„Það má segja að Landsbankinn hafi dreift starfseminni út í útibúanetið. Þegar við mætum til vinnu erum við ekki bara að vinna fyrir Vestmannaeyjar heldur allt landið. Við göngum í mál hvort sem þau eru á Akureyri, Egilsstöðum, Ísafirði, Reykjavík eða hvar sem er. Þegar t.d. Björn á Egilsstöðum fer í greiðslumat og sækir um íbúðalán getur hann lent inni á borði hjá okkur hér í Eyjum. Við tökum þá við og vinnum það alla leið. Sama á við þegar fólk vill endurfjármagna lánin sín,“ segir Jón Óskar Þórhallsson, útibússtjóri Landsbankans í Vestmannaeyjum og lítur á þetta sem mikið byggðamál. „Þetta er umfangsmesta fjarvinnuverkefnið sem gagnast landsbyggðinni sem ég veit um. Landsbankinn hefur haldið dreifðu útibúaneti og tryggt að starfsfólk í útibúunum geti unnið störf sem annars væru unnin miðlægt. Þetta hefur tekist vel og er það sem ég er einna hrifnastur af í starfsemi bankans. Það er ekkert launungamál að okkur hefur fækkað hér í útibúinu, en þar ræður mestu sjálfvirknin og að fólk á síður erindi í útibú en áður. Fækkun stöðugilda á við um allan bankann.“
Virkur á fasteignamarkaði
Jón Óskar segir Landsbankann mjög virkan í fjármögnun fasteigna í Vestmannaeyjum. „Við höfum verið með hagstæð kjör, erum mjög vel samkeppnishæf sem kom í ljós þegar Landsbankinn og Sparisjóður Vestmannaeyja sameinuðust fyrir tíu árum. Áður voru Íslandsbanki og forverar hans sá stóri á markaðnum í Eyjum og hafði þá samkeppnisforskot. Samkeppnin sem kom með Landsbankanum varð til hagsbóta fyrir alla í Vestmannaeyjum. Ekki síst í fasteignalánum þar sem samkeppnin er hörð. Við bjóðum líka í stór lán hjá stóru fyrirtækjunum og þetta er held ég, eitthvað sem allir fagna en þetta hefur tekið tíma. Við komum til Eyja um svipað leyti og Bónus hóf að keppa við Krónuna. Samkeppni varð bæði á matvöru og á lánamarkaði. Kjarabót fyrir alla Eyjamenn.“ Jón Óskar tekur undir að Landsbankinn sé hluti af mikilli uppsveiflu í Vestmannaeyjum síðustu tíu árin. „Fyrir því eru margar ástæður en við höfum sannarlega verið virkir þátttakendur. Við leggjum áherslu á að veita góða þjónustu og við erum með ánægða viðskiptavini sem vilja vera hjá okkur,“ segir Jón Óskar.
Eyjar skipta miklu máli
Hvernig finnst þér viðhorfið úr höfuðstöðvunum til útibúsins? „Mín upplifun er að það skipti Landsbankann miklu að vera í Vestmannaeyjum. Hann er með útibú í öllum stærri bæjunum og ég held að Vestmannaeyjar hafi vantað inn í það net. Maður finnur að þau eru ánægð með að hafa okkur í þeirri keðju. Finn mikinn stuðning og velvilja og mér finnst að Landsbankinn sé upp með sér að vera hérna í Eyjum.“
Jón Óskar segir að stærstu lánabeiðnir, fari í gegnum höfuðstöðvarnar. „En við sinnum að sjálfsögðu sögðu öllum sem til okkar leita. Við höfum líka góða ráðgjafa um ávöxtun sparifjár en ef um stærri upphæðir er að ræða köllum við til ráðgjafa sem eru tilbúnir að koma og fara yfir málin með fólki og bjóða því eignastýringu. Það er svo mikilvægt að við getum þjónustað alla, stóra og smáa með öflugan bakhjarl. Við vorum t.d. nýlega með fræðslu um netsvik og fræðslu fyrir þá sem hyggja á lífeyristöku og var sá viðburður vel sóttur.“
Heppinn með starfsfólk
Jón Óskar segir viðhorf bæjarbúa til Landsbankans sé mjög jákvætt „Þjónustustigið er mjög gott og við leggjum okkur fram um að sinna öllum vel. Ég vil líka benda á að posum merktum Landsbankanum hefur fjölgað í Eyjum. Færsluhirðingu Landsbankans hefur verið vel tekið hérna. Margir í þjónustu og verslun taka þátt í Aukakrónu-samstarfi og við skorum hátt í fjölda þeirra sem bjóða afslátt í gegnum það vinsæla fríðindakerfi hér í Eyjum.“
Eitthvað að lokum? „Landsbankinn var heppinn og erfði mjög gott fólk frá Sparisjóðnum við samrunann á sínum tíma. Því gekk vel að verða Landsbankafólk og læra að aðlagast nýju gangverki. Það var mjög krefjandi verkefni, en jákvæðni starfsfólks og dugnaður, lagði grunninn að velgengni bankans í Vestmannaeyjum sl. tíu ár.“
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst