Málþing í tilefni af 50 ára afmæli Eyjafrétta og 10 ára afmæli eyjar.net :: Ráðherra, fulltrúar fjölmiðla og fleiri höfðu framsögu
„Það er mjög mikilvægt að halda utan um framsækna og öfluga fjölmiðla á Íslandi til að segja fréttir og veita okkur, sem störfum á vettvangi stjórnmálanna eða í atvinnulífinu, nauðsynlegt aðhald sem er brýnt til að við búum í góðu og heilbrigðu samfélagi,” sagði Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, á málþingi sem haldið var í Þekkingarsetri Vestmannaeyja sunnudaginn 7. júlí. Efnt var til málþingsins í tilefni af 50 ára afmæli Eyjafrétta og tíu ára afmæli fréttavefsins eyjar.net. Sem kunnugt er hafa þessir fréttamiðlar nú sameinast og opnað sameiginlega vefsíðu.
Trausti Hjaltason, formaður stjórnar útgáfufélagsins Eyjasýnar, bauð gesti velkomna. Síðan hélt Ómar Garðarsson ritstjóri ræðu og sagði nánar frá tilefni málþingsins og rifjaði upp feril sinn í blaðamennsku. Þá var gengið til dagskrár og var Páll Magnússon, forseti bæjarstjórnar og fyrrverandi útvarpsstjóri og alþingismaður, fundarstjóri.
Fyrstur á mælendaskrá var Arnar Sigurmundsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri sem lengi hefur komið að blaðaútgáfu í Vestmannaeyjum. Hann flutti fróðlegt erindi sem þeir Gísli Valtýsson, prentari og fyrrverandi útgáfustjóri, tóku saman um prentsmiðjur og blaðaútgáfu í Vestmannaeyjum frá 1917 til 2024.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, byrjaði ræðu sína á að rifja upp að hún ólst upp sem „vaktabarn” en foreldrar hennar störfuðu báðir á dagblaðinu Tímanum. Hún kynntist því blaðamennskunni ung að árum. Lilja varpaði fram þeirri tilgátu að umræða í ræðu og riti, fjölmiðlun, sé grundvöllur frjálslynds lýðræðis og framfara. Hún fór síðan yfir Íslandssöguna og mikilvægi tungumálsins okkar. Einnig þýðingu þess að Íslendingar tóku upp latneskt letur í kringum árið 1000. Hún telur það mikilvæga forsendu þess hvað ritöld var blómleg hér.
Gunnar Gunnarsson, ritstjóri vikublaðsins Austurgluggans og vefsins austurfrett.is, fjallaði um mikilvægi þess að fréttir séu skrifaðar og sagðar um allt land, ekki bara á höfuðborgarsvæðinu. Hann kallaði landsvæði án fréttamiðla „fréttaeyðimerkur”. Þaðan er ekkert að frétta vegna þess að enginn segir fréttir þaðan. Þá fjallaði Gunnar um erfitt rekstrarumhverfi og sívaxandi áskoranir sem mæta þeim sem standa að héraðsfréttamiðlum. Hann greindi frá hugmyndum um aukið samstarf héraðsfréttamiðlanna og nauðsyn þess að þeir standi saman í baráttunni.
Kristján Már Unnarsson, fréttamaður á fréttastofu Stöðvar 2 og Bylgjunnar, greindi m.a. frá því að kannanir sýni að almenningur hefur mikinn áhuga á fréttum af landsbyggðinni. Það sé því vænlegt fyrir fjölmiðla á landsvísu að segja slíkar fréttir. Kristján fjallaði einnig um hvað Vestmannaeyjar hafa verið ríkuleg uppspretta frétta á landsvísu og jafnvel á heimsvísu og nefndi í því sambandi Surtseyjargosið 1963 og Heimaeyjargosið 1973. Einnig fréttir af Keiko á sínum tíma og mjaldrasystrunum.
Guðmundur Sv. Hermannsson, blaðamaður og fyrrverandi fréttastjóri á Morgunblaðinu og mbl.is, rifjaði upp mikilvægi fréttaritara hringinn í kringum landið en Morgunblaðið var með allt að 100 slíka þegar þeir voru flestir. Öflugir fréttaritarar vöktu mikla athygli á sínum heimabyggðum og komu þeim á kortið, fréttalega séð. Guðmundur sagði að héraðsfréttamiðlarnir gegni enn mikilvægu hlutverki og mikilvægt sé að tryggja framtíð slíkrar fréttaþjónustu.
Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður Blaðamannafélags Íslands (BÍ), sagði að ekki geti margir íslenskir fjölmiðlar státað af 50 ára sögu líkt og Eyjafréttir. Hún sagði að BÍ hafi efnt til herferðar til að efla vitund almennings um mikilvægi blaðamennsku. Blaðamennskan eigi undir högg að sækja um allan heim en blaðamenn séu fulltrúar almennings gagnvart valdhöfum. Þá benti hún á að stóru fjölmiðlarnir séu með aðsetur á höfuðborgarsvæðinu en mikilvægt sé að sinna hinum dreifðari byggðum einnig líkt og héraðsfréttamiðlarnir gera. Hún hvatti fólk til að gerast áskrifendur að þeim.
Valgeir Örn Ragnarsson, varafréttastjóri Ríkisútvarpsins, sagði m.a. að samkvæmt þjónustusamningi Ríkisútvarpsins við menningar- og viðskiptaráðherra sé lögð áhersla á þjónustu við alla landsmenn og að RÚV endurspegli landfræðilega fjölbreytni íslensks samfélags. Fréttastofa RÚV er með starfsemi og fréttamenn í flestum landshlutum og er stefnt að því að efla þann þátt. Þá benti hann á almannaþjónustufyrirtækin NRK í Noregi og YLE í Finnlandi, sem hafa svipað hlutverk og RÚV. NRK heldur úti 15 starfsstöðvum í Noregi og YLE um 30 starfssstöðvum í Finnlandi. Valgeir sagði RÚV leita leiða til að efla samstarf við héraðsfréttamiðlana og auka þjónustu sína um landið.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, steig aftur í pontu og sagði m.a. að hún stefni að því að leggja nýja fjölmiðlastefnu í haust. Þá sé mikilvægt að vera bæði í vörn og sókn fyrir tungumálið okkar, íslenskuna. Þar getur gervigreindin komið að notum enda búið að leggja mikla fjármuni í að kenna henni íslensku.
Í lok málþingsins afhenti Gunnar Gunnarsson ritstjóri Lilju Dögg Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptaráðherra, yfirlýsingu frá forsvarsmönnum héraðsfréttamiðlanna. Þar kemur m.a. fram að aukinn beinn stuðningur hins opinbera sé lífsnauðsynlegur fyrir héraðsfréttamiðlana. Þá er bent á þá staðreynd að íslenska ríkið á enn langt í land með að styðja við einkarekna fjölmiðla í sama mæli og gert er á Norðurlöndunum. Yfirlýsinguna má lesa í heild sinni hér.
Guðni Einarsson
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst