Það var í mörg horn að líta hjá Ólafi Einarssyni, skipstjóra á nýrri Heimaey VE 1 og áhöfn hans þegar blaðamaður leit þar við. Allt á fullu undirbúa skipið fyrir fyrsta túrinn eftir að Ísfélagið fékk skipið afhent. „Við erum að aðlaga skipið að okkar þörfum, smá breytingar hér og þar en heilt yfir lítur skipið mjög vel út. Ekki mikið notað og við allt aðrar aðstæður en við erum vanir. Skotarnir gátu tekið þetta vísindalega og eftir því sem þeim hentaði,“ sagði Ólafur sem hefur upplifað miklar breytingar frá því hann byrjaði á sjó árið 1977, sextán ára sem fullgildur háseti. „Mesta stökkið var að fara af Faxa VE og Álsey VE yfir á Heimaey sem kom ný frá Síle árið 2012, að fara á skip sem var sérstaklega smíðað fyrir f lottrollsveiðar. Við vorum þá að byrja á kolmunnaævintýrinu, vinna okkur inn veiðireynslu og vorum á sjó allt árið. Faxi hafði verið togaður og teygður í allar áttir en þarna vorum við komnir með skip sem stóðst nútímakröfur um öryggi, aðbúnað og vélbúnað til að stunda veiðar við erfiðar aðstæður.“ Heimaey reyndist á allan hátt mjög vel, fallegt skip og reyndist vel. „Stökkið er minna núna þó sú nýja sé stærri og aflið meira. Líka alltaf einhver þróun fram á við, eitthvað nýtt,“ segir Ólafur. „Ef við lítum lengra aftur, á Kap þá er munurinn allur. Alveg sama hvar á það er litið. Held að maður gæti ekki bjargað sér ef maður ætti að fara á loðnuveiðar á svoleiðis pung. Það hafa komið loðnuvertíðar sem varla hefði verið hægt að stunda veiðar vegna veðurs á þessum gömlu bátum. Það sama á við makríl og síld sem við höfum þurft að sækja mjög langt, síldina langt vestur af landinu og makrílinn austur í Smugu. Það hefði ekki verið möguleiki á þessum gömlu bátum.“
Tækninni fleytt fram
Mesta byltingin er að mati Ólafs að eitt svona skip er orðin ein tölva. „Samband um allan heim og þú getur verið með menn hinum megin á hnettinum að vinna fyrir þig í tækjum og tólum. Hvar og hvenær sem er. Það er risabylting en ég hef ekki talið þá,“ segir Ólafur þegar hann er spurður um fjölda skjáa í brúnni. „Þetta eru dýptarmælar, ratsjá, asdiktæki, plotterar og nemar á trollunum sem sýna m.a. aflann sem kominn er í pokann. Þetta er flókinn búnaður en núna erum við með unga menn sem eru vel að sér og græja hlutina. Til allrar hamingju hefur maður þá til að redda hlutunum þegar allt er komið í steik. Allt í gegnum tölvur.“ Auðvelt er að finna upplýsingar um veður, sjávarhita og hvar sé líklegast að fisk sé að fá. „Þetta hefur breyst alveg gríðarlega, þú getur sótt allar upplýsingar sem þig vantar í gegnum tölvurnar. Þarft ekki bíða eftir veðurfregnum og þó veðurkortaritarnir hafi verið góðir á sínum tíma eru þeir orðnir safngripir. Nú ertu með þetta allt á skjánum og getur spólað fram og til baka.“ Auðvitað hlakka ég til að takast á við nýtt verkefni,“ segir Óli Einars sem er þessa stundina í fyrsta túr sumarsins á makríl á nýrri Heimaey.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst