Nýlokið er fundi þar sem hlutafjárútboð Ísfélagsins var kynnt. Þar kom fram mjög fjölbreytt starfsemi félagsins sem er með starfsstöðvar á fjórum stöðum á landinu og með öflugan flota uppsjávar- og botnfiskskipa. Á fundinum fór Stefán Friðriksson, framkvæmdastjóri yfir rekstur Ísfélags sem stendur traustum fótum í íslenskum sjávarútvegi.
Arion banki, ásamt Íslandsbanka og Landsbankanum eru umsjónaraðilar útboðsins sem hófst á fimmtudaginn og lýkur kl. 14.00 á föstudaginn 1. desember. Ákveðið er að selja 14,5% hlut í félaginu. Fram kom á fundinum að andvirði sölunnar sé um 16 milljarðar króna, en miðað við þær forsendur má ætla að markaðsvirði félagsins sé um 110 milljarðar króna. Bæði einstaklingum og fagfjárfestum gefst kostur á að taka þátt í útboðinu.
Í framhaldi verður félagið skráð á Aðalmarkað Kauphallarinnar, sem í gær samþykkti að taka bréf félagsins til viðskipta þann 8. desember.
Hluthafar Ísfélags Vestmannaeyja hf. og Ramma hf. í Fjallabyggð samþykktu samruna félaganna fyrr á árinu og starfar það undir nafninu Ísfélag hf. Í stjórn félagsins eru Einar Sigurðsson, varaformaður, Gunnar Sigvaldason, Gunnlaugur S. Gunnlaugsson formaður, Guðbjörg Matthíasdóttir og Steinunn Marteinsdóttir.
Stefán Friðriksson, er framkvæmdastjóri og Ólafur H. Marteinsson aðstoðarframkvæmdastjóri.
Ísfélag er þriðja stærsta sjávarútvegsfyrirtæki landsins með 8,9% af úthlutuðum aflaheimildum, tæpum 40 þúsund þorskígildistonnum. Af þeim eru um 22,6 þúsund í bolfiski en 16,7 þúsund tonn í uppsjávartegundum. Stærri eru Brim og Síldarvinnslan.
Ísfélag hf. var stofnað árið 1901 og er elsta starfandi hlutafélag landsins. Félagið gerir út fjögur uppsjávarskip, einn frystitogara, þrjú bolfiskskip og einn krókabát. Félagið er með starfsstöðvar í Vestmannaeyjum, á Siglufirði, í Þorlákshöfn og á Þórshöfn. Félagið rekur frystihús og fiskimjölsverksmiðju í Vestmannaeyjum og á Þórshöfn, frystihús í Þorlákshöfn og rækjuverksmiðju á Siglufirði.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst