Til margra ára hefur verið hefð fyrir því að Eyjafréttir og áður Fréttir, hafa tekið þátt í að verðlauna efnilega leikmenn ÍBV, bæði í handbolta og fótbolta, fyrir afrek sín með svokölluðum Fréttabikurum. Eins og svo oft áður þá var enginn skortur á verðugum handhöfum þessara verðlauna í ár og því vafalaust erfitt fyrir þjálfara að skera úr um hver hafi átt þau skilið. Tveir leikmenn þóttu þó standa öðrum framar en það voru þau Friðrik Hólm Jónsson og Sandra Erlingsdóttir.
Friðrik Hólm spilaði 16 leiki með meistaraflokki í vetur og tíu leiki með ÍBV U í 1. deildinni. Friðrik, sem er fæddur árið 1998, var einnig gjaldgengur með 3. flokki þar sem hann var algjör lykilmaður. Líkt og margir aðrir leikmenn ÍBV varð Friðrik fyrir því óláni að meiðast í vetur sem gerði það að verkum að hann missti af þó nokkrum leikjum. �?að hefur þó margsannað sig að þegar á móti blæs koma menn oftar en ekki tvíefldir til baka og verður það vafalaust raunin með Friðrik.
�?rátt fyrir ungan aldur hefur Sandra Erlingsdóttir verið lykilmaður í meistaraflokki ÍBV frá því hún gekk til liðs við félagið fyrir tímabilið en áður var hún á mála hjá þýska úrvalsdeildarfélaginu Füsche Berlin. Á leiktíðinni lék Sandra 20 leiki fyrir meistaraflokk í deildinni og skoraði í þeim 97 mörk, sem gerir hana að næstmarkahæsta leikmanni liðsins, ásamt því að hafa skapað ótal tækifæri fyrir liðsfélaga sína. Líkt og Friðrik Hólm er Sandra fædd árið 1998 og hefur því sömuleiðis keppnisrétt með 3. flokki en þar var hún kjörinn besti leikmaður liðsins.
Sandra lét einnig mikið af sér kveða með U-19 ára landsliði Íslands sem tók þátt í undankeppni EM í mars en þar var hún valin í úrvalslið undankeppninnar þrátt fyrir að íslenska liðið hafi ekki komist upp úr riðlakeppni.