Framundan eru stórar framkvæmdir sem munu hafa mikil áhrif á íþróttastarf og samfélagið í Vestmannaeyjum. Lagning gervigrass á Hásteinsvöll er löngu tímabær og mikilvæg, en hún má ekki vera hálfkláruð. Að sleppa því að leggja hitalagnir undir völlinn núna væri skammsýn ákvörðun sem gæti haft í för með sér aukinn kostnað og minni nýtingu í framtíðinni. Við verðum að sjá til þess að þessi framkvæmd skili sem mestum ávinningi fyrir börnin okkar og samfélagið okkar.
Með upphitun undir gervigrasið yrði Hásteinsvöllur nýtanlegur allt árið. Það eykur notagildi vallarins og stuðlar að betri nýtingu fjármagns sem þegar hefur verið ráðstafað til framkvæmdarinnar. Þegar horft er til annarra sveitarfélaga sem hafa innleitt upphitun, hefur það ekki aðeins lengt líftíma gervigrassins heldur einnig stuðlað að auknu öryggi og minni slysahættu, sem er sérstaklega mikilvægt fyrir börn og ungmenni.
Áætlanir um rekstrarkostnað hitalagna hafa verið gagnrýndar og réttilega svo. Þær forsendur sem bæjaryfirvöld leggja til grundvallar eru bersýnilega óraunhæfar miðað við reynslu annarra félaga, svo sem Víkinga í Reykjavík. Þeir hafa sýnt fram á að raunnotkun og kostnaður við slíka upphitun getur verið mun lægri. Meðalhitastig í Vestmannaeyjum gefur jafnframt til kynna að þörfin fyrir upphitun væri minni en á höfuðborgarsvæðinu.
Það er ekki aðeins nýtingartími vallarins sem skiptir máli. Vestmannaeyjar eru háðar samgöngum við meginlandið og á vetrartímum er Landeyjahöfn oftast fær í norðanátt. Því miður fylgir norðanáttinni frost, sem þýðir að völlurinn gæti orðið ónothæfur ef ekki er upphitun til staðar jafnvel þó lið frá meginlandinu kæmust yfir. Í slíkum aðstæðum myndu því börn og unglingar sem ættu að spila heimaleiki undir merkjum ÍBV nauðbeygð til að ferðast meira og líkt og í dag spila heimaleiki sína uppi á landi sökum aðstöðuskorts. Því fylgir aukinn kostnaður á heimili barnanna, aukin fjarvera ungra íþróttamanna frá námi auk þess sem þekkt er að ferðalög skapa aukið álag, bæði líkamlegt og andlegt á íþróttamenn. Við verðum að spyrja okkur: Erum við tilbúin að leggja þetta aukaálag á börnin og íþróttamennina okkar til að spara nokkrar krónur í stóra samhenginu?
Með upphitun yrði hægt að spila heimaleiki í Vestmannaeyjum, jafnvel á köldustu tímum ársins. Það myndi ekki aðeins draga úr ferðalögum og útgjöldum fjölskyldna heldur einnig spara tíma sem annars færi í að ferðast til og frá heimabyggð. Fyrir foreldra og börn myndi þetta skapa meiri stöðugleika og bæta lífsgæði. Það er mikilvægt að við hugsum um áhrif slíkrar ákvörðunar á fjölskyldulíf í Vestmannaeyjum – samfélagið okkar á að vera barnvænt og styðja við börn og ungmenni.
Vestmannaeyjabær hefur lengi verið þekktur sem fjölskylduvænt samfélag og íþróttabær, hér er gott að búa, enda lögð áhersla á fjölbreytt mannlíf, sterka íþróttaiðkun og fjölskyldugildi. Ákvörðunin um að sleppa hitalögnum gengur þvert á þann metnað. Með því að setja hitalagnir núna, jafnvel þó þær verði ekki strax tengdar, sýnum við að við erum tilbúin að fjárfesta í framtíðinni. Þetta er ekki kostnaður, heldur fjárfesting sem mun skila sér margfalt til baka í formi aukins notagildis, minni slysahættu, betri nýtingar fjármagns og að ógleymdu hagræðingar fyrir heimilin.
Við sem samfélag hljótum að vilja búa svo um hnútana að börnin okkar og fjölskyldur þeirra njóti bestu mögulegu aðstöðu. Það er ekki nóg að láta sig dreyma um betri framtíð fyrir íþróttastarfsemi í Vestmannaeyjum – við verðum að láta verkin tala. Bæjaryfirvöld þurfa að endurskoða forsendur sínar, leita hagkvæmra lausna og tryggja að hitalagnir verði lagðar undir Hásteinsvöll núna. Það er eina leiðin til að tryggja að þessi framkvæmd uppfylli þær væntingar sem við höfum öll um íþróttaaðstöðu í heimabyggð og verði sá minnisvarði sem þarf að rísa.
Við eigum ekki að sætta okkur við hálfkláraðar lausnir. Förum alla leið – gerum betur fyrir börnin okkar.
Ásta Hrönn Guðmannsdóttir
Davíð Egilsson
Eyrún Sigurjónsdóttir
Guðbjörg Guðmannsdóttir
Halla Björk Hallgrímsdóttir
Helga Sigrún Þórsdóttir
Jónas Guðbjörn F. Jónsson
Óskar Jósúason
Richard Bjarki Guðmundsson
Sindri Viðarsson
Þorsteina Sigurbjörnsdóttir
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst