Óbyggðanefnd hefur framlengt kröfulýsingarfrest landeigenda á svæði 12 (eyjar og sker) til 2. september 2024.
Í tilkynningu óbyggðanefndar segir að framlengingunni sé ætlað að gefa fjármála- og efnahagsráðherra færi á að ljúka endurskoðun sem ráðherra hefur boðað á kröfugerð ríkisins, sem og kortagerð vegna hennar, og tryggja að landeigendur hafi síðan nægan tíma að því loknu til að bregðast við endurskoðuðum kröfum ríkisins og eftir atvikum lýsa gagnkröfum.
Verði endurskoðun á kröfum ríkisins ekki lokið innan hæfilegs tíma fyrir 2. september kemur til greina af hálfu nefndarinnar að framlengja frestinn frekar til að tryggja að landeigendum gefist nægur tími til viðbragða. Nefndin hefur hins vegar lagt ríka áherslu á það við fjármála- og efnahagsráðherra að boðaðri endurskoðun ráðherra á kröfunum verði hraðað eins og kostur er svo að afstaða ríkisins liggi fyrir sem allra fyrst, enda hafa fjölmargir landeigendur þegar hafið vinnu við að bregðast við upphaflegri kröfugerð ríkisins, segir í tilkynningu óbyggðanefndar.
Forsaga málsins
Kröfur fjármála- og efnahagsráðherra um þjóðlendur á svæði 12 (eyjar og sker) bárust óbyggðanefnd 2. febrúar. Nefndin kynnti þá kröfurnar og veitti landeigendum frest til 15. maí til að lýsa kröfum á móti í samræmi við þjóðlendulög.
Óbyggðanefnd ákvað síðan á fundi 4. apríl að framlengja kröfulýsingarfrestinn til 2. september í ljósi þess að vinnu við kortagerð vegna krafna ríkisins var ekki lokið. Einnig var litið til þess að lögmaður ríkisins hafði 27. mars upplýst nefndina um tilteknar leiðréttingar á kröfugerð ríkisins og að líklegt væri að frekari endurskoðun færi fram.
Niðurstaða óbyggðanefndar var að sú framlenging á kröfulýsingarfresti landeigenda til 2. september sem þegar hafði verið ákveðin gæfi fjármála- og efnahagsráðherra það svigrúm sem ráðherra óskaði eftir til að endurskoða kröfugerð ríksins. Í svarbréfi til ráðherra var þó einnig upplýst að ef endurskoðuninni yrði ekki lokið innan hæfilegs tíma fyrir 2. september kæmi til greina af hálfu nefndarinnar að framlengja frestinn frekar til að tryggja að landeigendum gefist nægur tími til viðbragða en nefndin lagði jafnframt ríka áherslu á að boðaðri endurskoðun yrði hraðað eins og kostur væri, sbr. framangreint.
Málsmeðferð þjóðlendumála
Málsmeðferð þjóðlendumála fer eftir þjóðlendulögum. Hún gengur í meginatriðum þannig fyrir sig að óbyggðanefnd tilkynnir fjármála- og efnahagsráðherra að nefndin hafi ákveðið að taka tiltekið svæði til meðferðar og veitir ráðherra frest til að lýsa fyrir hönd íslenska ríkisins kröfum um þjóðlendur þar.
Þegar kröfur ráðherra f.h. ríkisins liggja fyrir kynnir óbyggðanefnd þær og skorar á þá sem telja til eignarréttinda eða annarra réttinda á svæði sem ríkið gerir kröfu til að lýsa kröfum sínum innan tiltekins frests.
Óbyggðanefnd rannsakar síðan málin, sem felur m.a. í sér umfangsmikla og kerfisbundna gagnaöflun í samvinnu við sérfræðinga á Þjóðskjalasafni Íslands. Þegar framkomin gögn hafa verið rannsökuð til hlítar úrskurðar óbyggðanefnd um kröfur málsaðila. Ef svæði sem ríkið hefur gert þjóðlendukröfur til reynast samkvæmt rannsókn óbyggðanefndar vera eignarlönd er kröfum ríkisins þar hafnað. Svæði sem reynast utan eignarlanda eru hins vegar úrskurðuð þjóðlendur.
https://eyjar.net/krofunni-haldid-til-streitu/
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst