Vegna fréttar um ræðu Árna Johnsen, þingmanns suðurkjördæmi á Alþingi á þriðjudag, hefur Leifur Hallgrímsson, framkvæmdastjóri Mýflugs, sem sinnir sjúkraflugi á Vestmannaeyjasvæðinu, sent vefnum athugasemd. Í henni kemur fram að tímasetningar varðandi sjúkraflugið í ræðu Árna eru ekki réttar en Árni sagði að hringt hefði verið eftir sjúkraflugvél tíu mínútur yfir tólf og að vélin hafi lent tíu mínútur í tvö. „Í því tilfelli sem Árni er að tala um berst útkall kl.12:07 og sjúkraflugvél lendir á Vestmannaeyjaflugvelli kl.13:27. Samanlagður flugtími og útkallstími flugvélarinnar er því ein klukkustund og tuttugu mínútur,“ segir Leifur.