Skilja ekki á hverju hagkerfið okkar byggir – Bera ekki virðingu fyrir því fólki sem býr á landsbyggðinni – Það er mikið undir, framtíð barnanna á landsbyggðinni.
Viljum við hafa góð störf, lifa góðu lífi eða viljum við að hagkerfi landsbyggðarinnar verði að nýlenduhagkerfi og við verðum einhver jaðarsettur hópur, þar sem efnahagslegur vöxtur er ekki til staðar, og verðmætin flytjist öll til höfuðborgarinnar?
Vondu fjölskyldurnar
Á meðan RÚV mælir mínútur og stundir sem umræða um veiðigjöldin hefur tekið á Alþingi, sleppir að ræða efnisatriði er við hæfi að birta brot úr ræðu Guðmundar Fertrams sem hann hélt í á ráðstefnu í Vestmannaeyjum í síðasta mánuði. Tek meira mark á honum en fólki sem hefur að leiðarljósi að koma höggi á fjölskyldur sem þeim líkar ekki við. Sama hvað það kostar.
„Vandamálið í fjármálum ríkisins er ekki á tekjuhliðinni, heldur á kostnaðarhliðinni, en tekjur ríkisins jukust í fyrra um 5,8% en kostnaðurinn um 8,6%. Tekjuaukningin er til komin vegna efnahagslegs vaxtar sem er gríðarlega gott. Við ættum einmitt að vinna í því að auka þennan efnahagslegan vöxt en einbeita okkar að því að halda aftur af kostnaðinum. Það er hins vegar engin umræða á þinginu um kostnaðarhliðina, allavega engin þingmál um slíkt komin fram – en hvað snýst deilan?“ spurði Guðmundur Fertram Sigurjónsson, stofnandi og forstjóri líftæknifyrirtækisins Kerecis á Ísafirði á fjölmennri ráðstefnu Eyjafrétta í Akóges um veiðigjaldafrumvarp ríkisstjórnarinnar í síðasta mánuði.
Ráðstefnuna sóttu um 80 manns og kom margt athyglisvert fram á henni. Ekki síst hvaða afleiðingar hækkun veiðigjalda mun hafa. Ljóst er þó að hún verður þungt högg fyrir Vestmannaeyjar sem gætu séð á eftir a.m.k. 1,5 milljörðum á ári í ríkishítina án þess að fá nokkuð á móti.
Auk Guðmundar fluttu Einar Sigurðsson, stjórnarformaður Ísfélags hf., Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar, Páll Magnússon forseti bæjarstjórnar Vestmannaeyja, Róbert Ragnarsson sérfræðingur hjá KPMG og Stefán Örn Jónsson framkvæmdastjóri Skipalyftunnar erindi. Einnig tóku þingmennirnir Guðrún Hafsteinsdóttir, Víðir Reynisson og Vilhjálmur Árnason til máls.
Nýlenduhagkerfi á landsbyggðinni?
„Af hverju er verið að leggja þennan ofurskatt á landsbyggðina og ríkisstjórnin að búa til gjá á milli höfuðborgarinnar og landsbyggðarinnar?“ spurði Guðmundur og bætti við annars staðar í ræðu sinni.
„Það er best að tala um hlutina eins og þeir eru,“ segir Guðmundur og bætir við „Þessi ofurskattur á landsbyggðina þýðir minni fjárfestingar – málningin mun flagna af frystihúsunum, skipin muni ryðga, það verða engin ný skip, engar nýjar vinnslulínur eða bræðslur, engin stórvæg innkaup hjá vélsmiðjum og engar áhættufjárfestingar í sprotum eins og Kerecis var fyrir fimmtán árum.
Fólkið sem er að baki þessum tillögum skilur ekki á hverju hagkerfið okkar byggir og ber ekki virðingu fyrir því fólki sem býr á landsbyggðinni. Það er verið að setja eina meginatvinnugrein íslensks hagkerfis í uppnám. Atvinnugrein sem skiptir landsbyggðina öllu og til stendur að sjúga verðmætin sem búin eru til með einu pennastriki til að fjármagna óráðsíuna í ríkisapparatinu í Reykjavík – því menn halda að þar verði verðmætin til,“ sagði Guðmundur en benti á að þannig virki raunhagkerfið ekki.
„Það er mikið undir, framtíð barnanna á landsbyggðinni. Viljum við hafa góð störf, lifa góðu lífi eða viljum við að hagkerfi landsbyggðarinnar verði að nýlenduhagkerfi og við verðum einhver jaðarsettur hópur, þar sem efnahagslegur vöxtur er ekki til staðar, og verðmætin flytjist öll til höfuðborgarinnar?“ sagði Guðmundur að endingu.
Ómar Garðarsson, ritstjóri.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst