Nýtt ár byrjaði ekki vel fyrir skólastjórnendur í Barnaskóla Vestmannaeyja því síðdegis í dag kom í ljós talsvert vatnstjón í húsnæðinu. Vatn flæddi í stjórnrými hússins, af þriðju hæð og niður á næstu tvær hæðir. Skemmdir eru miklar, bæði á húsmunum og kennsluefni enda fór vatnið í gegnum vinnuherbergi kennara, þar sem mikið af kennslugögnum skemmdist. Slökkvilið Vestmannaeyja og starfsfólk skólans vinnur nú að því að hreinsa vatnið og bjarga húsgögnum og kennslugögnum.