Fræðsluráð Vestmannaeyja tók fyrir starfsemi gæsluvallarins. Fram kemur í fundargerð að málið hafi áður verið til umræðu vegna dræmar nýtingar.
Síðustu ár hefur meðtaltal barna sem sótt hafa úrræðið fækkað verulega, eða frá 22 börnum að meðaltali árið 2018 í 7,5 börn að meðaltali síðasta sumar. Tilurð gæsluvalla sem sumarúrræði er barns síns tíma og flest sveitarfélög hætt þeirri starfsemi. Sífellt erfiðara er að manna þetta úrræði. Skólaskrifstofan leggur til að starfsemi gæsluvallar verði hætt.
Í niðurstöðu ráðsins segir að í ljósi dræmdrar nýtingar samþykkir fræðsluráð tillögu skólaskrifstofu um að úrræði gæsluvallar standi ekki til boða sumarið 2025. Tillagan var samþykkt með fjórum atkvæðum fulltrúa H- og D-lista gegn einu atkvæði E-lista.
Í bókun frá Hafdísi Ástþórsdóttur, fulltrúa Eyjalistans um málið segir að fulltrúi Eyjalistans leggi áherslu á mikilvægi þess að daggæsluúrræði bæjarfélagsins verði ekki lokað alfarið yfir sumartímann.
Úrræðið hefur mikla þýðingu fyrir fjölskyldur sem reiða sig á það til að samræma vinnu og umönnun barna á þessum tíma. Auk þess veitir það börnum vettvang fyrir útivist, félagsleg samskipti og skapandi leik í öruggu umhverfi, sem styrkir þeirra þroska og vellíðan. Undirrituð telur að með algerri lokun myndi bæjarfélagið skapa óþarfa erfiðleika fyrir foreldra og skerða stuðning við börn á viðkvæmum aldri. Frekar en að loka úrræðinu alfarið hvetur undirrituð til að skoða aðrar lausnir, svo sem einfaldari rekstrarform t.d. opna bara eftir hádegið eins og áður var til að tryggja að þjónustan haldist opin. Ég mæli því eindregið gegn lokun úrræðisins, segir í bókun Hafdísar.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst