„Hvenær drepur maður mann og hvenær drepur maður ekki mann?“ spurði Jón Hreggviðsson í Íslandsklukku, frægri skáldsögu Halldórs Laxness. Þessi stórkostlega spurning kemur stundum upp í huga minn þegar sveitarstjórnarmálin í Eyjum eru rædd. Ég spyr sjálfan mig: Hvenær er maður í minnihluta og hvenær ekki?
Svarið er ekki alltaf augljóst, en eitt er víst: minnihlutastaða í bæjarstjórn snýst ekki um að horfa aðgerðalaus á, heldur um að axla ábyrgð og hafa áhrif á samfélagið.
Í síðustu bæjarstjórnarkosningum hlaut Sjálfstæðisflokkurinn rúmlega 44 % atkvæða, sem gerir hann að stærsta stjórnmálaflokki bæjarins. Þótt við höfum ekki náð hreinum meirihluta, höfum við sterkt umboð frá tæplega helmingi bæjarbúa. Þessari niðurstöðu fylgir mikil ábyrgð sem við í minnihlutanum tökum alvarlega.
Við lögðum metnað í kosningabaráttuna og settum fram skýran verkefnalista sem við trúum að muni bæta samfélagið okkar. Þrátt fyrir að vera í minnihluta höfum við unnið að þessum verkefnum með hag bæjarfélagsins að leiðarljósi. Fyrir okkur snýst þetta ekki um pólitísk karp eða átök, heldur um að ná raunverulegum árangri fyrir Vestmannaeyjar.
Nokkrir hafa bent á að við bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins vinni of mikið með meirihluta H- og V- lista. Sumir telja að það grafi undan okkur sjálfum í næstu kosningum. Ég er ósammála. Í bæjarstjórn, sérstaklega í samfélagi af okkar stærðargráðu, er nauðsynlegt að setja pólitíska hagsmuni til hliðar og vinna saman í lykilmálum – hvort sem það eru samskipti við ríkisvaldið eða stórar ákvarðanir um innanbæjarmál.
Það væri ekkert betra fyrir samfélagið okkar ef bæjarráð væri ósamstíga í baráttumálum gegn ríkinu. Þvert á móti myndi það veikja stöðu okkar og draga úr þeim árangri sem við getum náð fyrir Eyjamenn.
Ég trúi því að flestir kjósendur Sjálfstæðisflokksins vilji sjá bæjarfulltrúa sína vinna af heilindum og einlægni fyrir samfélagið, sama hvort þeir séu í meirihluta eða minnihluta. Með því að halda áfram að leggja áherslu á samvinnu, traust og lausnir getum við ekki aðeins bætt samfélagið okkar heldur líka styrkt stöðu flokksins til framtíðar.
Í mínum huga snýst þetta um eitt: Að setja hag Eyjamanna í fyrsta sæti og vinna að því af heiðarleika og heilindum.
Eyþór Harðarson, bæjarfulltrúi.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst