Í gærkvöldi hélt Biggi Nielsen bæjarlistamaður magnaða tónleika í sundlaug Vestmannaeyja í samstarfi við Fab Lab Vestmannaeyjar í tengslum við Island Ocean Fusion Camp og Distributed Design verkefnið sem styrkt er að Creative Europe áætlun Evrópusambandsins. VSV, Ísfélag og Vestmannaeyjabær styrktu einnig tónleikana.
Allir voru velkomnir og enginn aðgangseyrir og gestir upplifðu tónleikanna til fulls ofan í sundlauginni eða fylgdust með á bökkum laugarinnar. Biggi flutti ásamt hljómsveit einstök verk sem innihalda hljóð úr náttúru Vestmannaeyja og þar á meðal hljóð hvala í kringum Vestmannaeyjar sem vísindafólk úr Háskóla Íslands hefur tekið upp og notað í rannsóknir sínar.
Um var að ræða mjög sjónrænan og áhugaverðan viðburð í sundlaug Vestmannaeyja, þar sem frumflutt voru fleiri lög með söngvum hvala sem spiluð voru í neðansjávar hátölurum undir yfirborði sundlaugarinnar og á bökkum sundlaugarinnar spilaði hljómsveitin gesti sundlaugarinnar með hreyfimyndum úr náttúru Vestmannaeyja og hafinu í kring. Auk þess sem sýndar voru myndir úr störfum hvala-vísindafólks við Vestmannaeyjar.
Gestir sundlaugarinnar tóku þátt í viðburðinum og heyrðu sérstaklega í söng hvalanna þegar þeir köfuðu undir yfirborðið. Þá var einnig mögnuð stund þegar gestir tónleikagestir syntu logandi kerti í undir ljúfum tónum og
Viðburðinum var ætlað að vekja fólk til umhugsunar um mikilvægi hafsins og vekja athygli á rannsóknum því tengdu og auka áhuga á haflæsi og er hluti af verkefninu Sjávarsamfélagið Vestmannaeyjar sem Frosti Gíslason í Fab Lab smiðjunni í Eyjum leiðir.
Hljómsveitina skipuðu: Birgir Nielsen Þórsson: trommur, slagverk, forritun. Þórir Ólafsson: Hljómborð og synthesiser. Þórir Rúnar Geirsson: Bassi. Gísli Stefánsson: gítarar, Gísli kom sterkur inn fyrir Ásgeir Ásgeirsson sem komst ekki í tæka tíð.
Tónleikarnir gengu einstaklega vel fyrir sig og Frosti Gíslason verkefnastjóri og Biggi Nielsen voru himinlifandi með mætinguna og þátttöku Eyjafólks. Aðspurðir sögðust þeir þakklátir starfsfólki sundlaugarinnar í Eyjum, tónlistarfólkinu, hljóð-, ljós-, og ljósmyndurum, kvikmyndagerðarfólki, listafólki, SeaLife, vísindafólki HÍ og styrktaraðilum tónleikanna.
Í síðasta mánuði kom hópur vísindafólks, hönnuða og listafólks víðsvegar að úr Evrópu og vann að áhugaverðum verkefnum í Fab Lab smiðjunni í Eyjum á vinnustofu sem kölluð var Island Ocean Fusion Camp sem var vettvangur þar sem unnið var að verkefnum tengdu hafinu og haflæsi og verða niðurstöður vinnustofunnar kynntar síðar.
Óskar Pétur Friðriksson tók meðfylgjandi myndir í gær.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst