar í skipinu er best að vera o.fl.

  • Minna finnst fyrir hreyfingu og veltingi ef maður er staddur næst miðju bátsins.
  • Mörgum finnst gott að vera í kulda, t.d.að vera úti á dekki og láta vindinn leika um sig.
  • Matarlykt fer illa í þá sem hætt er við sjóveiki og einnig pústið frá bátnum.

Þungun:

Þungaðar konur sem þjást af sjóveiki mega nota koffinátín í litlum skömmtum en best er að ráðfæra sig við lækni eða lyfjafræðing.
Þunguðum konum er ekki ráðlagt að nota engifer þar sem það er ekki staðfest hvort það geti haft skaðleg áhrif á fóstur.

Eyjafréttir
Friðhelgisyfirlýsing

Þessi vefsíða notar fótspor til að við getum veitt þér bestu notendaupplifun. Upplýsingar um fótspor eru geymdar í vafranum þínum og framkvæma aðgerðir eins og að þekkja þig þegar þú kemur aftur á vefsíðu okkar og hjálpa teymi okkar að skilja hvaða hluta vefsíðunnar þér finnst áhugaverðast og gagnlegast.