Það var með ólíkindum þegar Umhverfisstofnun með fulltingi þáverandi umhverfisráðherra beitti öllum tiltækum ráðum til að loka sorporkustöð Vestmannaeyja árið 2011. Með tilheyrandi auknum kostnaði og umhverfissóðaskap hefur brennanlegt sorp í Vestmannaeyjum verið flutt um langan veg þar sem það er urðað með tilheyrandi umhverfisáhrifum. Nú gæti lausn verið í sjónmáli. Á fundi sem Ásmundur Friðriksson boðaði til laugardaginn 7. október voru kynntar nýjar lausnir í sorpeyðingarmálum. Á fundinn komu Stefán Guðsteinsson og Júlíus Sólnes og kynntu nýja gerð af umhverfisvænum sorpbrennslustöðvum fyrir meðalstór sveitarfélög eins og Vestmannaeyjar.
Kynntu þeir 1 MW sorporkustöð fyrir brennslu á 1000 til 3000 tonnum af afgangssorpi, sem annars færi til urðunar. Virðist þetta vera áhugaverður kostur fyrir Vestmannaeyjar. Um er að ræða færanlegar hátæknisorpbrennslustöðvar frá finnska fyrirtækinu FerroPower í Orimattila í Finnlandi. Stöðvarnar segja þeir uppfylla ströngustu kröfur Evrópusambandsins um mengunarvarnir og framleiða sem nemur 8000 MWstundum/ári af sjóðandi heitu vatni. Einnig er hægt að bæta raforkuframleiðslueiningu við stöðina þannig að hún framleiði 750 MW stundir á ári af rafmagni inn á dreifikerfi rafmagns. Ef sorpmagn kallar á stærri stöð er auðvelt að bæta annarri einingu við.
Sorporka ehf. er í eigu Skeljungs hf. og þriggja einstaklinga, þeirra Braga Más Valgeirssonar, iðnfræðings og vélstjóra, Stefáns Guðsteinssonar skipatæknifræðings og Júlíusar Sólnes, prófessor emerítus og fyrrum umhverfisráðherra. Þeirra hugmynd er að eignarhald brennslustöðvarinnar gæti verið 85% í eigu Sorporku ehf og 15% í eigu sveitarfélagsins sem gerir málið að enn áhugaverðari kosti..
Sorporka ehf. hefur undirritað samkomulag við finnska fyrirtækið Ferro Power um að reisa slíkar stöðvar á Íslandi. Er gert ráð fyrir, að Sorporka fjármagni, byggi, eigi og reki stöðvarnar. Forsenda þess er sú, að sveitarfélagið geri 25 ára samning við Sorporku um að afhenda það sorp, sem annars færi til urðunar.
Er þá gert ráð fyrir, að sveitarfélagið greiði svokallað hliðgjald, útvegi hentuga lóð fyrir stöðina og aðstoði við að tengja inn á dreifikerfi fyrir heitt vatn og raforku.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst