Hvatningarverðlaun fræðsluráðs Vestmannaeyja voru afhent í gær við hátíðlega athöfn í Einarsstofu. Við sama tækifæri voru samningar undirritaðir við þá sem hlutu styrki úr Þróunarsjóði leik-, grunn- og tónlistarskóla fyrir árið 2025. Aníta Jóhannsdóttir, formaður fræðsluráðs, afhenti verðlaunin og undirritaði samningana fyrir hönd fræðsluráðs, að því er segir í frétt á vef bæjaryfirvalda.
Hvatningarverðlaun fræðsluráðs voru nú afhent í sjötta sinn en markmiðið með þeim er að vekja athygli á því sem vel er gert í fræðslustarfi. Verðlaunin eru hugsuð sem hrós og hvatning til þeirra sem sýnt hafa framúrskarandi vinnu og er einnig staðfesting á því að viðkomandi er fyrirmynd á því sviði sem viðurkenningin nær til.
Tíu tilnefningar til Hvatningarverðlauna fræðsluráðs bárust þetta árið. Fræðsluráð valdi að venju úr þeim tilnefningum og veitti eftirtöldum aðilum sérstaka viðurkenningu:
Samstarf bókasafns Vestmannaeyja við GRV
Starfsfólk safnsins hefur verið einstaklega öflugt við að ýta undir lestur nemenda í GRV með alls kyns spennandi viðburðum. Sumarlesturinn hefur verið mjög vinsæll sem og Jólasveinaklúbburinn þar sem starfsmenn safnsins leggja mikinn metnað í að skreyta safnið og halda í lokin uppskeruhátíð. Á undanförnum árum hefur skráðum þátttakendum í klúbbunum farið fjölgandi sem er mikið gleðiefni. Þegar Kveikjum neistann þróunarverkefnið var ýtt úr vör tóku starfsmenn safnsins sig til og litakóðuðu allar barnabækur til þess að auðvelda börnum og forráðamönnum að finna bækur fyrir þá lestrarhæfni sem börnin hafa náð. Laugardagsopnanir hafa slegið í gegn og fjöldi fólks leggur leið sína á safnið þar sem alltaf er eitthvað skemmtilegt um að vera en í leiðinni læra börnin að umgangast bækur og tileinka sér komur á safnið. Öll þessi vinna og hvatning starfsmanna safnsins til að efla lestur barna er til fyrirmyndar.
Kúbbastarf á Frístund – Sigurleif Kristmannsdóttir, umsjónarmaður.
Sigurleif hóf störf sem umsjónarmaður frístundavers fyrir ári síðan og kom inn með eftirtektaverðar breytingar á starfinu þar. Þar má nefna Klúbbastarfið sem vakið hefur mikla gleði nemenda á Frístund. Meðal þeirra áhugaverðu klúbba sem hafa verið í boði í vetur eru, jógaklúbbur, smíðaklúbbur, bakstursklúbbur, tröllaklúbbur, skvísuklúbbur, tónlistarklúbbur og margt fleira. Nemendur og forráðamenn hafa verið alsæl með klúbbastarfið og alla þá fjölbreytni sem boðið er upp á.
Tilraunir í 2. bekk – Bryndís Bogadóttir kennari.
Bryndís er reynslumikill kennari sem hefur í vetur verið með öfluga og eftirtektaverða kennslu í náttúrufræði. Hún hefur skipulagt og séð um ástríðutíma þar sem nemendur fá að gera tilraunir. Bryndís hefur lagt mikinn metnað og vinnu í tilraunirnar og meðal annars prufað þær allar heima hjá sér áður en þær eru framkvæmdar í skólanum. Einnig hefur hún samviskulega útbúið góðan gagnagrunn sem nýtist öðrum kennurum GRV. Þessar tilraunir hafa verið ákaflega vinsælar hjá nemendum og hafa þeir lært mjög mikið af þeim.
Samningar vegna styrkja úr Þróunarsjóði leik-, grunn- og tónlistarskóla voru einnig undirritaðir. Markmiðið með Þróunarsjóði leik-,grunn- og tónlistarskóla er að stuðla að þróunar- og nýsköpunarstarfi í skólunum. Fimm verkefni hlutu styrk úr þetta árið og nemur heildarupphæð styrkja kr. 2.600.000 Eftirtalin verkefni hlutu styrk þetta árið:
Gervigreind í skapandi skólastarfi. Markmiðið með verkefninu er að kynna gervigreindartækni og tól fyrir kennurum sem þeir geta nýtt sér í skólastarfinu á fjölbreyttan hátt. Verkefnið miðast að því að efla kennara í notkun gervigreindar á faglegan hátt með góðri leiðsögn. Lokaafurð verkefnisins verður sett upp í rafbók eða vefsíðu. Guðbjörg Guðmannsdóttir stendur að verkefninu.
Hreyfing í kennslu – æfingabanki. Markmið verkefnisins er að búa til æfingabanka fyrir kennara sem inniheldur fjölbreyttar og skemmtilegar hugmyndir að hreyfingu sem m.a. er hægt að nýta í kennslustundum/ástríðutímum í Kveikjum neistann þróunarverkefninu. Verkefnið miðar að því að stuðla að aukinni líkamlegri hreyfingu nemenda sem getur bætt vellíðan þeirra og einbeitingu. Sigríður Lára Garðarsdóttir stendur að verkefninu.
Ítarefni með Handbókinni Snemmbær stuðningur. Markmið verkefnisins er að valdefla kennara og leiðbeinendur enn frekar til góðrar kennslu með því að vinna og taka saman ítarefni með handbókinni, gera málörvunarefni aðgengilegra, markvissara og fjölbreyttara. Málörvunarstundir verða skipulagðar og settar upp í hópatímum eftir handbókinni þar sem áhersluþættir verða settir niður fyrir hverja viku fyrir sig og eftir aldri. Lokaafurðin verður aðgengileg kennurum. Að verkefninu standa: Helga Björk V. Björnsdóttir, Hrefna Jónsdóttir, Hildur Dögg Jónsdóttir, Guðrún Bára Magnúsdóttir, Thelma Ósk Sigurjónsdóttir.
Tengihefti og lestrarbækur. Markmið verkefnisins er að búa til nútímalegt og aðgengilegt lestrarefni fyrir byrjendur í lestri. Með þessu verkefni mun verða til nýtt, nútímalegt og fjölbreytt lestrarefni sem hentar breiðum hópi nemenda. Flokkur léttlestrarbóka og tengihefti fyrir byrjendur í lestri verða búin til þar sem bækurnar þyngjast jafnt og þétt. Í lok hverrar bókar verður QR kóði sem leiðir lesendur inn á verkefni sem þjálfar lestrarfærni þeirra enn frekar. Unnur Líf Imsland Ingadóttir og Snjólaug Elín Árnadóttir standa að verkefninu.
Lestrarhestarnir – handbók. Markmið verkefnisins er að gera efnið og hugmyndina með Lestrarhesta – þróunarverkefninu aðgengilegt fyrir bæði starfsfólk GRV sem og kennara annarra skóla sem hafa áhuga á því. Lestrarhesta – þróunarverkefnið hefur þróast áfram síðustu ár, víkkað út og teygt arma sína inn í fleiri kennslustundir. Verkefnabankinn stækkað samhliða því og mörg verkefni sem bíða vinnslu verkefnastjórans sem mun nú koma þeim í skipulagða handbók. Nina Anna Dau stendur að verkefninu.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst