Rustan forstöðumaður fiskeldis – Snemma boðið að vera með – Byrjaði 16 ára í fiskeldi – Stórt skref fyrir fjölskylduna
„Ég hitti Halla og Lárus í Póllandi árið 2021. Þeir sögðu mér frá áætlunum þeirra um að byggja upp landeldi á laxi í Vestmannaeyjum og hver staðan var. Eftir það fylgdist ég aðeins með. Ekki síst vegna þess að mér leist vel á þá og þeirra sýn,“ segir Rustan Lindquist, nýráðinn forstöðumaður fiskeldis hjá Laxey. Hann kemur frá Svíþjóð og er fluttur til Vestmannaeyja með eiginkonuna Yuliu og dótturina Leonie 11 ára og líkar þeim vel.
„Ég ólst upp í nágrenni við fóðurrannsóknarstöð í fiskeldi suður af Gautaborg. Ein fárra í Svíþjóð og lék mér þar sem barn. Pabbi var mikill veiðimaður, veiddi fisk og stundaði dýraveiðar og oft fiskur í matinn þannig að maður er með þetta í blóðinu. Sextán ára byrjaði ég sem lærlingur í stöðinni og í fullri vinnu ári seinna. Sex eða sjö árum síðar keypti ég stöðina og hóf feril sem eldisbóndi árið 1977. Síðan hef ég starfað við fiskeldi nema í fimm ár þegar ég sá um stjórn á fiskveiðum í Norður Svíþjóð en alltaf er það fiskur sem allt snýst,“ segir Rustan sem strax 2021 fékk trú á verkefninu.
„Þeir voru mjög sannfærandi, komu frá lítilli eyju við Ísland með áætlanir um að byggja stóra laxeldisstöð. Ég hlustaði með athygli og fékk strax áhuga. Það ýtti undir að ég er mikill náttúruunnandi, elska fugla og fiska og náttúrufegurð Vestmannaeyja er einstök. Strax buðu þeir mér að vera með en ég hafði öðrum hnöppum að hneppa,“ segir Rustan sem sló til þremur árum síðar.
Það er stórt skref fyrir fjölskyldu að flytjast milli landa og Rustan segir að velferð hennar hafi verið það sem skipti mestu máli. „Við bjuggum í tvö ár í Kína og Yulia sagðist til í annað ævintýri. Þannig er þessi bransi, þú veist aldrei hvar þú lendir og nú erum við í Vestmannaeyjum og henni og Leonie lýst vel á.“
Hlakkar til að sjá LAXEY stækka
Þegar Rustan var spurður um stærð LAXEYjar, er hún lítil, meðalstór eða stór stóð ekki á svarinu. „Hún er mjög stór, ein sú stærsta en fara verður varlega þegar talað er um stærðir og tölur. Ég stýrði laxeldisstöð í Skagen í Danmörku sem framleiddi 2000 tonn á ári sem þótti mikið í landeldi. Hér verður framleiðslan 10 til 20 sinnum meiri og það er bara verkefni til að takast á við. Ég er ekki ókunnur stórum einingum og allt gengið að óskum. Ég hlakka til að sjá LAXEY stækka og hún á eftir að verða mjög stór. Allt byggist þetta á að ala heilbrigðan fisk og skila góðri vöru. Þar vil ég leggja mitt af mörkum.“
Hverjir eru helstu kostirnir að byggja upp landeldi í Vestmannaeyjum? „Þeir byggja starfsemina á Eyjafólki og auðlindum Eyjanna. Hér er nægur sjór sem dælt er upp úr hrauninu og sjávarhitinn eins og hann gerist bestur í eldi á laxi. Hann er kaldsjávarfiskur og víða er sjórinn of heitur og þarf að kæla. Það er líka næga orku að fá. Það eru kostirnir frá náttúrunnar hendi. Þeir hafa líka valið tækni sem er ekki of flókin sem er mikill kostur þegar kemur að því að nota búnaðinn.“
Í Viðlagafjöru byggir LAXEY á landi sem varð til í Heimaeyjargosinu 1973 og Rustan er meðvitaður um það. „Fyrsta spurning mín var, getur fjaran staðið af sér jarðskjálfta og eldgos? Þeir sögðust engar áhyggjur hafa. Helgafell hefði gosið fyrir 5000 árum og Eldfell rétt 50 ára og því langt í næsta gos. Rannsóknir sýna að fjaran er traust og ber þann mikla þunga sem þar verður þegar stöðin er að fullu komin í gang.“
Fjölskyldunni vel tekið
Ætlar þú að fylgja verkinu til enda? „Það er góð spurning en ég samdi við Daða og Halla til minnst þriggja ára sem gætu orðið sex ár. Þar spilar dóttirin inn í og hvað er best fyrir hana þegar kemur að framhaldsskóla. En tíminn líður hratt og vonandi verður stöðug uppbygging á þeim árum sem ég verð hérna. Starfið er bæði skemmtilegt og áhugavert og það skiptir miklu.“
Rustan segir að fjölskyldunni hafi verið vel tekið og boðin velkomin. „Dóttirin hefur verið sex vikur í Grunnskólanum og er mjög ánægð. Konan fer að vinna hjá LAXEY sem auðveldar henni að kynnast fólkinu og komast inn í samfélagið.“
Þá var komið að stóru spurningunni. Hvernig er að vinna með Daða og Halla? „Ég hef komið að mörgum stórum verkum, kynnst allskonar fyrirtækjum en mér finnst áhugavert hvernig þeir gera hlutina. Þeir standa sig mjög vel í allri áætlanagerð og uppbyggingu og hafa lagt grunn að öflugu fyrirtæki. Það heillar en það er mikil ábyrgð að koma hingað og kenna fólki réttu handtökin við sjálft eldið. Ég kem með reynsluna og nú er það mitt að skila henni til fólksins.
Það er líka einstakt að byggja upp starfsemi af þessari stærðargráðu á lítilli eyju og í litlu samfélagi. Það skiptir því miklu að dæmið gangi upp. Fyrir alla. Það gerir þetta enn áhugaverðara og er verkefni okkar allra. Ég kvíði engu því öll vinna er fagleg og Daði hefur auga fyrir því að allt líti vel út. Gott skipulag og áætlanir og að allt sé snyrtilegt er það sem heillar og gerir þetta skemmtilegt,“ sagði Rustan að endingu.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst