Forsvarsmenn Sparisjóðs Vestmannaeyja gengu á fund Fjármálaeftirlitsins nú á fjórða tímanum. Á fundinum munu þeir leggja fram þrjár tillögur sem miða að því koma sjóðnum í rekstrarhæft horf. Eins og Morgunblaðið hefur fjallað um hefur atburðarásin verið nokkuð hröð síðustu sólarhringana og nú síðast barst stjórn Sparisjóðsins erindi frá Arion banka þess efnis að bankinn væri áhugasamur um að gera tilboð í sjóðinn. �?að gerðist eftir að Morgunblaðið upplýsti um að til stæði að Landsbankinn gerði tilboð í Sparisjóðinn.
Í fyrsta lagi er lagt til að sjóðurinn verði áfram rekinn sem sjálfstæð fjármálastofnun og að erlendur aðili komi að sem nýr meirihlutaeigandi. Í öðru lagi er tillaga um að Landsbankinn taki yfir starfsemi sjóðsins og í þriðja lagi kemur til greina, í ljósi nýjasta útspil Arion banka, að hann taki yfir starfsemi sjóðsins með einum eða öðrum hætti.
Morgunblaðið hefur heimildir fyrir því að það hafi gerst fyrr í dag að erlendur fjárfestir hafi lýst sig reiðubúinn til að leggja sjóðnum til nýtt eigið fé og að þar sé um að ræða framlag sem tryggja muni viðkomandi meirihlutaeign í sjóðnum.
Fjármálaeftirlitið hafði veitt stjórn Sparisjóðs Vestmannaeyja frest til klukkan 16:00 í dag til að skila inn fullnægjandi tillögum sem tryggt gætu eiginfjárstöðu sjóðsins. Ekki er vitað á þessari stundu hvort sá frestur verði framlengdur eða hvort Fjármálaeftirlitið muni nú þegar ákveða hvort einhver hinna þriggja leiða verði fyrir valinu eða hvort Sparisjóðnum verði skipuð slitastjórn.