Það er óásættanlegt með öllu að heil atvinnugrein sé nær óstarfhæf 6 mánuði á ári. Verðum við ekki að standa saman í baráttu fyrir því að nauðsynlegar bætur á Landeyjahöfn verði settar í forgang?
Það er hvergi betra skemmtilegra og fallegra en í Eyjum frá apríl og fram í september. Bærinn iðar af lífi, við veljum úr bestu veitingastöðum landsins og fjölbreyttri afþreyingu. Við í ferðaþjónustunni keppum um að fá til okkar besta starfsfólkið, það er úrval af skemmtilegum störfum í ferðaþjónustunni og marga daga komast færri en vilja með Herjólfi til Eyja.
Svo kemur haustið og haustlægðirnar, ferðaþjónustfyrirtækin loka hvert af öðru, því bæði hin almenni ferðamaður, svo ekki sé talað um ferðaskrifstofur bæði erlendar og innlendar hafa engan áhuga á að selja gallaða vöru, sem ferðir frá Landeyjahöfn til Eyja eru svo sannarlega á haustin og veturnar. Óvissan um siglingarnar er slík að menn eru ekki að taka sénsinn.
Það er nánast enginn nema við Vestmannaeyingar sem látum okkur hafa 3 til 4 klst siglingu með tilheyrandi óþæginum og ógleði á milli Eyja og Þorlákshafnar þegar ölduhæðin fer yfir 2.5 metra, sem gerist ansi oft á þessum árstíma.
Ég stjórna Eldheimum, ferðaþjónustufyrirtæki í eigu bæjarins, sem meira en blómstrar 6 mánuði ársins. Safnið er opið allt árið, þó afgreiðslu tíminn sé styttri á veturnar. Gestafjöldinn frá hausti og til vors eru ca. 0 -til 10 hræður að jafnaði.. Þegar Landeyjahöfn er lokuð líða oft heilu dagarnir án þess að nokkur gestur komi.
Ég er orðin langþreytt á að bíða eftir að nauðsynlegar framkvæmdir á Landeyjahöfn verði kláraðar svo flotta duglega ferðaþjónustufólkið okkar sem hefur lagt allt sitt undir í að koma upp fyrirtækjunum sínum geti rekið þau á ársgrundvelli eins og sjáfsagt þykir annarstaðar á landinu.
Ég er þeirrar skoðunar að þessar kröfur um jarðgöng séu fjarlægur draumur, sem stendur samstöðu og baráttu fyrir „Landeyjahöfn allt árið“ fyrir þrifum.
Ég vil og veit að Eldheimar geti skilað samfélaginu miklu hærri tekjum og sama er að segja um önnur ferðaþjónustu fyrirtæki. Við gætum líka boðið fjölda skemmtilegra starfa á ársgrundvelli, fyrir utan hve samfélagið væri liflegra og skemmtilegta ef við sæum ferðamenn allt árið um kring. Við sæjum líka oftar hér vini okkar og ættinga sem veigra sér við að koma til Eyja frá Þorlákshöfn, skiljanlega.
Ég legg til að draumurinn um jarðgöng verði lagður til hliðar og við sameinumst um að leggja allt kapp á að fá trausta og fullgerða Landeyjahöfn strax. Við höfum ekki efni eða tíma til að spá, spekúlera og spjalla, á meðan gerist ekkert og heil atvinnugrein, ferðaþjónustan blæðir.
Það má vel vera að það sé hægt að grafa göng á milli lands og Eyja en hver heilvita maður veit að það tekur mörg ár, ef ekki áratugi og kostar hundruð milljarða, og það líka þó að Færeyingar yrðu fengnir til verksins .
Kristín Jóhannsdóttir
Höfundur er safnstjóri Eldheima.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst